15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

1. mál, fjárlög 1954

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hafði hér fátt að segja um stefnu ríkisstj. í sjávarútvegsmálum annað en það, að allt hefði verið gert til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins. Hann vék sér undan að ræða þau atriði, sem ég gerði hér að umtalsefni. Hann kaus ekki að minnast á olíumálin. Hann kaus ekki að verja aðgerðir sinna manna í þeim efnum, og er honum nokkur vorkunn.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að það hefði verið mikil firra, sem fram hefði komið í ræðu þm. Sósfl., Karls Guðjónssonar, að minnast á það, að ríkisstj. sleppti því að taka tolla af þeim miklu vörum, sem herliðið flytur nú inn í landið. Sagði ráðh., þegar minnzt var á þessi atriði, að það væri hart, ef ríkissjóður ætti nú að fara að byggja tekjuöflun sína einnig á framkvæmdunum á keflavíkurflugvellinum. En hvað gerir þessi hæstv. ráðh. nú í dag? Liggur hann ekki á fjórum frammi fyrir Bandaríkjamönnum og sníkir frá þeim fé? Hefur hann ekki á undanförnum árum hirt í sinn sjóð um 500 millj. kr. frá þessum sama her?

Þessi sami hæstv. ráðh. gerir það mjög að ræðuefni sínu að tala um sparnaðarstefnu sina í ríkisbúskapnum. Það er ekki úr vegi að fara hér örfáum orðum um stefnu hans í sambandi við útgjöld ríkissjóðs.

Hafa útgjöld ríkissjóðs minnkað í höndum þessa ráðh.? Er fækkað embættum eða dregið úr bitlingum? Nei, ónei. Ekki verður vart við neitt slíkt. Útgjöld ríkissjóðs hækka ár frá ári, án þess að nokkur ástæða sé fyrir hendi önnur en aukin eyðsla. Útgjöld ríkisins voru 1950 265 millj. kr., en verða í ár 440 millj. kr. Embættiskostnaður ríkisins hefur stórhækkað, nefndum hefur fjölgað, sendimenn ríkisins eru út um allan heim. Hin furðulegustu ríkisútgjöld eru tekin upp, án þess að lagaheimild sé fyrir hendi. Hér skulu nefnd nokkur dæmi sem sýnishorn úr nýútkomnum ríkisreikningi ársins 1951. Það ár eru þeim alþm., sem saman komu á fundi í Reykjavík til þess að samþ. hertöku landsins, greiddar 30 þús. kr., auðvitað án allrar heimildar. Það ár greiðir ríkisstj. einhverjum hægri handar mönnum sínum 106 þús. kr. fyrir að semja fyrir sig lagafrv. og reglugerðir. Hvers vegna gátu starfsmenn ríkisins ekki unnið þessi verk? Þetta ár (1951) greiðir ríkisstj. án heimildar 118 þús. kr. fyrir hagfræðilegar álitsgerðir. Þetta ár eru greiddar 151. þús. kr. í ferðakostnað — líklega fjmrh. á fund alþjóðabankans. Og þetta ár greiðir ríkisstj. 248 þús. kr. í bílakostnað stjórnarráðsins. Þetta ár voru umframgreiðslur 43 millj. kr. á ríkisreikningi, og samt leyfir þessi hæstv. ráðh. sér að segja hér í umr., að á undanförnum 4 árum í ráðherratíð hans hafi umframgreiðslurnar verið minni en áður. Þannig lýsir sparnaðarstefnan sér í framkvæmd.

En svo koma talsmenn stjórnarflokkanna og fala um sparnað, meiri sparnað og um allan undirbúning, sem stjórnin hafi á prjónunum um sparnað. Þann 21. apríl 1952 skrifaði fjmrh. að hans eigin sögn meðráðherrum sínum og bað þá um að kíkja eftir því í ráðuneytunum, hvort ekki væri hægt að spara á einhverjum liðum. Vitanlega kom ekkert út úr þessum tilskrifum frekar en þeim, sem nú er verið að prjóna upp á, þegar ráðherrann segist verða að skrifa samráðherrum sínum og fara fram á sparnað.

