15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

1. mál, fjárlög 1954

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þær fullyrðingar og öfgar, sem komu hér fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv. og hjá hv. þm. Eggert Þorsteinssyni um það, að Sjálfstfl. hafi raunverulega ekki unnið á við síðustu kosningar, eru ýkjur, sem tæplega tekur að svara. Sjálfstfl. vann 4 þingsæti. Sjálfstfl. bætti við sig mörgum atkv., þrátt fyrir það, þótt nýr flokkur væri stofnaður og fylgismenn þess nýja flokks væru flestir gamlir sjálfstæðismenn. Sjálfstfl. hélt velli og bætti við fylgi sitt, vegna þess að fólkið aðhyllist þær hugsjónir og baráttumál, sem Sjálfstfl. berst fyrir. Það treystir Sjálfstfl. Það treystir ekki Alþfl. Þess vegna er Alþfl. lítill flokkur og áhrifalaus í íslenzkum stjórnmálum.

Útvarpsumr. þær, sem hér fara fram að þessu sinni, hafa þegar sýnt og munu sýna enn betur, hversu aum stjórnarandstaðan er. Stjórnarandstæðingar tala um það í öðru orðinu, að vinna beri að sparnaði og að afgreiða beri fjárlög með gætni, en bera upp á sama tíma tugmilljónatill. til útgjalda, sem mundu, ef þær væru samþ., koma fjárhagskerfi landsins í fullkomið öngþveiti. Útgjaldaaukningunni telja þessir vísu menn að megi mæta með því að hækka tekjuáætlun fjárl. sem þessu nemur og ná þannig greiðslujöfnuði á pappírnum. Ef stefna stjórnarandstæðinga fengi að ráða í fjármálum og atvinnumálum, mundi ríkja hér glundroði og upplausn, ríkið kæmist í greiðsluþrot, atvinnulífið lamaðist og atvinnutækin mundu stöðvast. Það er stefna ríkisstj. og stjórnarflokkanna að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., ekki aðeins á pappírnum, heldur einnig í framkvæmd.

Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um málefnasamning og stefnu í fjármálum, atvinnumálum og framkvæmdum, sem miðar að því að bæta lífskjör alls almennings í landinu. Hver ríkisstjórn, sem vill heill lands og þjóðar, hlýtur að gera sér grein fyrir því veigamikla hlutverki, sem í því felst að tryggja pólitískt og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Efnahagslegt sjálfstæði byggist á því, að þjóðin eignist og afli sér atvinnutækja, sem framleiði nægileg verðmæti fyrir þörfum þjóðarinnar til neyzlu og uppbyggingar atvinnulífinu og öðrum nauðsynlegum framkvæmdum. Til þess að það megi ske hjá okkar fámennu þjóð, verður að nýta vinnuaflið sem bezt og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Pólitískt sjálfstæði byggist á lýðræði og mannréttindum, ritfrelsi og skoðanafrelsi og viðurkenndum rétti til handa smáþjóðum til þess að ráða málum sínum án íhlutunar annarra.

Á komandi ári eru 10 ár liðin síðan þjóðin fékk fullt frelsi viðurkennt og lýðveldið var stofnað. Sjálfstæði þjóðarinnar er sá hornsteinn, sem byggja skal á í nútíð og framtíð. Miða þarf öll störf í fjármálum og atvinnumálum, utanríkismálum og öðrum athöfnum við það, að sjálfstæði landsins verði tryggt.

