15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

1. mál, fjárlög 1954

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Í þessum umræðum kemur fyrst og fremst til álita stefna ríkisstj. í innanlandsmálum. Ég ætla að nota þessar mínútur til þess að fá ykkur, hlustendur góðir, til þess að hugleiða það með mér, hvernig stjórnarstefnan ætti helzt að vera, og bera það saman við, hvernig hún hefur orðið í höndum núverandi stjórnarflokka.

Getum við ekki verið sammála um, að höfuðhlutverk sérhverrar ríkisstj. sé að halda þannig á málum, að allir vinnufærir menn eigi kost á lífvænlegri atvinnu? Ég geri ráð fyrir, að svo sé. Þá skulum við athuga, hvort núverandi stjórnarflokkar hafa gegnt þessari skyldu sinni.

Allir vita, að á árunum 1950–51 var hér mikið atvinnuleysi. Á því tók að bera svo að segja strax eftir að núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum 1950. En svo breyttist þetta. Af hverju? Nú starfa um 3 þús. manns á Keflavíkurflugvelli við óarðbær störf á vegum erlends ríkis. Ríkisstj. hefur ekkert aðhafzt til þess að sjá öllu þessu fólki fyrir atvinnu við framleiðslustörf, þegar hernaðarframkvæmdunum lýkur. Og ef þeim lyki skyndilega, yrði hér ægilegt atvinnuleysi. Það er óhugnanlegt, að svo skuli komið fyrir íslendingum, að þeir eigi vonir sínar um fulla atvinnu undir hernaðarframkvæmdum á vegum útlendinga. Þetta verður að breytast. En það breytist ekki nema með gerbreyttri stjórnarstefnu.

Getum við ekki líka verið sammála um það, að ríkisstj. eigi að vera ráðdeildarsöm? Er það ekki ein af höfuðskyldum hverrar ríkisstjórnar? Eða haldið þið kannske, að ríkisstj. sé ráðdeildarsöm?

Ég leit um daginn yfir eldhúsumræður fyrir 25 árum. Það var áður en sú ógæfa hófst í íslenzkum stjórnmálum, að Sjálfstfl. og Framsfl. tækju höndum saman um stjórn landsins. Einn ræðumanna gagnrýndi þá harðlega, að varið væri til hestahalds, bifreiðar o.fl. 11295.13 kr., og hann bætti við: „Dómsmrh. fór mörgum orðum um það, hve mikill búhnykkur það væri fyrir landið, að stjórnin hefði eigin bíla til sinna þarfa. Það getur náttúrlega vel verið, þegar miðað er við það ástand, sem nú er, þar sem dómsmrh. er sýknt og heilagt á sífelldum þeytingi út um allar jarðir með gæðinga sína til veizluhalda hér og þar og annars af slíku tagi, að þá sé það ódýrara, að landið eigi bifreiðar, en að leigja þær til þess af öðrum í hvert skipti. Í þessu kemur vitanlega fram sama óhófið og fjárbruðlunin hjá ráðh. á fé ríkissjóðs eins og á öðrum sviðum, og er sú eyðsla eða allmikill hluti hennar sannarlega þess eðlis, að ástæða sé til þess að átelja það.“

Hver haldið þið nú, að hafi mælt þessi orð? Hann á enn sæti á þingi og er í hópi reyndustu og virðulegustu þingmanna. Það er Pétur Ottesen, núverandi formaður fjvn. En á þessum aldarfjórðungi hefur orðið mikil breyting, bæði á hesla- og bifreiðahaldi ríkissjóðs og þá ekki síður á flokki hv. formanns fjvn. Nú er ekki um það að ræða, að ríkissjóður hafi keypt einn bíl. Á s.l. tveim árum hefur ríkisstj. flutt inn handa sér hvorki meira né minna en 9 bíla og þá ekki af lakari tegundinni. Ríkissjóður gerir nú út 6 bíla handa ráðherrunum, og mun kostnaðurinn við það bílahald ekki vera undir 1/2 millj. kr. á ári. Það eru nærri 1700 kr. á hvern vinnudag ríkisstj. Finnst ykkur ekki full ástæða til þess að taka undir þau ummæli formanns fjvn., þótt gömul séu, að ástæða sé til þess að átelja þetta óhóf og fjárbruðl?

