15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

1. mál, fjárlög 1954

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir íslendingar. Þeir ræðumenn, sem hér hafa talað af hálfu stjórnarflokkanna og kommúnista, hafa lagt á það sérstaka áherzlu, að Alþfl. væri í senn óábyrgur stjórnarandstöðuflokkur vegna yfirboða við kommúnista, og svo hafa kommúnistar sjálfir reynt að telja landsmönnum trú um þjónkun okkar Alþfl.- manna við stefnu núverandi ríkisstj. Af. þessari viðleitni öfgaflokkanna til hægri og vinstri má hlustendum þessara umr. vera ljóst, að Alþfl. hefur það sem af er þessu þingi, eins og hingað til, verið í andstöðu við þessar öfgar og barizt fyrir rétti fólksins um bætt lífskjör og réttlátari skiptingu þjóðarteknanna.

Þessi stefna Alþfl. hefur ljóslega birzt í frv. og till. flokksins hér á Alþ. Höfuðmál flokksins hafa að venju verið forsvar fyrir alþýðusamtökin og barátta fyrir rétti þeirra. Alþfl. hefur í framhaldi þessarar stefnu sinnar flutt frv. um breyt. á l. nr. 53 frá 27. júní 1921, um hvíldartíma háseta á íslenzkum botnvörpuskipum. Þing eftir þing hafa Alþfl.- menn barizt fyrir þessari sanngjörnu og réttlátu kröfu sjómanna. Þegar vökulögin eldri voru til umr. og afgreiðslu á hv. Alþ. fyrst, um og eftir 1920, og svo aftur 1928, töldu forsvarsmenn atvinnurekenda, að með þessu væri verið að leggja þennan atvinnuveg í rústir. Nú er reynsla fengin á þessu máli, og sannazt hefur spá þm. Alþfl. um, að réttlátur hvíldartími sjómanna sé fyrst og fremst hagur útgerðarinnar. Af þessum ásfæðum eru forsvarsmenn atvinnurekenda nú hljóðir og kjósa þann kost helztan að þegja um málið. Alþfl. barðist og mun berjast til sigurs í þessu máli.

Orlofslögin, sem nú eru í gildi um 4% orlof, eru á komin fyrir baráttu Alþfl., og sú breyt., sem gerð var á orlofsréttinum með samningum verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda í des. 1952 um 5% orlof undir forustu og fyrir áeggjan Alþýðusambandsins, er einnig fyrir forgöngu Alþfl.-manna. Í beinu framhaldi af þessari fyrri baráttu hefur Alþfl. nú flutt frv. til I. um 6% orlof, eða 18 daga í stað 12 áður.

Þá hefur Alþfl. einnig flutt frv. til l. um breyt. á l. um félagsheimili, þar sem gert er ráð fyrir, að verkalýðsfélögin njóti sama réttar og önnur virðingarverð menningarfélög um opinberan styrk til byggingar félagsheimila.

Frv. Alþfl. um sömu laun karla og kvenna hefur einnig að vonum vakið mikla athygli fólks og þá sérstaklega í röðum íslenzkra verkakvenna og skrifstofufólks, en hér er um eitt af frumverkefnum íslenzkra verkalýðssamtaka að ræða. Krafa kvenþjóðarinnar um jafnrétti, sömu laun fyrir sömu vinnu, er ein af mannréttindakröfum, sem frelsishreyfingar Norðurálfu hafa barizt fyrir frá því um miðja 19. öld til dagsins í dag. Þetta frv. er fram borið í trausti þess, að löggjafinn komi til móts við réttan málstað og sýni enn á ný framsýni Íslendinga og íslenzkrar félagsmálalöggjafar.

Hér hefur lauslega verið minnzt á þau helztu mál, er Alþfl. hefur flutt og þá sérstaklega snúa að félagsmálum, félagslegum baráttumálum verkalýðsfélaganna, en á þeim má vera ljóst, hve mikill sannleikur er í þeim málflutningi kommúnista og þá sérstaklega hv. 4. landsk. þm., Gunnars Jóhannssonar, hér í gærkvöld varðandi Alþfl. og verkalýðssamtökin. Þessi hv. þm. virðist hafa gleymt því, að sá flokkur, sem ber ábyrgðina á því, að verkalýðsfélögin fá ekki meiru áorkað en raun ber vitni, er einmitt kommúnistaflokkurinn, sá, sem hann telst hér fulltrúi fyrir. Íslenzk alþýða veit betur. Hún veit, hver klauf alþýðusamtökin 1938 og 1942. Þær blóðtökur, sem þá fóru fram í alþýðusamtökunum fyrir atbeina kommúnista, eru nú að koma yfir þá sjálfa. Þess vegna hrópa þeir nú í angist sinni um samvinnu við Alþfl., á sama tíma og þeir eru að telja þjóðinni trú um, að hann sé verkafólki fjandsamlegur. Meðlimir verkalýðssamtakanna hafa séð í gegnum svikavef kommúnista. Þess vegna hafa þeir misst tiltrú til forustu í Alþýðusambandinu og fjölmörgum verkalýðsfélögum, er þeir réðu áður. Síðustu alþingiskosningar sýndu einnig, að almenningur utan sjálfra verkalýðsfélaganna er sömu skoðunar um, að forustumenn kommúnista séu óþurftarmenn í íslenzkum stjórnmálum. Enginn má sköpum renna og það verða þessir sundrungarmenn með sameiningarnafnið að sætta sig við.

