15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

1. mál, fjárlög 1954

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. fjmrh. gerði í ræðu sinni í gærkvöld nokkra grein fyrir aðdraganda að stofnun núverandi ríkisstj., er tók við störfum um miðjan september í haust.

Ég mun ekki hér fara að endurtaka það, sem fjmrh. sagði í sinni ræðu, en ég vil þó benda á eftirfarandi atriði.

Framsfl. leit svo á eftir kosningarnar s.l. sumar, að eðlilegast og affarasælast fyrir land og lýð væri, að samstarf gæti tekizt milli lýðræðisflokkanna þriggja. Beitti Framsfl. sér fyrir því, að sú leið væri farin, og tjáði sig undireins fúsan til þess að taka þátt í slíku samstarfi, ef málefnasamningar næðust. Sú tilraun strandaði á fullum óvilja bæði Sjálfstfl. og Alþfl. um að taka upp þriggja flokka samstarf. Alþfl. greip til þess óyndisúrræðis, þegar ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar gafst upp í árslok 1949 vegna erfiðleika, er að steðjuðu, að neita gersamlega þátttöku í ríkisstj. Stórmannleg var sú afstaða ekki og þó einkum vegna þess, að hún mótaðist fyrst og fremst af því, að Alþfl. treysti sér alls ekki til þess að taka þátt í því erfiða, en bráðnauðsynlega endurreisnarstarfi, sem þá varð að hefja, ef þjóðarfleyinu ætti ekki algerlega að hvolfa. Þessari neikvæðu og óvirku afstöðu heldur Alþfl. enn. Hann hefur nítt niður allar viðreisnartill. ríkisstj. s.l. 4 ár, án þess að leitast við að benda á önnur úrræði, er nokkru gætu orkað til úrbóta. Alþfl. hefur því bæði síðasta kjörtímabil og eins nú í byrjun hins nýja kjörtímabils dæmt sjálfan sig algerlega úr leik. Hann hefur verið með fýlu, eins og krakkarnir orða það. Þegar svo á hinu leitinu var enginn vilji hjá Sjálfstfl., heldur hið gagnstæða, til þess að taka upp samstarf við alþfl., var sú leið úr sögunni. En því drep ég á þetta hér, að ég lít svo á, að það hefði tvímælalaust verið bezta og vænlegasta leið til þess að leysa stjórnarkreppuna s.l. sumar, ef slík þríhyrnd samvinna hefði náðst.

En þegar Alþfl. var afskrifaður, bæði vegna eigin þvermóðsku og fullkomins óvilja Sjálfstfl. til samstarfs, voru engir aðrir, sem leitað yrði til um stjórnarsamstarf frá hálfu Framsfl. en Sjálfstfl. Kommúnistaflokkurinn, þessi einræðisflokkur, sem reynir að hylja sig í sauðargæru, hefur aldrei sýnt þjónkun sína og undirlægjuhátt við alþjóðakommúnismann og þó einkum allt, er lyktar af Rússlandi, jafngreinilega og hina síðustu tíma. Allt samstarf við hann var því að sjálfsögðu eins og áður útilokað með öllu. Kommúnistarnir hafa tekið að sér hlutverk Þorbjarnar rindils, þ.e. að draga lokur frá hurðum, til þess að sem auðveldast sé fyrir óvini þess lýðræðisskipulags, er vér teljum fjöregg þjóðfélags vors, að geta fengið tækifæri til þess að vega að því.

En flokksnefna sú, er kallar sig Þjóðvfl., er svo greinilega, að ekki verður um villzt, aðeins útibú frá kommúnistum. Þeir hlýða skipunum komma í öllum greinum. Hafi nokkur verið í óvissu um þetta áður, þá hafa atburðir þeir, er gerðust hér í hinu háa Alþ. fyrir fáum dögum, hlotið að opna augu þeirra, þegar það gerðist, að þjóðvarnarmenn studdu kommúnista til þess að fá fulltrúa bæði í menntamálaráð og í útvarpsráð. Þetta ber þess glöggt vitni, að forustumenn Þjóðvfl. telja það rétt og sjálfsagt, að kommúnistar ráði sem mestu varðandi uppeldis- og menntamál þjóðarinnar. Þegar þing kom saman fyrst í haust, þá reyndu þjóðvarnarmenn að vísu af veikum mætti að láta lita svo út, að þeir hefðu nokkra sérstöðu gagnvart kommúnistum. Nú hafa þeir algerlega gefizt upp við það og þjóna húsbændum sínum, kommúnistunum, af sömu trúmennsku og þeir, kommúnistarnir, þjóna hinum austrænu húsbændum sínum.

