15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

1. mál, fjárlög 1954

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. þm. Alþfl., Eggert Þorsteinsson, minntist hér í ræðu sinni á hvíldartíma háseta á togurum, og taldi hann mál þetta sérstakt áhugamál Alþfl. Má ég minna þennan þm. á þá staðreynd, að sósíalistar höfðu flutt þetta mál tvisvar á Alþingi, áður en Alþfl. gerði sér ljóst, að hér væri um hagsmunamál íslenzkra sjómanna að ræða. Og það var einmitt stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem lagðist á afgreiðslu þessa máls og svæfði það í n. Ég held, að Alþfl. ætti að fara sér hægt í að hæla sér fyrir afstöðu í þessu hagsmunamáli sjómanna.

Borgarstjórinn í Reykjavík hélt hér hugðnæma ræðu í gærkvöld um húsnæðismálin. Lýsing hans á bölvun húsnæðisleysisins og hörmungum heilsuspillandi íbúða var lýsing þess manns, sem margt hefur fengið að heyra og sjá af ástandi húsnæðismálanna hér í Reykjavík. Já, víst er það hörmulegt, að ung hjón skuli ekki geta stofnað heimili vegna húsnæðisleysis, og sannarlega er það hryggðarefni, að börn og unglingar skuli, eins og borgarstjórinn ræddi um, leiðast á glapstigu vegna húsnæðisleysis foreldranna. Og auðvitað er það hryllilegt, að nú um miðja 20. öldina skuli hundruð barna í Reykjavík alast upp í heilsuspillandi bröggum og garðaskúrum. En er það ekki nokkuð djarft af borgarstjóranum í Reykjavík að ætlast til þess af því fólki, sem séð hefur þessar hörmungar og býr við þær, að það falli fram og tilbiðji Sjálfstfl. og þakki honum fyrir það, sem unnizt hefur á í húsnæðismálunum?

Árið 1946 voru sett lög um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Samkvæmt þeim áttu ríki og bær í sameiningu að útrýma braggaíbúðum og öðru óhollu húsnæði. Strax árið eftir að lögin voru sett vann Sjálfstfl. að því að drepa lögin á Alþingi. Síðan hafa sjálfstæðismenn á hverju ári drepið till. okkar sósialista um framkvæmd þessara laga.

Það var Sjálfstfl., sem samþ. lögin um fjárhagsráð. Það var fjárhagsráð undir stjórn sjálfstæðismanna, sem bannaði mönnum að byggja yfir sig.

Hvernig getur nú borgarstjórinn í Reykjavík komið ofan í þessar staðreyndir og beðið um þakklæti fyrir hönd Sjálfstfl. fyrir góða baráttu í húsnæðismálunum? Dettur sjálfstæðismönnum í hug, að þeim verði þakkað fyrir, þó að þeir hafi verið knúðir til að láta af því banni, sem þeir sjálfir höfðu sett um byggingu smáíbúða? Dettur sjálfstæðismönnum í hug, að þeim verði þakkað fyrir, þó að þeir hafi verið knúðir til að leyfa mönnum að hafa sómasamlega rishæð í smáíbúðunum? Nei, slíkt væri mikill misskilningur. Eða heldur borgarstjórinn, að allir þeir smáihúðabyggjendur í Reykjavík, sem orðið hafa að hrekjast út úr bænum með byggingar sínar, vegna þess að íhaldið í Reykjavík neitaði þeim um lóðir undir smáíbúðirnar, færi íhaldinu þakkir fyrir? Er það ekki staðreynd, að Reykjavík hafi í ár aðeins úthlutað 50–60 lóðum undir smáíbúðahús, en Kópavogshreppur hafi úthlutað 250 lóðum? Ég minnist ekki borgarstjórinn í Reykjavík þess, að fyrir nokkrum dögum drápu flokksbræður hans á Alþingi allar till. um fé til húsnæðisbygginga, og vegna þess á nú að afgreiða þannig fjárlög fyrir næsta ár, að ekkert fé er ætlað til byggingar íbúðarhúsa? Er kannske hrollur í borgarstjóranum í Reykjavík í sambandi við húsnæðismálin í tilefni af komandi bæjarstjórnarkosningum?