Hæstv. fjmrh. fjölyrti um það í gærkvöld, að ekki væri hægt að lækka skatta og tolla og auka jafnframt útgjöld til verklegra framkvæmda. Minnti hann í því sambandi á skó, sem hefðarmey nokkur hefði viljað hafa litla að utan, en stóra að innan. En hann gleymdi að geta þess, hvert verið hefur höfuðeinkennið á fjármálastjórninni síðari ár, en það er, að tekjur af tollum og sköttum hafa alltaf verið að hækka, en úfgjöld til verklegra framkvæmda hins vegar alltaf að minnka hlutfallslega. Skór ríkisstj. hafa m.ö.o. alltaf verið að stækka að utan, en minnka að innan, svo að ávallt hefur orðið þrengra og þrengra um fótinn. Sjálft ríkisbáknið hefur nefnilega alltaf verið að þenjast út. Skórinn sjálfur hefur alltaf verið að stækka og er löngu orðinn að þungum klossa.

Við skulum halda áfram að athuga, hvert við eigum að telja markmið góðrar stjórnarstefnu.

Erum við ekki sammála um, að eitt höfuðmarkmið hennar eigi að vera að tryggja hagkvæm utanríkisviðskipti, að eyða ekki meiru en við öflum, að koma í veg fyrir skuldasöfnun? Hafið þið athugað, hvernig ríkisstj. hefur haldið á málum á þessu sviði?

Á fyrstu 10 mánuðum ársins var vöruskiptahallinn 284 millj. kr. Greiðsluhallinn var minni, en þó 75 millj. Þessi greiðsluhalli jafnaðist með Marshallfé, en framvegis mun ekki berast meira fé úr þeirri átt. Og nú hljótið þið að spyrja: Hvað tekur við? Á undanförnum árum, 5 árum, höfum við fengið Marshallgjafir að upphæð 435 millj. kr., einkum þó síðan 1950. Þetta fé hefur verið höfuðuppistaða þess, að hægt hefur verið að rýmka verulega um innflutninginn. En óstjórnin hefur verið slík, að samt sem áður höfum við safnað skuldum erlendis. Í lok október skulduðu bankarnir 23 millj. kr. erlendis. Hvað finnst ykkur? Er sú stjórnarstefna, sem hefur þessar afleiðingar, ykkur að skapi?

Hæstv. forsrh. gumaði mjög af því í gærkvöld, að sparifé hefði aukizt um 127 millj. kr. fyrstu 10 mánuði ársins, og taldi það bera vott um heilbrigða fjármálastefnu. En hann þagði um hitt, að á sama tíma hafa útlánin aukizt um 304 millj. eða meira en helmingi meira. Skyldi hann líka telja það bera vott um heilbrigða fjármálastefnu?

Hæstv. viðskmrh. vegsamaði mjög frv. sitt um innflutningsskrifstofuna í ræðu sinni áðan. Formaður fjhn. Nd., Skúli Guðmundsson, er þó ekki alveg eins hrifinn. Hann hæddist að frv. í gærkvöld, og um daginn sagði hann á Alþ., að í frv. fælist lítið annað en fremur lágkúruleg nafnbreyting, og er það orð að sönnu. Annars er tal ræðumanna Sjálfstfl. um ást þeirra á frjálsri verzlun dálítið spaugilegt, þegar það er haft í huga, að flokkurinn hefur ekki mátt heyra nefnt, að útflutningsverzlunin væri gefin frjáls, og felldi um daginn till. um að gefa innflutningsverzlunina alveg frjálsa.

Hæstv. viðskmrh. minntist áðan á frv. okkar Alþfl.-manna um kosningabandalög. Hann líkti kosningabaráttu við kúluvarp. En eigi að líkja kosningabaráttu flokka, sem hafa með sér bandalög, við einhverja íþróttakeppni, þá væri það helzt boðhlaup. Ef Ingólfur Jónsson tæki þátt í boðhlaupi, þætti mér líklegast, að hann yrði síðastur í sínum riðli. En sveit hans gæti samt unnið með réttu, ef aðrir í henni væru þeim mun hraðari á sprettinum. Það ber annars vott um mikla fávizku, þegar menn tala um kosningabandalagsfrv. eins og fáheyrða till. Nákvæmlega sams konar skipun var nefnilega lengi í gildi bæði í Noregi og Svíþjóð.

Enn skulum við halda áfram að athuga, hvernig stjórnarstefnan ætti að vera. Ætti hún ekki að miða að því, að við eigum sem neytendur kost á sem ódýrustum vörum? Skyldi ríkisstj. hafa stuðlað að því?

Þegar núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum, var það eitt af fyrstu verkunum að afnema nær allt verðlagseftirlit. Höfuðrökin voru þau, að verðlagseftirlit væri dýrt og auk þess óþarft. Afnám verðlagseftirlitsins hafði auðvitað þegar í stað í för með sér gífurlega hækkun á álagningu.