Ef ekki hefði tekizt samstarf um stjórn landsins s.l. haust milli Framsfl. og Sjálfstfl., voru engin úrræði önnur fyrir hendi en nýjar kosningar eða utanþingsstjórn. Hvort tveggja var fullkomið neyðarúrræði. Kosningar í haust hefðu engu verulegu breytt um styrkleikahlutföll í Alþingi og því einungis orðíð til þess að skapa öngþveiti og margháttaða erfiðleika.

Stjórnarstefna núverandi ríkisstj. er óbreytt í fjárhags- og atvinnumálum frá því, sem var hjá fyrrverandi ríkisstj. Það verður leitazt við að halda áfram því viðreisnarstarfi, sem þá var unnið. Stjórnarandstæðingar hafa allt frá því, að fyrrv. ríkisstj. var mynduð í ársbyrjun 1950, og til þessa tíma — og svo enn endurtekið ásakanir sínar í útvarpsumr. nú — ásakað ríkisstj. og sagt, að allar aðgerðir hennar hafi orðið til böls og ófarnaðar fyrir þjóðina. Þessunt öfugmælum er haldið á lofti, þótt þau hafi verið marghrakin og reynsla hafi sannað algerlega hið gagnstæða.

Ég vil nú nefna nokkur dæmi til þess að afsanna enn einu sinni þann róg og þær lokleysur, sem haldið er fram varðandi þessi mái. Ég vil fyrst nefna fjárhag ríkissjóðs.

Um áramót 1949–50 var fjárhagur ríkissjóðs í því ófremdarástandi sem kunnugt er. Var mjög nærri því, að Alþ. gæfist upp við að setja fjárlög. Svo hefur um skipt undir hinni öruggu fjármálastjórn núverandi fjmrh., að þessi síðustu ár hafa fjármál ríkisins verið í góðu horfi, öruggur greiðslujöfnuður, engir tekjustofnar hækkaðir, en nú gert ráð fyrir að lækka tekjuskattstiga allverulega. Þessi örugga fjármálastjórn hefur verið grundvöllur þess, að hægt hefur verið að vinna að viðreisn og eflingu atvinnuveganna.

Varðandi afkomu atvinnuveganna s.l. 4 ár vil ég fyrst nefna sjávarútveginn. Í ársbyrjun 1950 voru útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar því nær stöðvaðir, og allir, sem til þekktu, vissu, að algert strand var fram undan, nema róttækar aðgerðir kæmu til. Aflabrestur á síldveiðum hefur verið geysilegur öll þessi ár. Þá hafa og fiskveiðar brugðizt mjög í öðrum verstöðvum, svo að valdið hefur þar örbirgð og atvinnuleysi. Þrátt fyrir þetta hefur tekizt að halda þessari mestu framleiðslugrein þjóðar vorrar svo í horfi, að framleiðsla hefur aukizt.

Þessu næst vil ég fara fáum orðum um afkomu landbúnaðarins síðustu árin. Þar hafa skipzt á skin og skúrir eins og annars staðar. Sum ár, eins og 1950, hafa verið hörð og erfið og valdið landbúnaðinum miklu tjóni. Það ár, sem nú er að kveðja, hefur hins vegar verið mjög hagstætt um veðráttu og alla afkomu. Ræktunarframkvæmdir bænda og húsbyggingar hafa verið meiri síðustu 4 árin en nokkru sinni fyrr. Hverju er það að þakka? Því er fljótsvarað. Það er vegna þess, að sú ríkisstj., sem með völd hefur farið s.l. 4 ár, hefur séð mörgum sinnum betur fyrir lánsfjárþörf landbúnaðarins en áður var gert. Nokkrar tölur skýra þennan samanburð. Árin 1945–46 fengu deildir Búnaðarbankans, er veita lán til landbúnaðarins, þ.e. byggingarsjóður. ræktunarsjóður og veðdeild, lánsfé, er nam 1.8 millj. kr., eða að meðaltali á ári um 900 þús. kr. Árin 1947 –49, eða í tíð stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar, nam það fjármagn, sem þessar sömu deildir fengu, tæpum 24 millj. kr., eða að meðaltali tæplega 8 millj. kr. árlega. En árin 1950–53, eða í fjögur ár, nam lánsfé til þessara deilda bankans fast að 80 millj. kr., eða allt að 20 millj. kr. að meðaltali á ári. Af þessum lánum hafa nú um 30 millj. kr. verið afhentar Búnaðarbankanum sem óafturkræft stofnfé.

