15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

1. mál, fjárlög 1954

Jón Pálmason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við þessa umr., sem heitir eldhúsdagsumr., er eðlilegast að tala nokkuð um fjárlögin og fjárhagsástandið í landinu.

Það heyrist um það sitt á hvað, hvort fjármálaástandið og fjármálastjórnin sé í góðu lagi eða ekki. Er því mikils um vert, að þjóðinni séu gefnar sannar lýsingar á því sviði frá fleiri hliðum en einni. Okkar hag er nú komið svo þrátt fyrir allar framfarir, að allir okkar atvinnuvegir eru í vanda staddir. Þeir þurfa meiri aðstoð með lánsfé og á annan hátt til þess að geta starfað. Mega þó allir vita, að þeir og þeirra framleiðsla er undirstaða allra okkar fjármála. En að svo er komið sem er stafar af óhófi í lifnaðarháttum, sköttum, tollum, launum og um leið margvíslegri eyðslu, sem er atvinnuvegunum um megn.

Útgjöld ríkisins hækka frá ári til árs, og svipað gerist viða annars staðar. Rekstrargjöld þessara fjári. eru áætluð 403 millj. kr. og gjöld á sjóðsyfirliti 443 millj., en það eru samanlögð gjöld. Þau urðu samkvæmt reikningi siðasta árs (1952) 550 millj., enda hætt við, að gjöld ársins 1954 verði allverulega hærri, þegar sjást fjáraukalög fyrir það ár, því að fjáraukalögin, sem nú liggja fyrir og eru frá 1951, eru upp á 114 millj. kr.

Til samanburðar vil ég nefna gjöldin á árinu 1946. Þá urðu rekstrargjöld 170 millj. og öll gjöldin 228 millj. Gjöldin hafa því meira en tvöfaldazt á þessu tímabili. Byggingarkostnaður hefur frá 1946 rúmlega tvöfaldazt eftir skýrslum hagstofunnar. Ég nefndi árið 1946, af því að fyrir það ár skilaði hinn vitri maður, Pétur Magnússon, síðasta reikningi, um leið og hann lét af fjármálastjórn. Hann var allra manna mest ásakaður um eyðslu og hvað mest af sumum þeim, er mestu hafa ráðið um fjárstjórnina síðan. Það er því nauðsynlegt, að fólkið fái rétta mynd af breytingunni. Það er umhugsunarefni fyrir allan landslýð. En hvernig stendur svo á allri þessari hækkun? Í því efni þýðir lítið að kasta hnútum milli manna og flokka. Staðreyndirnar tala sínu máli. Allt hefur skrúfað hvað annað upp, vöruverð, flutningar innanlands og utan, opinber gjöld, laun og kaupgjald.

Allt þetta hefur stefnt í sömu átt. Sumt af því hefur verið okkur sjálfrátt, annað ekki. En höfuðorsökin er vísitöluskrúfan og verðuppbótareglan. Í því efni eiga allir flokkar og allar stéttir einhverja sök, en embættis- og fastlaunastéttin mesta. Ég hygg, að nú séu allir gætnari og skynsamari menn í öllum stéttum farnir að sjá, að þessi leið var ógæfuleið, en við þeir fáu, sem höfum hamlað á móti, höfum ekki fengið neinu að ráða í þessu efni. Þjóðin hefur runnið á svellglærunni og rennur enn, hvernig sem nú landtakan verður. Ég verð að segja það hér, að þeir, sem telja fjármálastjórnina góða og fjárhagsástandið í landinu á góðri leið, eru mjög nægjusamir menn. Þetta er af því, hvað eyðslan er mikil á öllum sviðum og óvissan um framtíðina. En fólkinu líður vel, og hagur ríkissjóðs er góður, segja menn. Þetta er satt og hvort tveggja mikils virði. Sú undantekning er þó frá þessu, að þar sem veiðibrestur hefur þjakað sjávarbyggðir, þar er ástandið með atvinnu ekki álitlegt. En hagur ríkissjóðs er góður, og það skiptir miklu, en stafar af nokkuð óvenjulegum orsökum, en þakkarverðum eigi að síður.