Milliliðirnir græddu milljónatugi. En hvernig fór um kostnaðinn? Nú er haldið uppi verðlagseftirliti með sárafáum vörutegundum. Það eftirlit kostaði í fyrra 27 þús. kr. meira en verðlagseftirlitið með öllum vörum kostaði 1949.

Á það ekki líka að vera höfuðskylda ríkisstj. að tryggja framleiðendum útflutningsafurða sannvirði fyrir framleiðslu sína? Hvernig skyldi ríkisstj. hafa gegnt því hlutverki?

Þegar gengi krónunnar var lækkað 1950, hækkaði útflutningsverð allra íslenzkra afurða um 74%. En fiskverðið til sjómanna hækkaði ekkert. Það hækkaði ekki um einn eyri fyrr en í ársbyrjun 1951, þegar bátagjaldeyrisálaginu var skellt á almenning. Þá hækkaði það í 96 aura. En 1952 hækkaði það svo aftur í 105 aura. Sjómennirnir græddu þannig ekkert á gengislækkuninni sem framleiðendur, heldur töpuðu á henni sem neytendur. Og þeir fengu ekki nema sáralítinn hluta af bátagjaldeyrinum. Hagnaðurinn af þessum ráðstöfunum rann eins og fyrri daginn í vasa milliliða í fiskframleiðslunni og útflutningsframleiðslunni, en ekki einungís þangað, heldur högnuðust innflytjendur og stórkostlega á því að leggja á bátagjaldeyrinn. Hvað segja sjómenn um þessa ráðsmennsku? Og hvað segir allur almenningur um það, að ein helzta framleiðslustétt þjóðarinnar skuli hlunnfarin jafnblygðunarlaust og hér hefur átt sér stað? Það er óvefengjanlegt, að það græða nú allir á íslenzkum fiski nema sjómenn og smáútvegsmenn. Þeir bera skarðan hlut frá borði og tapa. En gróði hinna er mikill, bæði innan landssteinanna .Og þá ekki síður utan þeirra.

Um það hefur verið margrætt opinberlega, að í sambandi við íslenzka útflutningsverzlun þróist margs konar spilling. Má í því sambandi minna á skýrslu fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna í London um saltfisksverzlunina í Ítalíu, þar sem hann hélt því fram, að umboðsmaður Sölusambands ísl. fiskframleiðenda þar í landi og nánir vinir hans og þó einkum ítalskur kaupmaður að nafni Marabotti högnuðust stórlega á íslenzka saltfiskinum, sem seldur væri þar í landi. En það er engu líkara en að einhverjum hér hafi fundizt Marabotti þessi ekki vera fullsæmdur af miklum og vafasömum gróða á íslenzkum saltfiski. Orðunefnd hefur nefnilega sæmt hann stórriddarakrossi hinnar íslenzku fálkaorðu, þótt ekki hafi enn verið skýrt frá því opinberlega af einhverjum ástæðum.

Þetta er býsna gott dæmi um ástandið í íslenzku þjóðfélagi. Sjómennirnir, sem draga fiskinn úr sjónum og heyja erfiðustu lífsbaráttu, sem háð er í þessu landi, hætta jafnvel lífi sínu, búa við slæm kjör og eru hlunnfarnir af alls konar milliliðum með hjálp ríkisvaldsins. Þeir eru jafnvel Iítilsvirtir með því að meina þeim að vera aðilar að samningum um hæð kaups þeirra, fiskverðið. En útlendir kaupmenn, sem hirða ávöxt af striti þessara manna, eru heiðraðir með fágætum íslenzkum heiðursmerkjum. Það er að vísu ekki þess konar heiður, sem íslenzkir sjómenn sækjast eftir, jafnvel þótt þeir vinni dæmafá afreksverk á sjónum. Þeir hafa án efa skömm á slíku prjáli. En það er táknrænt, að þeir, sem græða á fiski sjómannanna í útlöndum, skuli vera heiðraðir sérstaklega, samtímis því, sem sjómönnunum hér heima er ekki einu sinni sýndur sá sómi að fá að taka þátt í samningum um fiskverðið. En þeir eiga að heimta rétt sinn. Þeir eiga að krefjast þess að fá refjalaust í sinn hlut sannvirði þess fisks, sem þeir afla.

Við skulum víkja að einu atriði enn, sem góð ríkisstj. hlýtur að hafa í stefnu sinni. Það er að stuðla að því, að allur almenningur eigi kost á sómasamlegu húsnæði. Hvað hefur núverandi stjórnarflokkum orðið ágengt í þessum efnum? Um það bil sjötti hver Reykvíkingur mun búa í slæmu eða ófullnægjandi húsnæði. 2400 manns búa í bröggum, þar af 1800 konur og börn, og hefur íbúum bragganna fjölgað síðan 1947.