Þetta yfirlit sannar, hve stórfelld breyting hefur á orðið í þessum efnum, þar sem útlán til landbúnaðarins hafa meira en 20-faldazt úr þessum stofnlánadeildum bankans frá því, sem þau voru árin 1945–46. Bændur hafa einnig tekið á móti þessu aukna lánsfé með stórhug og myndarskap. Hverja krónu, sem þeir sjálfir hafa getað lagt til fjárfestingar samhliða lánsfé þessu, hafa þeir notað til margvislegra umbóta og hafa með stærri skrefum en nokkru sinni fyrr stefnt markvisst að því að breyta búskaparháttum sínum frá því að vera fleytings rányrkjuhúskapur í raunverulegan ræktunarbúskap.

Á þessu ári er lokið að mestu hinum stórfelldu sauðfjárskiptum, er taka til mikils hluta landsins, og er þá von allra, að þar með hafi verið unninn bugur á mæðiveikinni. Fjárskiptin hafa kostað ríkissjóð miklar upphæðir, en þó valdið bændum mörgum sinnum meira tjóni. Ef allt fer samkvæmt því, sem vonir standa til, verður um geysimikla framleiðsluaukningu sauðfjárafurða að ræða næstu árin.

Fyrir fátt eða ekkert hafa stjórnarandstæðingar, þ.e. kommar og kratar, gagnrýnt fyrrverandi ríkisstj. og eins þá, er nú situr, eins og fyrir, að ekkert að gagni hafi síðustu 4 árin verið gert til þess að koma upp viðunandi húsnæði yfir fólk í kaupstöðum og kauptúnum. Síendurteknar svívirðingar stjórnarandstæðinga í garð ríkisstj. varðandi húsnæðismál þéttbýlisins og vanrækslu í þeim efnum eru gleggstur vottur um, hve þessir flokkar auglýsa sinn eigin vesaldóm og vanrækslu í þessum málum rækilega. Ég vil, eins og varðandi landbúnaðarmálin, láta tölurnar tala. Helztu félagslegar ráðstafanir ríkisins varðandi húsnæðismál þéttbýlisins eru þrenns konar. Það eru framlög til verkamannabústaða, til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis samkvæmt lögum þar um og loks til lánadeildar smáíbúða. Hin fjórða leið, sem nefna mætti, er byggingarsamvinnufélög, sem fá ríkisábyrgð fyrir lánum, en engin bein framlög fyrir atbeina ríkisvaldsins. Verður þeim því sleppt í þeim samanburði, sem hér fer á eftir, en um hinar þrjár leiðirnar vil ég gefa þessar upplýsingar:

Árin 1944–46 sat við völd hér á landi samstjórn Sjálfstfl. og komma og krata. Framlög til verkamannabústaða voru þau ár 735 þús. kr. að meðaltali. Það, sem þessi ár setti meginsvip á byggingarframkvæmdir Reykjavíkur og jafnvel víðar um land, voru hinar óhófsstóru og rándýru villubyggingar, sem þá voru reistar og því nær allt tiltækt fjármagn til íbúðabygginga var fest í og villuhverfin hérna í Reykjavík auglýsa rækilega.

Árin 1947–49, þegar samstjórn Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. undir forsæti þess flokks fór með völd, voru framlög ríkisins til. verkamannabústaða rúmlega 1 millj. kr. að meðaltali þau þrjú ár, en árin 1950–53, eða þau hartnær fjögur ár, er samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur farið með stjórn landsins, hafa að meðaltali verið lagðar fram til verkamannabústaða um 3.8 millj. króna.

Heildarframlög til verkamannabústaða árin 1944–53 hafa numið fast að 20 millj. kr., en af þeirri upphæð hafa um 3/4 hlutar fengizt meðan fyrrverandi og núverandi ríkisstj. fóru með völd, eða s.l. 4 ár.

Þetta yfirlit sýnir greinilega, að framlög til verkamannabústaða eru algerlega í öfugu hlutfalli við þátttöku komma og krata í ríkisstj. Þegar báðir þessir flokkar voru í ríkisstj., var langminnst framlag til verkamannabústaða, óx nokkuð, þegar kommar hrökkluðust úr stjórninni, en óx þó langsamlega mest, þegar kratar voru einnig fallnir fyrir borð. — Það er von, að hv. stjórnarandstæðingar séu hreyknir af slíkum afrekum sem þessum.