Árið 1950 voru tekin upp ný úrræði fyrir atbeina minnihlutastjórnar sjálfstæðismanna með viðurkenningu á falli krónunnar og fleiri ráðstöfunum. Þess vegna hefur útflutningsframleiðslan verið möguleg síðan. Árið eftir (1951) voru innflutningshöftin leyst upp að miklu leyti. Það var eins og að taka stíflu úr á. Innflutningurinn á því ári óx um 314 millj. kr. frá því árið áður. Þetta hvort tveggja mokaði óhemjutekjum í ríkissjóð, og síðan hefur haldið áfram með öllum tollum og sölusköttum af efni til áburðarverksmiðjunnar og Sogs- og Laxárvirkjunar. Þessa vegna hafa tekjur ríkissjóðs verið geysimiklar þessi ár. í þessu og þessu einu felst bætt fjármálastjórn síðustu ára. Þess vegna hefur verið hægt að leggja mikið fé til margvislegra framfaramála, sem ella hefði ekki verið mögulegt. Þetta ber að þakka fyrrv. ríkisstj. og ekki sízt hæstv. fjmrh., Eysteini Jónssyni. Hvers vegna honum? — munu menn segja. Því er þannig varið, að meðan Jóhann Jósefsson var fjmrh., þá stóð Eysteinn Jónsson, sem var líka í þeirri stj., sem veggur gegn allri rýmkun á innflutningi og þar með öllum auknum tekjum ríkissjóðs. Hann hefur frá byrjun verið forustumaður haftastefnunnar á Íslandi, barizt fyrir henni á öllum sviðum og framkvæmt hana allra manna mest. Þegar þessi valdamikli maður snýr alveg við blaðinu til að moka tekjum í ríkissjóðinn, eins og hann gerði 1951, þá er það vissulega þakkarvert. Það er alltaf þakklætisvert, þegar menn, sem lengi hafa fylgt rangri stefnu, snúa við og taka rökum reynslunnar, enda hefur þessi snúningur hæstv. fjmrh. haft mikilvægar afleiðingar, m.a. þá að gera okkur sjálfstæðismönnum mögulega samvinnu við Framsfl. Ella hefði sú samvinna ekki getað verið fram á þennan dag.

Eins og gefur að skilja, eru þessi stefnuskipti til orðin fyrir fortölur og forgöngu sjálfstæðismanna, sem alla tíð hafa talið frjálsa verzlun sína aðalstefnu. En breytingin af hálfu samstarfsflokksins er jafnþakkarverð fyrir því, og það, að hagur ríkissjóðsins er nú góður, gefur hæstv. ríkisstj. og Alþ. færi á að bjarga úr mörgum vandræðum. Vandræðamálin eru líka í öllum áttum og von er til, að úr mörgu verði greitt. Það þykir mér og fleirum þó æði hart, að einkum skuli nú haldið niðri þeim framkvæmdum, sem víða er mest þörf á, sem er vegabótum, brúargerðum, hafnar- og lendingabótum og sjúkrahúsbyggingum. Til þessara mála eru framlögin að minnka raunverulega af því, hve miklu minna verk fæst fyrir hverjar þúsund krónur en var fyrir nokkrum árum. Nýir vegir um 1000 km á lengd voru teknir í tölu þjóðvega í byrjun þessa árs, en framlögin til vegamála hækka þó ekki neitt, ekki einu sinni til viðhalds vegunum. Þetta þýðir því mikla lækkun, þegar allt kemur til alls.

Það er kunnugt, að í samningum hæstv. ríkisstj. eru mörg fögur loforð, og við skulum vona, að þau verði öll framkvæmd. Eitt er þó það, sem mér og öðrum sveitamönnum er einna kærast, en það er loforðið um raflýsingu héraðanna. Það er framkvæmd á einu mesta hugsjóna- og baráttumáli okkar sjálfstæðismanna fyrr og síðar. Þau skoplegu orð hrukku fram úr hæstv. fjmrh. í gærkvöld, að raforkumálin væru meðal þeirra áhugamála Framsfl., sem þeir hefðu þurft að berjast fyrir við sjálfstæðismenn. Þetta er meira en hægt er að bjóða landsfólkinu. Saga þessara mála er of kunnug til þess, m.a. það, að framsóknarmenn gerðu það að þingrofsástæðu 1931, að til stóð að ábyrgjast 6 millj. kr. lán fyrir Sogsvirkjunina, sem var fyrsta stórvirkjun hér á landi. Hins vegar er óþarfi núna, að stjórnarflokkarnir fari að metast um þessi dýrmætu hagsmunamál. Við sjálfstæðismenn berum hið bezta traust til hæstv. raforkumálaráðh., Steingríms Steinþórssonar, og bæði ég og aðrir gerum okkur von um, að röggsamlegar framkvæmdir verði frá hans hendi í þessum efnum héruðum okkar til hagsbóta og blessunar.

En hæstv. fjmrh. sagði fleiri skopleg orð í ræðu sinni í gær, m.a. það, að framsóknarmenn hefðu gert sér helzt von um að geta samið við sjálfstæðismenn um frjálsa verzlun og lækkun skatta. Hlægilegri orð hafa ekki komið fram í þessum umr.

Aðalstefna Framsfl. var í 20 ár verzlunarhaftastefna, og höfuðsforsprakki hennar var allan tímann núverandi hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson. Nú hefur hann snúið við að miklu leyti, og gott er það, ef hann vill snúa til fulls á rétta leið, en aðalgrundvöllurinn fyrir stefnu Sjálfstfl. er frjáls verzlun.