Borgarstjórinn í Reykjavík sagði í gærkvöld, að það væri gildur þáttur í íslenzku þjóðareðli allt frá upphafi Íslands byggðar, að Íslendingar vildu eiga hús sín sjálfir. Þetta var vel mælt og réttilega. En skelfing hlýtur manni þá að finnast lítið fara fyrir Íslendingseðlinu í brjóstum bæjarstjórnarmeirihlutans hér í Reykjavík, því að ekkert hús á bærinn fyrir sig og sína starfsemi. Bæjarstjórnarfundir eru haldnir í leiguhúsnæði í þakherbergjum eins af stórhýsum bæjarins, og bæjarskrifstofurnar eru dreifðar út um bæinn, allar í leiguhúsnæði, sem tugir þúsunda eru greiddir fyrir mánaðarlega. Það hefur löngum þótt hægara að gefa heilræði en halda þau.

Ég hef nú nefnt nokkur dæmi um atriði, sem flestir geta verið sammála um, að góð ríkisstj. eigi að hafa sem grundvallaratriði stefnu sinnar. En ég hef jafnframt sýnt fram á, að núverandi stjórnarflokkar brjóta gegn þeim öllum. Hvernig stendur á þessu? Allir vita þó, að það eru hvorki aulabárðar né misindismenn, sem landinu stjórna. En hvers vegna stjórna þeir þá svona? — hljóta menn að spyrja. Við skulum láta þá svara sjálfa. Við skulum fletta upp í aðalmálgögnum stjórnarflokkanna, Morgunblaðinu og Tímanum, fyrir kosningarnar í sumar.

Morgunblaðið hóf kosningabaráttuna með því að skýra frá því, að Sambandið hafi verið í þann veginn að hafa 700 þús. kr. af sjómönnum og útvegsmönnum í sambandi við vöruflutninga. Tíminn svaraði með því að skýra frá því, að Eimskipafélagið hefði grætt 125 þús. kr. á einum áburðarfarmi. Þá fór Morgunblaðið að tala um 1.6 millj. kr. ólöglegan hagnað Olíufélagsins. En Tíminn staðhæfði þá, að Shell og BP hefðu grætt rúml. eina milljón á olíuflutningum á fyrstu þrem mánuðum ársins og auk þess hefði Eimskip grætt 720 þús. kr. á fimm áburðarförmum. Enn svaraði Morgunblaðið með því að tala um sekt Olíufélagsins. Og þá fékk Tíminn málið fyrir alvöru. Hann skýrði frá því, að ólöglegur hagnaður einkaverzlana af verðlagsbrotum síðan 1938 hafi numið 1.8 millj. kr. og að Eimskipafélagið hafi grætt hvorki meira né minna en 511/2 millj. á leiguskipunum, sem ríkisstj. útvegaði því á stríðsárunum. Nú skýrði Morgunblaðið frá nýju olíuhneyksli, Sambandið hefði nælt sér í 200 þús. kr. milliliðagróða í Ameríku. Þá tók Tíminn á honum stóra sínum og sagði, að miðað við gróða kaupfélaganna hafi gróði kaupmanna á undanförnum 10 árum numið hvorki meira né minna en 120 millj. kr.

Mér telst svo til, að milliliðaokrið, sem Morgunblaðið og Tíminn skýrðu þjóðinni frá í kosningamánuðinum, hafi numið 182 millj. kr. Svona verður niðurstaðan, þegar stjórnarflokkarnir lenda í hári saman fyrir kosningar.

En hvað er svo að gerast milli kosninga? Er svo fjarri lagi að láta sér detta í hug, að þá séu helztu skjólstæðingarnir að skipta milli sín herfanginu og vilji fá sem beztan frið til þess?

Það urðu margir forviða, þegar Sjálfstfl. og Framsfl. tóku höndum saman eftir þennan kosningabardaga. Hæstv. landbrh. mun hafa sagt það á kosningafundi á Siglufirði, að innan Sjálfstfl. væru spilltustu öfl þjóðfélagsins, og siðasta flokksþing Framsfl. samþykkti vantraust á hæstv. dómsmrh. En Morgunblaðið kallaði hæstv. fjmrh. skattpyndara og skuldakóng og hallærishöfundinn frá fyrirstríðsárunum. Er það í rauninni nokkurt undrunarefni, hlustendur góðir, þótt stjórnarstefna, sem þessir flokkar framkvæma, sé mjög frábrugðin því, sem hún ætti að vera?