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, og fjmrh., Eysteinn Jónsson, töluðu hér báðir í gærkvöld. Þeir komu víða við, og var báðum mikið niðri fyrir. Það vakti þó athygli, að hvorugur þeirra minntist á atvinnuvegina. Um þá höfðu þeir ekkert að segja. Forsrh. eyddi sínum tíma í umr. um ímyndað verzlunarfrelsi og athafnafrelsi og um væntanleg skattalög, sem ekkert var þó hægt að segja um, hvernig yrðu. Sjávarútvegsmálin voru ekki í huga hans. Maður gat haldið, að þar væri allt í stakasta lagi. En hefur verið samið um rekstur vélbátaflotans á næstu vetrarvertíð, sem hefst eftir nokkra daga? Nei. Og hefur verið samið við sjómennina, sem boðað hafa vinnustöðvun frá næstu áramótum? Nei. Í því hefur ekkert verið gert. Og hefur nokkuð verið gert til þess, að rekstur togaraflotans stöðvist ekki, þar sem ísfisksmarkaðurinn er brostinn og bankarnir neita enn að lána út á frystan togarafisk? Nei. Allt þetta liggur ógert, og flest bendir til þess, að eins eigi að fara að nú og stundum áður, láta allt reka á reiðanum, þar til í fullkomið óefni er komið. Fjmrh. hafði ekki heldur miklar áhyggjur af atvinnuvegum landsmanna. Hann, sá mikli tollheimtumaður, var hálfur í aurabauk ríkisins og hálfur í hernaðarskrafl. Þessir hæstv. ráðh. geta ekki vænzt þess að sleppa hér við umr. um atvinnuvegi landsins, jafnvel þótt þeim sé það nokkuð nauðugt. Þó að tollheimtumaðurinn haldi, að öll þjóðfélagsbyggingin hvíli á honum, og þó að sjútvmrh. og forsrh. í einni og sömu persónu haldi, að framtíð þjóðarinnar byggist á kaupmöngurum, þá er staðreyndin samt allt önnur. Undan umr. um atvinnuvegina verður því ekki flúið, og mun ég nú ræða hér í stuttu máli stefnu stjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.

Auðvitað er hin yfirlýsta stefna ríkisstj. að styðja og efla atvinnuvegi landsins og skapa öllum landsmönnum næga atvinnu við þjóðarnauðsynleg störf. Í framkvæmd er stefna stjórnarinnar alger andstæða við þessa yfirlýsingu. Í stað þess að styðja atvinnuvegina styður hún þá, sem okra á atvinnuvegunum, og í stað þess að efla atvinnuvegina hrekur hún vinnuaflið frá þeim og í þjóðhættulega vinnu suður í Miðnesheiði. Árlegt verðmæti útfluttrar vöru Íslendinga er um 700 millj. kr. Langmestur hluti þessa útflutnings eru sjávarafurðir. Það er alkunna, að íslenzkir sjómenn eru fengsælli en sjómenn nokkurrar annarrar þjóðar. Norskir sjómenn koma næst Íslendingum í afköstum, en þó veiða okkar sjómenn sjöfalt meira fiskmagn hver maður en þeir norsku. Hvernig býr svo ríkisstj. að aðalatvinnuvegi landsins, sem leggur til meginhlutann af gjaldeyrisforðanum, að sjávarútveginum? Í hverju birtist stuðningurinn, og hvernig er búið að afkastamestu fiskimönnum heimsins? Er afkoma þeirra fiskiskipa, sem veiða þrefaldan og fjórfaldan afla í hverri veiðiför á við önnur skip, ekki góð? Og eru kjör þeirra afreksmanna, sem draga sjö fiska að landi á móti einum, ekki góð? Nei. Afkoma íslenzkra fiskiskipa er ekki góð, og kjör íslenzkra sjómanna eru ekki heldur góð. Það er algengt fyrirbæri, að fiskiskipin séu seld á nauðungaruppboði eða liggi mánuðum saman í reiðileysi vegna fjárskorts. Og sjómennirnir flýja fiskiskipin, svo að til vandræða horfir, enda eru þeir verst launuðu menn í okkar landi. Hvernig getur þetta nú átt sér stað einmitt hjá okkur, þar sem veiðin er svona stórkostleg? Hvað getur verið að? Ekki skortir þá væntanlega rétta fjármálastjórn? Og ekki skortir þá rétta forustu fyrir sjávarútvegsmálunum. En hvað er þá að? Óþarfi er að efast um, að íslenzka þjóðin græðir vel á sjávarútvegi sínum. Engin störf skila í þjóðarbúið jafnmiklum hagnaði og fiskveiðarnar. Á útgerð okkar er því stórkostlegur gróði. En hvað verður um gróðann?