Það er viðurkennt, að horfur í heimsmálum séu ótryggar. Stórveldin hervæðast, og kalda stríðið veldur mörgum áhyggjum. Nútímatækni gerir heiminn lítinn. Hinar miklu vegalengdir og fjarlægðir, sem áður veittu vernd og héldu okkar landi utan við átök í styrjöldum, eru horfnar og við erum í hringiðunni og getum ekki lengur verið hlutlaus áhorfandi. Það er aðeins eitt, sem megnar að vernda smáþjóðirnar á þessum tímum, en það eru samtök hinna frelsisunnandi þjóða, þjóða, sem virða mannréttindi og rétt smáþjóðanna til þess að lifa sjálfstæðar. Án þessara samtaka ættu smáþjóðirnar á hættu að verða þurrkaðar út og að verða marðar undir járnhæl einræðis og kúgunar, eins og mörg dæmi sýna um smáríki, sem vegna legu sinnar hafa ekki átt þess kost að njóta verndar vestrænna samtaka og menningar. Nú um skeið hefur dvalið í landinu varnarlið frá vinarþjóð. Lið þetta er hér samkvæmt samningi, sem er uppsegjanlegur af báðum aðilum. Dvöl liðsins í landinu er illa séð af ýmsum, enda er óspart reynt að gera setu þess tortryggilega af kommúnistum og hjálparmönnum þeirra, Þjóðvfl. Sjálfsagt er að gera sér grein fyrir því, að fámennri þjóð getur stafað hætta af dvöl fjölmenns liðs í landinu til langframa. Verður því að haga málum þannig, að ekki komi til árekstra eða vandræða. Reynslan kennir okkur margt í þessu efni, og ættu Íslendingar nú að kunna nokkur skil á þessum málum og hvernig þeim ber að haga í samskiptum við varnarliðið. Með tilliti til reynsluleysis okkar í þessum málum má teljast undrunarefni, hversu giftusamlega hefur tekizt, hversu fáir árekstrar og lítil vandræði hafa skapazt í samskiptum landsmanna við varnarliðið.

Það er skylt og rétt að viðurkenna og þakka fyrrv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni, fyrir hans ómetanlegu störf sem utanrrh., þegar þjóðin, reynslulitil í þessum málum, tók við varnarliðinu. Það var gæfa Íslands að hafa þá í sæti utanrrh. mann, sem hafði viðsýni, þekkingu og lagni til þess að koma í veg fyrir margs konar vandræði. Það er ósk allra þjóðhollra Íslendinga, að hinn nýi utanrrh. megi verða gifturíkur í starfi og halda á málum með líkri festu og viðsýni og Bjarni Benediktsson, að hann megi notfæra sér þá reynslu, sem þegar er fengin í þessum málum.

Í málefnasamningi þeim, sem gerður var við myndun núverandi ríkisstj., er svo kveðið á, að efla beri atvinnulífið, koma mörgum framfaramálum í höfn og auka athafnafrelsi manna. Eitt atriðið í málefnasamningnum er það, að fjárhagsráð skuli lagt niður. Því atriði er fullnægt með frv. ríkisstjórnarinnar um innflutnings- og gjaldeyrismál, fjárfestingarmál o.fl. Frv. þetta varð að lögum í dag. Samkvæmt þessum lögum hættir fjárhagsráð störfum frá n.k. áramótum, og bresta þar með ýmsir hlekkir, sem haldið hafa föstum mörgum nauðsynlegum framkvæmdum í landinu. Með þessum lögum er frelsi til athafna aukið, meðferð gjaldeyris- og innflutningsmála gerð einfaldari og réttlátari í framkvæmd en áður var. Sú fjárfesting, sem að almenningi snýr, er gefin frjáls. Byggja má íbúðir, útihús í sveitum, verbúðir o.fl. án leyfis. Aðrar framkvæmdir, viðgerðir og nýbyggingar, sem kosta ekki yfir 40 þús. kr., eru einnig frjálsar. Með þessu verður dregið mjög úr skriffinnskunni, og skömmtun á byggingarefni er aflétt. Mun af þessu verða allmikill sparnaður í skrifstofuhaldi, húsnæði og fólkshaldi.