Varðandi húsnæðismálin, eitt alvarlegasta vandamál þéttbýlisins og þá sérstaklega Reykjavíkur, hefur Alþfl. einnig flutt ýtarlegt frv. um fjáröflun til þeirra framkvæmda. Hinir gífurlegu fólksflutningar til Reykjavíkur og sjávarsiðunnar hér suðvestanlands á síðustu árum hafa orsakað gífurleg húsnæðisvandræði á þessum stöðum. Í þessu frv. er m.a. gert ráð fyrir að heimila ríkisstj. á árunum 1954–57 að taka lán allt að 5ð millj. kr. árlega til kaupa á skuldabréfum byggingarsjóðs verkamanna og byggingarsamvinnufélaga og einnig til þess að lána lánadeild smáíbúða og sveitarfélögum til íbúðarhúsabygginga. Frv. sem heild er 4 ára áætlun Alþfl. til lausnar þessu mesta vandamáli fátækasta og launalægsta fólksins í landinu.

Fyrsta mál Alþfl. á þessu þingi, sem útvarpshlustendum er þegar kunnugt um frá útvarpsumr. héðan frá Alþ. fyrir mánuði, var þáltill. Alþfl. um endurskoðun varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Þessi endurskoðunartill. hefur hlotið góðar undirtektir hér á Alþ., enda er hún byggð á staðreyndum vegna þeirra ýmsu annmarka, er fram hafa komið við samninginn og framkvæmd hans. Till. sjálf og allur málflutningur hennar vegna hefur borið glöggt vitni um, að Alþfl. hefur tekizt að koma hér á framfæri skoðunum meginþorra landsmanna um nauðsynlegar lagfæringar, án þess þó að þjóðinni stafi bráð hætta af sökum varnarleysis, ef til ófriðar kynni að draga. Till. er íslenzk og ekki flutt í þágu neins stórveldis eins og till. kommúnista og þjóðvarnarmanna.

Enn þá hef ég þó ekki minnzt á það málið, sem ávallt er það veigamesta í starfi stjórnmálaflokka þess fólks, sem afkomu sína byggir á erfiði handa sinna, eins og Alþýðuflokksins, en það eru atvinnumálin, atvinnuöryggið. Þessi dygga fylgivofa hins íslenzka íhalds, atvinnu- og öryggisleysið, hefur ekki setið aðgerðalaus við þær tvær umr., sem þegar hafa farið fram um fjárlög ársins 1954, og á sjálfsagt eftir að birtast í ríkari mæli meðal annars í afstöðu stjórnarflokkanna til þeirra 18 frv. og þáltill., er Alþfl. hefur þegar lagt fram og allar miða að raunhæfu afkomuöryggi almennings. Frv. um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar og um olíueinkasölu ríkisins eru ljós vottur þessarar baráttu. En hver urðu svo viðbrögð hæstv. ríkisstj. undir forustu Sjálfstfl.? Allar brtt. Alþfl. við fjárl. um aukið framlag til atvinnuaukningar voru felldar við 2. umr.

Sjálfstfl. jók nokkuð þingmannatölu sína við síðustu alþingiskosningar í bæjum og kaupstöðum landsins á þeim áróðri fyrst og fremst, að hann og hans forusta hefði yfirráð og aðgang að þeim peningastofnunum landsins, er helzt möluðu gull til atvinnuframkvæmda, kæmust þeirra frambjóðendur á þing, yrði næg atvinna. Hverjar eru efndir þessara loforða? Svörin eru þessi: Það er ef til vill hægt að koma ykkur fyrir suður á Keflavíkurflugvelli. — Þetta eru staðreyndirnar um íhaldsefndir. Hvað varðar Sjálfstfl. um það, þó að heil byggðarlög geti ekki hagnýtt sér einasta atvinnutæki sitt, t.d. togara, vegna þess að fé skortir til áframhaldsframkvæmda við fiskiðjuver? Efndirnar eru þær af þessum sökum, að togarinn er ef til vill gerður út í fjarlægum byggðarlögum og felldar till. um fjárframlög til þess að hagnýta afla hans og annarra báta heima fyrir.

Góðir Íslendingar. Þið hafið fyrir ykkur loforð Sjálfstfl. frá því í júní í sumar og hinar sáru staðreyndir um svikin loforð þegar á fyrsta þingi. Ákvarðanir erlendra hernaðaryfirvalda um atvinnuframkvæmdir eru einasta haldreipið um atvinnuöryggi ykkar. Yrðu þær 3–4 þús. manns, sem vinna á Keflavíkurflugvelli, að leita til annarra starfa, er öllum hugsandi mönnum ljóst, hvaða ástand hefði skapazt. Alþfl. mun berjast fyrir hinu raunhæfa afkomuöryggi almennings þrátt fyrir viðbrögð núverandi ríkisstj. og hennar sviknu kosningaloforð. Til þessarar baráttu treystir hann á fylgi ykkar, um leið og hann varar við sundrungariðju hinna fjarstýrðu fulltrúa innan þings og utan. Það er sú eining ein, er getur veitt okkur styrkinn til áframhaldandi baráttu.