Dagana fyrir alþingiskosningarnar í sumar slettist nokkuð upp á vinskapinn hjá stjórnarflokkunum. Þá gleymdu þeir um stund samábyrgðinni og sögðu hvor frá skömmum hins. Meðal þess, sem þá var upplýst, var gífurlegur okurgróði olíufélaganna. Morgunblaðið upplýsti þá, að olíufélag þeirra framsóknarmanna hefði stolið 700 þús. kr. af íslenzku útgerðinni á einum olíufarmi á þann hátt að segja fragtina sem þessu nam hærri en hún í rauninni var. Olíufélag Framsóknar var neytt til þess að skila þessari fjárhæð að mestu aftur vegna kosninganna, sem þá fóru í hönd. En blað þeirra framsóknarmanna, Tíminn, kom þá strax á eftir með heila upptalningu af olíuskipum, sem íhalds-olíufélögin hefðu leigt, og reiknaði blaðið út, hvað þau hefðu stolið miklu af olíukaupendum með of háum frögtum af þeim skipum. Tíminn sannaði, að uppgefnar fragtir þessara skipa hefðu verið miklu hærri en meðalfragtir voru um þetta leyti. Þessi þjófnaður hefur numið milljónum króna.

Fyrir skemmstu var gerður viðskiptasamningur við Sovétríkin, þar sem samið var um kaup þaðan á ársnotkun Íslendinga af olíum. Verðið á olíunni var lægsta heimsmarkaðsverð. En hvernig hefur ríkisstj. hagað framkvæmd þessa samnings? Gerði hún ráðstafanir til þess að tryggja landsmönnum eins hagstæðan flutning á öllu þessu mikla magni af olíum og hægt var? Nei, þvert á móti. Hún afhenti gömlu olíufélögunum samninginn, olíufélögum stjórnarflokkanna, þeim hinum sömu og sannað var fyrir síðustu kosningar að hefðu stórsvindlað á olíuflutningunum til landsins. Og hvernig er svo háttað dreifingarkostnaði olíufélaganna og olíusölunni innanlands? Nú er opinberlega upplýst, að hráolía og olía sú, sem bátaflotinn notar, kostar hingað komin til landsins 490 kr. tonnið. Útsöluverðið er svo 840 kr. tonnið, eða m.ö.o., 350 kr. taka olíufélögin af hverju tonni í dreifingarkostnað. Alls munu olíufélögin taka 35–40 millj. kr. á ári fyrir dreifingu þessarar olíu. Auk þess er svo dreifing togaraolíu og benzíns. Til sönnunar því, hvers konar okurstarfsemi þarna er rekin á sjávarútveginum, má nefna, að þau olíusamlög útvegsmanna, sem beztum samningum hafa náð við olíufélögin, hafa fengið um 100 kr. í afslátt af hverju tonni, en þá taka samlögin á sig alla áhættu og allan smásöludreifingarkostnað. Þessi olíusamlög sýna hagstæðan rekstur og sanna þar með, að allur dreifingarkostnaðurinn er langt undir 100 kr. á tonn, en olíufélögin fá 350 kr. á tonn. Það er því augljóst, að olíufélögin græða ekki aðeins stórfúlgur á flutningi olíunnar til landsins, heldur 20–30 millj. á dreifingunni innanlands á hverju ári. Ríkisstj., sem þykist styðja sjávarútveginn og er alltaf að bauka við einhver fríðindi fyrir bátaflotann, getur því miður ekki hreyft við þessu olíuokri. Það verður að vera eins og það hefur verið, því þó að hún elski nú ýmsa útgerðarmenn nokkuð mikið, þá elskar hún samt olíufélögin sín heldur meira.

Olíufélögin eru ekki þau einu, sem draga að sér gróða útgerðarinnar. Samkvæmt nýútkominni skýrslu frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda lækkuðu fragtir stórkostlega frá árinn 1951 til 1952. Í skýrslunni segir, að fragtir á saltfiskí frá Íslandi til Miðjarðarhafslanda hafi lækkað um 100 shillinga á tonn á þessum tíma. Sú lækkun nemur um 230 kr. á tonn, eða 23 aurum á hvert saltfiskskíló. Lækkunin nemur því, miðað við allan útflutninginn á saltfiski árið 1951, um 7 millj. kr. Enginn þarf að efast um, að enn er góður hagnaður á rekstri vöruflutningaskipa. En þá er líka augljóst, hvað gerzt hefur árið 1951. Að minnsta kosti 7 millj. kr. hafa verið teknar í hreinan gróða skipafélaganna aðeins af útflutningi á saltfiski árið 1951. Það sama hefur gerzt þetta ár með frosna fiskinn og aðrar útflutningsvörur. Við þetta allt bætist svo gróðinn af innflutningi vara til landsins. Það þarf engan að undra, þó að upp risi á örfáum árum heill skipastóll hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga með mörgum skipum og þó að Eimskipafélag Íslands græði álitlega á hverju ári. Tugir milljóna króna hafa af gróða íslenzkrar útgerðar runnið á ári hverju til þeirra skipafélaga, sem ríkisstj. hefur haft velþóknun á og ekki séð ástæðu til að draga úr gróðanum hjá.