Flestir munu farna því stóra spori, sem stigið er í frelsisátt með þessum lögum, einnig stjórnarandstaðan, þótt hún vilji ekki við það kannast og reyni hér í útvarpinu að telja áheyrendum trú um, að þetta sé lítið mál, sem ekki auki frelsi almennings. Stjórnarandstaðan finnur liðsauka í þessari túlkun málsins í gærkvöld. Skúli Guðmundsson, hv. þm. V-Húnv., taldi, að breyta hefði mátt um alla framkvæmd frá því, sem gilt hefur um fjárhagsráð, með reglugerð. Skúla Guðmundssyni fyrirgefst þetta, vegna þess að hann hefur ávallt haft sérstakt dálæti á fjárhagsráði og gerðum þess, en það veit hann fyrir víst, að fjárhagsráð hefði ekki verið lagt niður með reglugerð og ekki væri eðlilegt, að ríkisstj. stjórnaði með reglugerðarákvæðum þessum málum fremur en öðrum fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í lögum hverju sinni.

Stjórnarandstæðingar hafa gert sig hlægilega í umr. um þetta mál með því að lýsa hryggð sinni yfir því, að ýmis atriði fjárhagsráðslaganna skuli ekki gilda lengur. Bent hefur verið á það, að hin nýju lög tryggi ekki fullt verzlunarfrelsi. Sú athugasemd er rétt, að þessi lög gera það ekki. Það geta engin lög gert, hvernig sem þau væru samin. Verzlunarfrelsi byggist á því, að atvinnulífið og efnahagsástandið sé í lagi, að nægilegur gjaldeyrir sé ávallt fyrir hendi. Eins og kunnugt er, hefur ekki enn tekizt að safna gjaldeyrisvarasjóði, svo sem nauðsyn ber til að stefna að. Það er stefna ríkisstj. að gera verzlunina eins frjálsa og unnt er, miðað við gjaldeyrisöflunina á hverjum tíma, og tryggja þannig almenningi í landinu hagstætt vöruverð og betri lífskjör. Rétt er að geta þess, að sjálfsagt er að banna innflutning á þeim vörum, sem þjóðin framleiðir sjálf, og takmarka innflutning á ónauðsynlegum varningi.

Hannibal Valdimarsson, hv. 3. landsk., talaði hér í gærkvöld um innfluttan ost. Hér er um að ræða 238 kg af enskum osti, sem fluttur hefur verið inn í leyfisleysi og af óskiljanlegum ástæðum hefur komizt í gegnum tollafgreiðsluna. Veit ég, að hæstv. fjmrh., sem er yfirmaður tollsins, hefur hug á að koma í veg fyrir, að slík mistök endurtaki sig.

Hannibal Valdimarsson minntist einnig á innflutning fiskibáta, sem ríkisstj. veitti leyfi fyrir á s.l. hausti. Var það glæpur í augum þessa hv. þm. eins og fleiri þröngsýnna manna, sem ekki vilja skilja, að það er nauðsynlegt að bæta strax fyrir næstu vertið upp þá miklu rýrnun, sem þegar hefur orðið á fiskibátaflotanum. Ríkisstj. gerir sér grein fyrir því, að atvinnutæki mega ekki ganga saman, heldur miklu fremur aukast í samræmi við fólksfjölgun í landinu og auknar þarfir. Ríkisstj. gerir sér einnig grein fyrir því, að stefna beri að því, að fiskibátar verði smíðaðir innanlands. Er það mál nú í athugun hjá ríkisstj., hvernig þeim málum verði bezt fyrir komið, þannig að við getum hér eftir annazt allar smíðar á bátum í landinu sjálfir. Ríkisstj. mun sinna þessum þætti iðnaðarins ekki síður en öðrum greinum hans, enda fram tekið í stjórnarsamningnum, að efla skuli iðnaðinn með því m.a. að bæta úr þeim lánsfjárskorti, sem iðnaðurinn hefur búið við og haldið hefur niðri æskilegri þróun.