Lögin um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis voru sett á nýsköpunarárunum 1944–46, en algerlega láðist að ætla nokkurt fé til þess að framkvæma þau, svo að framlög þessi ár voru engin. Í tíð stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar, 1947–49, var varið rúmum 6 millj. kr. samkvæmt þessum lögum, og svo að segja sömu upphæð var varið af fyrrverandi ríkisstj. árin 1950–52. Má því segja, að ekki hallist á um þetta atriði þessi tvö þriggja ára tímabil, og af þeim hartnær 13 millj. kr., sem varið hefur verið úr ríkissjóði til íbúðabygginga samkv. þessum lögum, hafa um 3/4 hlutar fallið í hlut Reykjavíkur, en um 1/4 hluti til 9 annarra kaupstaða og kauptúna.

Fyrrverandi ríkisstj. lét undirbúa og setja löggjöf um lánadeild smáíbúða. Samkvæmt þeirri löggjöf hefur verið aflað fjármagns handa deildinni, er nemur 20 millj. kr., og hafa um 860 smáibúðarhúsabyggjendur notið lána úr deildinni árið 1951, en þó aðallega árin 1952 og 1953. Þessar framkvæmdir hafa skipzt nokkurn veginn að jöfnu milli Reykjavíkur annars vegar og kaupstaða og kauptúna utan Reykjavíkur hins vegar.

Ef við nú að lokum drögum þessar upplýsingar saman, kemur í ljós, að á árunum 1943–49, eða í 6 ár, öfluðu þær ríkisstj., er þá fóru með völd, tæplega 12 millj. kr. til þessara íbúðarhúsabygginga, eða um 2 millj. á ári. En fyrrverandi ríkisstj. útvegaði á tæpum 4 árum rösklega 40 millj. kr., eða um 10 millj. kr. á ári. Þetta lauslega yfirlit er ekki sett fram af því, að ég telji, að nægilega mikið hafi verið að gert í þessum efnum, jafnvel hjá fyrrverandi ríkisstj., heldur til þess að sýna og sanna, hve stjórnarandstæðingum fer það vel að býsnast yfir úrræðaleysi ríkisstj., þeir, sem héldu að sér höndum og sváfu værum svefni, meðan þeir sátu í ríkisstjórninni.

Núverandi ríkisstj. er hins vegar ljóst, að aðgerðir síðustu ára eru aðeins byrjun á miklu, en mjög erfiðu og fjárfreku verkefni, þ.e. að koma upp mannsæmandi húsnæði yfir alla íslenzka ríkisborgara, enda segir svo í málefnasamningi núverandi ríkisstj.:

„Tryggt verði aukið fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum, lögð áherzla á að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa, sem nú eru í smíðum, og lagður grundvöllur að því að leysa þetta vandamál til frambúðar.“

Að þessu er ríkisstj. nú að vinna og mun skila tillögum þar um síðar á þessum vetri, en leita verður að úrræðum, svo að sem hæst lán fáist á hverja smáíbúð með hóflegum vöxtum og nægilega löngum afborgunarfresti. Þetta eru erfið viðfangsefni, en þau verða að leysast.

Annað meginárásarefni stjórnarandstæðinga á hendur þeirra ríkisstj., sem setið hafa s.l. 4 ár, er, að ekkert hafi verið gert til þess að sporna við atvinnuleysi, m.a. með því að efla atvinnutæki og koma upp nýjum, þar sem mest hefur að kreppt. Hér er um jafnskaðlausar árásir að ræða og varðandi húsnæðismálin.