Um skattalækkunina er svipað að segja. Hæstv. fjmrh. hefur í 20 ár verið allra manna fundvísastur á það að hækka skatta og tolla, stundum af nauðsyn, en bak við hefur þó oft staðið viðleitni til að hnekkja frjálsum atvinnurekstri. Þegar svo þessi maður þykist þurfa að berjast fyrir því við sjálfstæðismenn að fá að lækka skatta, þá er lengra gengið en hóflegt er í því að sýnast öðruvísi en verið hefur. Annars er það mjög ánægjulegt, ef allt það væri rétt, að framsóknarmönnum sé það nú mikið áhugamál að fá frjálsa verzlun og lækka skatta, og svo það, sem hæstv. ráðh. bætti við, að lofa athugun á því í alvöru að lækka eyðslugjöld ríkisins. Þá væru burt fallin stærstu ágreiningsefnin milli Sjálfstfl. og Framsfl., og þá gætum við séð hilla undir þann möguleika að gera einn flokk úr þessum tveimur stjórnarflokkum. Gamlar deilur og syndir yrðu þá að leggjast í grafarinnar djúp og ættu aldrei að rísa upp aftur. Þá mundi allur grundvöllur fyrir starfi hæstv. stj. verða annar en er. En til þess að þetta sé hugsanlegt, verðum við að fá eitthvað öruggari sannanir um breyttar aðferðir en komið hafa enn fram.

Annars vil ég segja það hér að gefnu tilefni, að í fyrra um þetta leyti var það góð samvinna milli stjórnarflokkanna, að við sjálfstæðismenn gerðum ráð fyrir friðsamlegum kosningum og framhaldandi samvinnu brotalaust, en þetta fór á aðra leið. Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi að slíta samvinnunni, hvernig sem kosningar færu, og samþykktu auk þess ávitur á hæstv. dómsmrh. fyrir það eitt að láta lögin ganga jafnt yfir afbrotamenn úr Framsfl. sem aðra, og út af þessu hvoru tveggja varð stjórnarkreppa, sem engin hefði þurft að verða.

Þegar ástandið í fjármálum landsins er eins og ég hef lýst, þá liggur sú spurning fyrir til úrlausnar, hvers bjargræðis sé að vænta af þeim flokkum, sem nú eru í stjórnarandstöðu. Þeirri spurningu er nauðsynlegt og skylt að svara. Í Alþfl. og Sósfl. er margt greindra og persónulega geðfelldra manna, en því miður er stefna þeirra og framferði þannig, að frá þeim er minna góðs að vænta en ætla mætti. Stefna þeirra beggja er sósíalistastefna, stefna ríkisrekstrar og ríkisyfirráða á öllum sviðum. Þeir bera á hverju þingi fram fjölda af útgjaldatill. upp á marga tugi millj. í viðbót við allt hitt. Þeir vilja meiri ríkisafskipti, hærri vísitölu, hærri laun, meiri eyðslu, en þeir þykjast vilja lægri tolla, lægri skatta, minni ríkistekjur. Hjá þeim rekur því eitt sig á annars horn og er vafið í mótsögnum og ósamkvæmni. enda þótt sumt af þeirra aðfinningum sé rétt. En frá þeim er því ekki mikils góðs að vænta á fjármálasviðinu. Áðferð þeirra er kannske öll eðlileg, og það er af því, að sósialistastefnan er það að eyðileggja núverandi þjóðskipulag og byggja annað nýtt á rústunum.

Um hinn nýja flokk, Þjóðvfl., er ekki margt að segja enn sem komið er. Hann er óskilgetið afkvæmi kommúnista og Framsóknar. Hann hefur sýnilega lært málið af foreldrunum, en er að öðru leyti pólitískt vöggubarn.

Hvað er svo að segja um aðstöðu okkar flokks, Sjálfstfl.? Allir andstæðingar kalla hann íhald. Látum þá um það. En hvað er það, sem þeir kalla íhald? Það að vilja halda í þjóðskipulag eignarréttar og atvinnufrelsis. Það að vilja hamla gegn óhóflegum sköttum. Það að vilja vinna gegn vaxandi ríkisrekstri. Það að vinna gegn óhóflegri eyðslu. Það að vilja hrinda sem bezt fram nytsamlegum framkvæmdum í sveitum og kaupstöðum. Og þó fyrst og fremst það að búa þannig að framleiðslunni, að hún beri sig styrkjalaust. Við teljum frjálsa verzlun undirstöðuna og álítum þessa stefnu þá frjálslyndustu sem til er, en við höfum verið á undanhaldi í mörg undanfarin ár vegna samvinnu við aðra og þó gert meira gagn en nokkur annar flokkur þessa lands.

En sé okkar viðleitni íhald, eins og andstæðingarnir vilja vera láta, þá hefur það íhald ekki megnað nema í takmörkuðum skilningi að reisa rönd gegn þeim öfgum breytinga og byltinga, sem öllu vilja umturna og gera ríkisvaldið allsráðandi, en einstaklingana valdalausa og sjálfstæðisrúna þjóna. Síðustu kosningar sýndu, að þjóðin er að átta sig á þessum sannleika, en hún verður að átta sig betur; ef veruleg von á að vera um mikla breytingu á þeirri fjármálastefnu, sem haldið hefur verið að undanförnu, þá verður samstæð heild og helzt einn flokkur að fá færi á að gera þær ráðstafanir, sem gera þarf, og bera þá á þeim alla ábyrgð. — Góða nótt.