Hannibal Valdimarsson talaði mikið um óhagstæðan verzlunarjöfnuð, 313 millj. kr. Vöruskiptajöfnuðurinn er óhagstæðari en æskilegt væri, en þær tölur, sem hér eru nefndar, þarfnast skýringa. Vélar og efni til áburðarverksmiðjunnar, Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar nema á þessu ári 125 millj. kr. Vöruskiptajöfnuðurinn í nóvember hefði verið hagstæður, ef ekki hefði verið reiknað með vélum til Sogsvirkjunarinnar, að upphæð 32 millj. kr., en vélar þessar komu til landsins 1951 og 1952, þótt þær hafi ekki komizt á innflutningsskýrslur fyrr en nú. Þegar talað er um innflutningsmagnið, er ávallt átt við cif-verð varanna. Gefur það ekki rétta mynd af gjaldeyriseyðslunni. Fragtir eru greiddar að miklu leyti í ísl. krónum, og má því draga frá cif-verði varanna 10–12%, ef finna skal gjaldeyrisupphæðina, sem í vörunum liggur. Þegar þess er gætt, að 125 millj. kr. eru á þessu ári fyrir vélum og efni til virkjana og áburðarverksmiðjunnar, en þessi fyrirtæki eru, eins og kunnugt er, byggð fyrir erlent lánsfé og Marshallframlag, þá verður ljóst, að með því að draga frá þá upphæð að viðbættum frögtum, sem greiddar eru í ísl. krónum, að halli á vöruskiptajöfnuðinum verður ekki 313 millj. kr., heldur innan við 100 millj. kr. Þetta bil mætti takast að brúa með aukningu framleiðslunnar, og er því ekki vonlaust, að vöruskiptajöfnuðurinn gæti orðið hagstæður, áður en langur tími líður.

Stjórnarandstæðingar, og Alþfl. mest, hafa talað mikið um verzlunarokur og harmað það, að hámarksálagning skuli ekki vera á öllum vörum. Það var áður og tryggði almenningi ekki góð viðskipti. Þess í stað þreifst svarti markaðurinn vel. Nú er vöruframboð í stað vöruskorts, og hefur það lækkað álagninguna meira en nokkurt valdboð stjórnarvalda gæti gert.

Í Noregi er jafnaðarmannastjórn ráðandi. Alþýðuflokkurinn norski nýtur trausts þar í landi og er því stærsti flokkur landsins. Þann 25. nóv. s. h birtist grein í Norges Handels- og Sjöfartstidende, sem segir frá því, að ríkisstj. Noregs, jafnaðarmannastjórnin, hafi ákveðið að afnema hámarksálagningu á flestum vörum. Skyldu jafnaðarmenn í Noregi hafa sérstakan áhuga fyrir að fita kaupmennina? Nei, tæplega trúi ég því. Þeir ákveða þetta af því, að þeir eru raunhæfir og skilja það, að þegar vöruframboðið er nóg, lækkar álagningin af sjálfu sér. Þótt gjaldeyrisástandið batni og gjaldeyrisvarasjóður verði fyrir hendi, verður eigi að síður að hafa ýmiss konar afskipti af innflutningnum og beina viðskiptunum á mörgum tilfellum til þeirra landa, sem kaupa framleiðsluvörur þjóðarinnar. Í framkvæmd verður þetta þannig, að magnið miðast við eftirspurnina, en bankarnir og innflutningsstofnun ákveða, hvaðan varan er keypt. Þannig hlýtur þetta að vera, meðan viðskipti okkar eru bundin við clearing-lönd í jafnríkum mæli og nú gerist. Þótt gjaldeyrisástandið sé ekki eins og bezt verður á kosið, er það þó betra nú en fyrir ári. Nú eru 2/3 af innflutningnum á frílista, og er það mikill munur frá því, sem áður var, þegar allt var bundið við leyfi og flestar vörur voru skammtaðar.

Hagur þjóðarinnar byggist á því, að takast megi að auka framleiðsluna og afla á þann hátt meiri gjaldeyris og tryggja nægilega atvinnu fyrir alla landsmenn. Framleiðslan hefur að þessu sinni selzt sæmilega, og má fullyrða, að finna mætti markaði fyrir miklu meira vörumagn heldur en þjóðin hefur að bjóða að þessu sinni. Samningarnir við Sovétríkin hafa auðvitað greitt mjög fyrir sölunni. Er ánægjulegt, að viðskipti hafa tekizt á ný við þetta fjölmenna ríki. Er vonandi, að framhald megi verða á þeim viðskiptum báðum þjóðunum til gagns. Þótt skoðanamunur sé á stjórnskipulagi milli þjóða, á það ekki að koma í veg fyrir viðskipti eða vinsamleg samskipti ríkja á milli.