Á árunum 1951–52 brugðust fiskveiðar mjög, einkum á Austfjörðum, Norðurlandi og á Vestfjörðum. Auk þess brugðust síldveiðar bæði þessi ár, þó að út yfir tæki 1952. Eins og að líkum lætur, var atvinnuástand viða mjög erfitt og sums staðar svo, að til fullra vandræða horfði. Á árinu 1952 skipaði ríkisstj. sérstaka nefnd, atvinnumálanefnd, til þess að gera tillögur um úrræði vegna atvinnuörðugleika. Í þessari nefnd voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. Siðan hefur þessi nefnd verið með í ráðum um þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið. Árið 1951 veitti þáverandi ríkisstj. fjárstuðning í þessu skyni og svo áfram næstu ár. 1951 var varið úr ríkissjóði 1.2 millj. kr. í þessu skyni, árið 1952 6.5 millj. kr. og árið I953 5.4 millj. kr. Alls nemur þetta framlag ríkissjóðs á þessum 3 árum um 13.1 millj. kr. Þessu fé hefur verið úthlutað til um 40 kaupstaða, kauptúna og þorpa um land allt, að Faxaflóa undanskildum. Þangað hefur ekkert af þessu fé farið, þar sem atvinnuástand við Faxaflóa var yfirleitt miklu betra en annars staðar á landinu. Fé þetta hefur verið veitt sem lán til ýmissa atvinnutækja, svo sem bátakaupa, hraðfrystihúsa, þurrkhúsa fyrir saltfisk, fiskhjalla og margra svipaðra ráðstafana. Hefur fé þetta kamið mörgum stöðum að hinu mesta gagni. Þetta er í fyrsta skipti, sem varið hefur verið allmiklu fé á skipulegan hátt til þess að berjast gegn aflaleysi og atvinnukreppu af þeim ástæðum. Og í stjórnarsamningi núverandi ríkisstj. segir svo:

„Haldið verði áfram að stuðla að öflun atvinnutækja til þeirra byggðarlaga, sem við atvinnuörðugleika eiga að stríða, til þess að fullnægja atvinnuþörf íbúanna og stuðla að jafnvægi í byggð landsins.“

Að þessu verkefni verður starfað áfram eins og frekast er unnt. Það var óþekkt, þegar stjórnarandstæðingar áttu sæti í stjórn landsins.

Þessi dæmi, sem ég nú hef dregið hér fram, sýna ljóslega, að aldrei fyrr hefur verið gert eins mikið til þess af hálfu ríkisvaldsins að leggja fram og útvega fjármagn til margvíslegra framkvæmda, hvort sem er til landbúnaðar, atvinnuaukningar við sjávarsíðuna eða til íbúðarhúsabygginga við hæfi almennings, og að þessum verkefnum verður unnið áfram samkvæmt stjórnarsamningi þeim, sem hér hefur verið vitnað til.

Ég vil nú fara örfáum orðum um það atriði stjórnarsamningsins, er snertir raforkumálin. Ekkert þrá þeir heitara, er ekki hafa raforku, eins og er um meginhluta sveitanna, eða hafa hana svo dýra og ófullkomna, að tæpast er notandi, svo sem er um mörg smærri kauptún, en að fá þessi mál leyst á viðunandi hátt. Það er fyrst og fremst vöntun raforku, sem rekur fólk úr sveitum og öðrum strjálbýlum stöðum. Þetta er því stórkostlegt þjóðfélagsvandamál. Samkvæmt stjórnarsamningnum skulu raforkuframkvæmdir sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum atriðum, sem þar er samið um. Meginatriði þessa samkomulags er, að tryggt verði næstu ár fjármagn til raforkuframkvæmda, er svarar til 25 millj. kr. á ári að meðaltali. Lofað var, að framlög í fjárl. yrðu aukin um 5–7 millj. kr. frá því, sem verið hefur. Við þennan þátt hefur nú fyllilega verið staðið, þar sem tekin hefur verið upp 7 millj. kr. fjárveiting til viðbótar því, sem áður var í fjárl. Til þess, sein vantar, verður að fá lánsfé, sem mun minnst nema 100 millj. kr. Unnið verður af alefli að því, að fyrstu árin verði unnið fyrir hærri upphæð en 25 millj. kr. árlega til þess að flýta þessum bráðnauðsynlegu framkvæmdum sem mest og sem fyrst. Nefnd úr stjórnarflokkunum vinnur nú að því að úttæra þessa ákvörðun í einstökum atriðum og skapa framkvæmdunum fast form. Munu þær till. liggja fyrir á framhaldsþingi síðar í vetur. Þetta er stórmál, enda stórhugur studdur bjartsýni ríkjandi í þeim aðgerðum, sem nú er verið að undirbúa. Það er fyrst nú, að dreifing raforku um meginsveitabyggðir landsins er komin úr hugmyndaheimi ofan á jörðina, svo að taka megi til starfa eftir fastri áætlun. Ríkisstj. sú, er nú situr, er staðráðin í því að vinna af fullu kappi að úrlausn þessa stærsta og mesta hagsmunamáls fjölmargra landsmanna.