Bankar landsins hafa ekki farið varhluta af þeim gróða, sem íslenzk útgerð hefur skapað á undanförnum árum. Landsbankinn sýndi í reikningum sínum fyrir árið 1951 28 millj. kr. í gróða. Það sama ár var vélbátafloti landsmanna tekinn til almennra skuldaskila.

Vátryggingarfélög taka drjúgan hluta af gróða útgerðarinnar á ári hverju. Samkvæmt skýrslum hagstofunnar greiddu Íslendingar árið 1951 21 millj. kr. meira út úr landinu í vátryggingargjöld en greitt var til landsmanna í bótum það ár. Árið á undan voru tryggingarnar Íslendingum óhagstæðar um 13 millj. kr. Þannig græða erlend vátryggingarfélög stórfé. En auk þess er svo gróði innlendra umboðsfélaga þeirra.

Enn er einn aðili, sem rétt er að nefna, þegar rætt er um þá, sem draga að sér gróða íslenzkrar útgerðar, en það er ríkissjóður sjálfur. Ríkisstj., sem heldur verndarhendi sinni yfir þeim, sem ég hef hér gert að umtalsefni og á ríkustum mæli reyta til sín hagnaðinn af sjávarútvegi landsmanna, lætur sannarlega ekki á sér standa með álögur á atvinnuvegi landsins. Í ár innheimtir hún tekjur í ríkissjóð um 480 millj. Þetta fé er að langmestu leyti innheimt í formi tolla og söluskatts, sem hvort tveggja hvílir með ofurþunga á atvinnuvegunum. Till. um að aflétta hinum illræmda söluskatti fást ekki ræddar. Till. um að aflétta þó a.m.k. söluskatti af vélum í fiskibáta, af öryggistækjum til fiskiskipa og af landbúnaðarvélum eru steindrepnar, um leið og þær koma fram. Þessi örfáu dæmi, sem ég hef hér nefnt, ættu að sýna, svo að ekki yrði um villzt, að ríkisstj. metur meir hagsmuni milliliða og okurfélaga, sem soga til sín gróðann af framleiðslunni, en hag atvinnuvega landsmanna.

Ríkisstj. er stjórn tveggja stjórnmálaflokka. Þeir hafa báðir búið um sig í þeim okurstofnunum, sem mest draga til sín af raunverulegum gróða atvinnuveganna. Alls staðar blasa við helmingaskipti stjórnarflokkanna. Það er sama, hvort litið er á bankana, olíufélögin, vátryggingarfélögin, skipafélögin eða ríkisstjórnina. Alls staðar má sjá höfuðpaura stjórnarflokkanna skipta með sér gróðanum af framleiðslu landsmanna. Ef sá mikli gróði, sem raunverulega fellur til frá atvinnuvegum þjóðarinnar, rynni til atvinnuveganna, þá þyrfti ekki lengur að tala um hallarekstur þeirra og þá gætu þeir goldið verkafólki og sjómönnum, fólkinu, sem öll framleiðslan byggist á, miklu hærra kaup en nú er gert og skapað aðstreymi að atvinnuvegum landsins í stað flótta frá þeim, eins og nú er. Þá gætu afkastamestu fiskimenn heimsins, mennirnir, sem vinna tvöfaldan vinnudag á við aðra landsmenn, mennirnir, sem standa við störf sín á flestum helgidögum ársins og ekki þekkja mun dags og nætur, þegar aflinn er annars vegar, borið réttláfan hlut frá borði í stað smánarlauna eins og nú er. En til þess að það geti skeð, verður að losna við sníkjulýðinn, sem nú hirðir gróða atvinnuveganna. Til þess þarf að afnema olíuokrið, afnema okur flutningaskipa og gera banka og tryggingarfélög að eðlilegum þjónustustofnunum atvinnuveganna. En ekkert af þessu verður gert, nema skipt sé um ríkisstj. og breytt sé um stjórnarstefnu, og það er fyrsta og stærsta verkið, sem kallar á verkamenn, sjómenn og alla alþýðu þessa lands.