Brynjólfur Bjarnason taldi, að samningurinn við Rússland væri í nokkurri hættu vegna þess, að íslenzkir innflytjendur væru tregir til að kaupa rússneskar vörur. Þetta er misskilningur og tilefnislaus ásökun. Innflytjendur hafa sýnt fullan skilning á nauðsyn þessara viðskipta, og er unnið að því að auka vörukaup frá Rússlandi til tryggingar áframhaldandi viðskiptum. Ríkisstj. hefur þegar og mun gera það sem í hennar valdi stendur til þess, að þessi viðskipti geti haldið áfram.

Í sambandi við olíuverðið og það, sem Brynjólfur Bjarnason sagði um það, er rétt að upplýsa, að olíuverðið hefur verið lækkað og álagning á olíu og benzíni hefur ekki verið hækkuð. Verð á olíu í Reykjavík í júní 1952 var 79 aurar pr. kíló, í des. sama ár 75 aurar, í maí 1953 71 eyrir, í ágúst 1953 74 aurar. Verð á benzíni í júní 1952 kr. 1.74, í desember 1952 kr. 1.70, í maí 1953 kr. 1.65, í ágúst 1953 kr. 1.69, í október 1953 kr. 1.72. Hækkun í ágúst s.l. stafar af verðjöfnun, sem gerð var um land allt, og þá hækkaði bæði olía og benzín hér við Faxaflóa. Lækkun fragtanna hefur komið fram í verðinu hér.

Sú staðreynd, að markaðir eru fyrir hendi fyrir íslenzkar framleiðsluvörur, ætti að ýta undir aukningu framleiðslunnar og framkalla nýja krafta og aukna orku, sem áður hefur verið bundin, m.a. vegna hafta og vantrúar á möguleikum til framkvæmda og athafna. Aukið athafnafrelsi og vaxandi skilningur á gildi framleiðslunnar ætti að verða mönnum hvatning til þess að leggja fram fjármuni og orku til framleiðsluþarfa og uppbyggingar fjölbreyttara atvinnulífi í landinu.

Í málefnasamningi ríkisstj. er ákveðið að taka raforkumálin föstum tökum. Verja skal til raforkumála, annarra en stórvirkjana, árlega minnst 25 millj. kr. í næstu tíu ár og margfalda þannig þá fjárhæð, sem áður hefur verið varið til þessara mála í fjárl. Á landsfundi Sjálfstfl. s.l. vor var gerð ályktun í raforkumálunum. Er þar mörkuð skýrt sú stefna, sem flokkurinn telur nauðsynlegt að fara eftir í þessum málum. Í landsfundarályktun Sjálfstfl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að flýta fyrir framkvæmd raforkumálanna telur fundurinn nauðsynlegt:

1) Að framlag til raforkusjóðs verði stóraukið frá því, sem nú er. En hlutverk raforkusjóðs er m.a. að lána með góðum kjörum til einkarafstöðva (dieselstöðva og vatnsaflsstöðva) á þeim býlum, sem vegna legu sinnar ekki geta fengið raforku frá stærri virkjunum.

2) Að framlag á fjárlögum til nýrra raforkuframkvæmda verði margfaldað, enda flestum orðið ljóst, að þessi liður fjárl. er mun lægri, miðað við kaupmátt krónunnar, heldur en var fyrst ettir að raforkulögin komu til framkvæmda.