Ég vil leyfa mér út af ummælum hæstv. viðskmrh. áðan, þar sem hann lét í það skína, að frá hálfu Sjálfstfl. hefði fyrst og fremst komið krafa um það í ríkisstj., að raforkumálin hefðu forgöngu fyrir öðrum framkvæmdum, að mér skildist á ummælum hans, þó að þau væru hálfloðin, að taka það fram, að það var nú ekki eins auðvelt og hæstv. viðskmrh. vildi láta skína í að fá ákveðið, að raforkumálin hefðu ákveðinn forgangsrétt fyrir öðrum framkvæmdum. En það hendir stundum þennan ráðh. að ruglast ofur lítið í röksemdum, þegar hann flytur mál, og verður það þess vegna að afsakast.

Ég vil enn nefna eitt atriði í málefnasamningi ríkisstj., sem er hið mikilvægasta fyrir alla þá, sem sauðfjárbúskap stunda. Það atriði er, að framleiðendur sauðfjárafurða eigi kost á rekstrarlánum út á afurðir sínar fyrir fram snemma á framleiðsluárinu eftir hliðstæðum reglum og lánað er út á sjávarafurðir. Rekstrarfjárskortur hefur að undanförnu mjög kreppt að þeim bændum, er aðallega framleiða söluvörur, sem falla að mestu til aðeins einn sinni á ári, eins og er með sauðfjárafurðir. Hin mesta nauðsyn er með þeim breyttu búskaparháttum, er nútímatækni í landbúnaði hefur í för með sér, að séð verði fyrir slíkum rekstrarlánum. Þetta mál er nú í undirbúningi hjá ríkisstj. eins og önnur þau atriði, er málefnasamningur þessi fjallar um.

Þótt hér hafi einkum verið gerð grein fyrir málum, sem ríkisstj. hefur bundizt samningum um að vinna sameiginlega að og hrinda í framkvæmd, þá er þrátt fyrir það djúptækur ágreiningur um ýmis þjóðfélagsmál milli Framsfl. og Sjálfstfl. Svo hlýtur það ávallt að vera, þegar tveir flokkar með ólík sjónarmið á mörgum grundvallaratriðum þjóðfélagsmálanna starfa saman. En Ísland og þjóðin öll gerir þá kröfu til stjórnmálaflokka, að þegar fjárhagslegt sjálfstæði og heiður þjóðarinnar er í veði, geti ólíkir stjórnmálafl. tekið höndum saman um lausn aðkallandi vandamála og starfað að lausn þeirra, þótt margt skilji, og það er þetta, sem núverandi ríkisstj. er staðráðin í að gera.

Tími minn leyfir ekki, að ég ræði hér fleiri atriði úr málefnasamningi ríkisstj., en að sjálfsögðu verður unnið markvisst að því að framkvæma að fullu öll atriði hans. En að eðlilegum hætti tekur það nokkurn tíma að vinna að fullkominni lausn allra þeirra mála, sem þar er fjallað um.

Ég vil svo að lokum segja þetta: Framsfl. hefur frá upphafi verið ábyrgur stjórnmálaflokkur í öllum athöfnum sínum. Hann hefur tekið þátt í flestum ríkisstj. s.l. 35 ár, sem eru langmesta framfaratímabil í hartnær 1100 ára sögu hinnar íslenzku þjóðar. Ávallt hefur Framsfl. látið málefnin ráða, bæði við myndun ríkisstj. og eins við framkvæmd stjórnarathafna. Framsfl. hefur því ávallt staðið í fylkingarbrjósti um framkvæmd allra mestu framfaramála, sem fram hafa verið knúin þetta árabil. Við stjórnarmyndunina s.l. haust réðu enn algerlega sömu sjónarmið. Flokkurinn lítur svo á, að með málefnasamningi núverandi ríkisstj. hafi verið ákveðið að hrinda í framkvæmd svo stórfelldum umbótum fyrir landsmenn og þá ekki sízt fólk í strjálbýli utan Reykjavíkur, að það hefði verið fullkomið ábyrgðarleysi og glæframennska, ef flokkurinn hefði neitað þátttöku í núverandi ríkisstj. með þeim málefnasamningi, sem fáanlegur var. Ég veit, að framsóknarfólk um allt land skilur þetta og kann að meta það. — Ég óska svo öllum landsmönnum árs og friðar.