3) Fundurinn telur, að afla megi fjár til að hraða framkvæmdum með lántökum innanlands eða utan, og telur miður farið, að ekki skyldi verða samþ. frv. það um lántöku handa rafmagnsveitum ríkisins, er borið var fram af sjálfstæðismönnum á nýafstöðnu Alþingi. Fundurinn telur lántökur óhjákvæmilegar í þessu skyni vegna þess, hversu nauðsynlegt er að hraða framkvæmdum, en greiðslugeta ríkissjóðs takmörkuð.“

Þegar viðræður hófust s.l. sumar um myndun núverandi ríkisstj., lagði formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors forsrh., fram tillögur um það, að árlegt framlag til raforkumála yrði hækkað um 20 millj. kr., úr 4–5 millj., sem verið hefur í fjárl. Till. þessi er í samræmi við áskorun landsfundar Sjálfstfl. s.l. vor. Er óþarft og ekki hreinn leikur, þegar framsóknarmenn láta í það skína, að sjálfstæðismenn hafi verið tregir til samninga um raforkumálin og önnur hagsmunamál almennings, sem samið var um við stjórnarmyndunina.

Gera má ráð fyrir, að á næsta ári verði hafizt handa með virkjun á Vestfjörðum og Austurlandi.

Þá verður hafizt handa um að leggja rafmagnslínur um þær byggðir landsins, sem liggja bezt við og hafa stytzta vegalengd milli bæja. Hefur raforkumálastjóri samið áætlun um framkvæmdir, sem ætla má að taki fimm ár að framkvæma. Raforkuráð hefur samþykkt þessa áætlun og þær framkvæmdir, sem þar eru nefndar. Verða tillögurnar sendar til raforkumálaráðh. Hin óhagstæðari veitusvæði verða tekin, þegar framkvæmd þeirrar áætlunar, sem ég nefndi, er lokið. Raforkumálaskrifstofan mun gera heildaráætlun á þessum vetri um raforkuframkvæmdir í landinu og einnig taka til athugunar, hvernig unnt verði að raflýsa þau býli, sem vegna strjálbýlis fá ekki raforku frá samveitum. Með því að koma rafmagninu út um sveitir og kauptún er verið að tryggja jafnvægi í byggð landsins og koma í veg fyrir, að fólkið flytjist á einn stað. Rafmagnið gerir margt í senn: að létta störfin, að færa yl og birtu inn á heimilin í stað myrkurs og kulda, og á mikinn þátt í að afstýra þjóðarvoða með því að koma í veg fyrir flótta og fólksflutninga úr hinum ýmsu byggðum landsins.

Það er talið, að hér séu ekki verðmæti í jörðu. Þjóðin á því ekki námur, og engir skógar eru hér heldur. Það mætti því ætla, að hér væru ekki góð lífsskilyrði og framtíðarhorfur því slæmar fyrir þessa fámennu þjóð. En eigi að síður er Ísland auðugt land. Afl íslenzkra fossa er ef til vill meira virði en allir skógar Noregs. Það er nauðsynlegt að beizla meira af þessu mikla afli, sem alltaf er ónotað. Það verður að vinna að því, að hæfilega mikið af þeim forða, sem þjóðin á af vatnsafli, verði notað til þess að tryggja nægilega gjaldeyrisöflun, bætt lífskjör og atvinnu fyrir alla landsmenn. Með iðnaði, sem byggist á stórvirkjun, skapast sú fjölbreytni í atvinnulífinu, að tryggt ætti að vera, að þjóðin væri fjárhagslega sjálfstæð og velmegandi. Byrjunarspor hafa verið stigin í stóriðju með byggingu áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Mun áburðarverksmiðjan byrja framleiðslu áburðar í byrjun næsta árs. Allir munu fagna því, ekki aðeins bændur og þeir, sem vinna að landbúnaði, heldur einnig iðnaðarmenn, sem sjá marga möguleika í sambandi við rekstur verksmiðjunnar. Áburðarverksmiðjan er framfaraspor, sem vonandi verður til hagsældar fyrir þjóðarheildina.

Ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því, að sementsverksmiðjan komist upp sem fyrst. Verður væntanlega unnið að byggingu hennar á næsta ári. Er það einnig mikilvægt framfaramáli Bæði þessi fyrirtæki munu verða máttarstoðir undir rekstri þjóðarbúsins með því að framleiða vörur, sem áður hafa verið keyptar frá útlöndum, og veita mörgu fólki atvinnu. Verkefni næstu ára verður að finna leiðir til þess að taka í notkun hæfilega mikið vatnsafl miðað við þarfir þjóðarinnar. Er ekki ólíklegt, að þau byrjunarspor, sem nú eru tekin í stóriðju hér á landi, geti vísað veginn í þessu efni.

Ísland á einnig fleiri verðmæti en vatnsaflið. Fiskímiðin kringum landið hafa verið það forðabúr, sem þjóðin hefur notfært sér. Með víkkun landhelginnar má vænta þess, að komið sé í veg fyrir, að miðin verði eyðilögð, og að þau megi áfram veita þjóðinni nauðsynlega björg. Gróðurmoldin íslenzka og öll þau ræktanlegu landflæmi, sem hér eru, gefur ekki síður vissu fyrir miklum möguleikum. Hér má rækta nytjaskóga, sem að vísu koma ekki til nota í tíð okkar, sem nú erum í starfi, en þessi möguleiki varpar óneitanlega birtu yfir ókomna tíma. Ég hef heyrt raddir, sem harma það, hversu mikið land er hér óræktað. En sé athugað, að íslenzkir bændur hafa ekki legið á liði sínu og að ræktað land er orðið mjög mikið hér, miðað við þann stutta tíma, sem liðinn er síðan ræktun landsins hófst, þá vil ég segja, að það er gleðiefni að vita, hversu miklir möguleikar eru hér á sviði landbúnaðar. Þetta óræktaða land er varasjóður, sem þjóðin mun taka til nota, eftir því sem þörf krefur. Er það mikill munur, sé miðað við þær þjóðir, sem hafa ræktað hvern blett og verða að flytja fólk úr landi árlega, vegna þess að landið getur ekki tekið við fólksfjölguninni. En þannig er þetta í ýmsum þéttsetnum löndum, sem hafa nýtt alla möguleika, sem fyrir hendi eru. Það er eðlilegt, að fjármagni sé beint til uppbyggingar sveitanna og framfara þar. Þess mun öll þjóðin njóta í framtiðinni.

Ég hef drepið hér á nokkur atriði, sem sýna hina geysimiklu möguleika, sem þjóðin hefur til þess að búa sér góða framtíð. Það er því ekki ástæða til svartsýni, enda þótt nauðsynlegt sé að hafa raunsæi og úrræði ásamt fullkominni gætni í meðferð fjármála og atvinnumála í landinu. Stjórnarfarið þarf að hvíla á föstum grunni og byggjast á lýðræði og frjálsum kosningarrétti, réttlæti og virðingu fyrir lögum og stjórnarskránni. Kjördæmaskipuninni má aldrei breyta nema með stjórnarskrárbreytingu, eftir að væntanleg breyting hefur verið borin undir kjósendur.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, gerði hér að umtalsefni áðan frv. það, sem alþýðuflokksmenn hafa flutt hér í hv. Nd. Er ekki úr vegi, að ég geri það einnig nokkuð að umtalsefni. Gegnir það furðu, að nokkrir alþýðuflokksmenn hafa borið hér fram þetta frv. um kosningabandalög, sem gæti, ef það yrði að lögum, raskað styrkleikahlutföllum flokka á Alþ. meira en nokkur kjördæmabreyting. Kosningabandalag; hugsa flm. sér að fá lögfest án þess að bera málið undir kjósendur, án stjórnarskrárbreytingar. Mal þetta er svo furðulegt, að það er ástæða til þess að fara um það nokkrum orðum.

Gert er ráð fyrir, að tveir eða fleiri flokkar geti gert með sér kosningabandalag, þannig að þeir bjóði hver um sig fram í kjördæmum, en nái enginn frambjóðandi bandalagsflokkanna kosningu í kjördæminu, þá skal leggja saman atkvæðatölu þeirra frambjóðenda, sem féllu frá bandalagsflokkunum, og séu þær samanlagt hærri en atkvæðamagn þess frambjóðanda, sem fékk flest atkv. og var kosinn, skal fallni frambjóðandinn rísa upp frá dauðum, fallni frambjóðandi bandalagsflokkanna, sem fékk flest atkvæði, verða þingmaður kjördæmisins, en sá, sem fékk flest atkvæðin, á að sitja heima. Þess skal getið, að Hannibal Valdimarsson og Gylfi Þ. Gíslason gerðust talsmenn frv. Hafa ýmsir virt þeim það til vorkunnar, eins og aðstaða þeirra er í íslenzkum stjórnmálum. En tæplega verða þeir taldir íþróttamenn eða meistarar í kúluvarpi, þó að þeir Hannibal og Gylfi gætu kastað kúlunni 8 metra hvor og þannig samanlagt kastað lengra en Huseby. En það er sams konar regla, sem þetta frv. boðar í kosningum á Íslandi til Alþingis. Hvort frv. hefur nokkurt fylgi, er ekki enn vitað. Heyrzt hefur, að sumir framsóknarmenn hafi samúð með því. Verður því ekki trúað fyrr en á reynir. Frv. þetta gæti, ef að lögum yrði, tekið valdið af sveitunum, það vald, sem ekki mun aftur nást með kjördæmabreytingu og stjórnarskrárbreytingu.

Það kom fram í umræðunum hér í gærkvöld og eins hér í kvöld hjá hv. 4. þm. Reykv., að ýmsum alþýðuflokksmönnum finnst hlutur sveitanna of góður. Skyldu flm. hafa með þessu frv. komið auga á leið til þess að rýra vald sveitanna með því að breyta lögum um kosningar til Alþingis á þann hátt að sniðganga stjórnarskrána? Alþ. gegnir mikilvægu hlutverki. Það þarf að njóta trausts hjá þjóðinni. Ákvarðanir Alþ. eru bindandi og snerta hvern einstakling í landinu.

Veigamesta mál hvers þings er fjárlögin og afgreiðsla þeirra. Afgreiðslu fjárlaga fyrir 1954 er nú að verða lokið. Verður að viðurkenna, að fjárl. eru mjög há. Eru þau nokkru hærri en fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Verklegar framkvæmdir hafa hækkað nokkuð, og er þar helzt að geta hækkunar framlags til raforkumála. Ríkisstj. hefur þá stefnu að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., og eru líkur til þess, að það takist. Fjárl. með greiðsluhalla mundu innleiða hættu í fjármála- og atvinnulífinu og setja það fjárhagskerfi, sem við búum við, úr skorðum. Ég tel ómaklegar ásakanir stjórnarandstæðinga í garð hæstv. fjmrh. fyrir tekjuáætlun fjárl. nú. Það væri mjög óvarlegt að áætla tekjurnar hærri en nú er gert. Það gæti leitt til þess, að greiðsluhalli yrði á fjárl. í framkvæmd. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til lækkunar á rekstrarkostnaði ríkissjóðs og ríkisstofnananna. Gjaldþoli landsmanna má ekki íþyngja um of, og hafa stjórnarflokkarnir skilið það með því að lækka skatta, eins og hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa greint frá. Ríkissjóður þarf vitanlega miklar tekjur, ekki sízt fyrir það, að allir gera kröfur um framkvæmdir. Þarfirnar eru miklar fyrir framkvæmdir í landi, sem vantaði allt fyrir fáum áratugum. Núverandi ríkisstjórn vinnur að því að koma áleiðis stórfelldum framkvæmdum og mun gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að það megi gerast fljótt. Við sjálfstæðismenn vitum, að um leið og losað er um höftin og athafnafrelsi aukið, muni leysast úr læðingi orka og nýr kraftur dugandi manna í þjóðfélaginu og þannig renna upp tímabil athafna, framfara og mikilla framkvæmda í landinu til heilla fyrir alla landsmenn.