Í hverju er fjármálastefna ríkisstj. fólgin? Fyrst og fremst í því að reyta af landsmönnum eins mikið í tollum og sköttum og nokkur tök eru á. Árið 1949 nam verðtollurinn 45 millj.; í ár verður hann 125 millj. Árið 1949 nam söluskatturinn 43 millj.; í ár fer hann yfir 100 millj. Það þarf harðan haus til þess, svo að notuð séu orð fjmrh. sjálfs, að koma hér svo fram í almennum útvarpsumr. og neita því, að tollar og skattar hafi verið hækkaðir á undanförnum árum, en það er þetta, sem hæstv. fjmrh. gerir. Það er tilgangslaust að halda áfram þeim blekkingum, að tolla- og skattastiginn hafi ekki tekið breyt. Tolla- og skattahækkun var samþ. með gengisbreyt.

Ágætt dæmi um það, hvernig fjármálastefnan hefur reynzt, er uppbótagreiðslukerfið á landbúnaðarafurðunum. Þegar gengislögin voru samþ., átti að létta af sköttum og tollum og afnema uppbótagreiðslurnar. Í ár verða uppbætur á landbúnaðarafurðir 46 millj. kr. og fara eflaust upp í 50 millj. kr. á næsta ári. Uppbæturnar skiptast þannig: smjörlíki 6.8 millj. kr., smjör 9.4 millj. kr., kjöt 2.9 millj. kr., mjólk 18.9 millj. kr. og kartöflur 8 millj. kr. Vegna þess að í ár var metuppskera garðávaxta, hækkuðu uppbætur á kartöflum um rúmar 7 millj. kr. Það er heldur viturlegt skipulag þetta og sýnir djarfa og örugga fjármálastjórn; sem sagt vegna þess, að hver kartafla, sem sett var í jörðina í ár, gefur af sér fjórfalda uppskeru á við það, sem áður var, þá skal greiða 8 sinnum meiri uppbætur úr ríkissjóði til kartöfluframleiðenda nú en áður. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem geta stært sig af svona skipulagi, telji sig hafa efni á að bera öðrum á brýn ábyrgðarleysi í fjármálum ag óspilunarsemi á fjármunum ríkisins.

Sjálfstæðismenn hafa rætt hér allmikið í þessum umr. um verzlunarfrelsi og athafnafrelsi. Við hvað miðast það frelsi, sem við búum við nú í dag? Er leyfilegt að bjóða út og selja útflutningsvörur landsmanna? Nei, ekki án leyfis ríkisstj. Er leyfilegt að kaupa byggingarefni og ráðast í framkvæmdir án leyfa? Nei, það þarf mörg leyfi til slíks. Er leyfilegt að flytja inn vélar og tæki til framleiðslunnar án leyfa? Nei, við slíku er blátt bann. En það er fullt frelsi á innflutningi alls konar óþarfavarnings. Það er varla til sú óþarfavara, sem ekki er allt yfirfullt af í verzlunum landsins nú í dag, og frelsið í þeim efnum nær lengra en til innflutningsins. Það er líka frjálst að verðleggja þetta skran eftir vild, og kannast flestir landsmenn við það. Þetta er í aðaldráttum það verzlunarfrelsi, sem sjálfstæðismenn virðast keppa eftir. — Og hvað um athafnafrelsið? Fyrir nokkrum dögum fluttum við sósíalistar till. hér á Alþ. um að gera frjálsar án leyfisveitinga byggingar í þágu sjávarútvegsins, eins og t.d. fiskverkunarhús og fiskgeymsluhús. Þessi till. okkar var drepin af stjórnarliðinu, af sömu mönnunum og nú tala hér um aukið athafnafrelsi.

Tími minn er nú á þrotum. Umr. þessar hafa sýnt og sannað, að stefna núverandi ríkisstj. er í aðalatriðum óbreytt stefna fyrrv. ríkisstj. Hún er sama stjórn milliliða og okrara og áður var hér við völd. Talsmenn stjórnarinnar tala að vísu fagurlega um nauðsyn íbúðabygginga, um rafvirkjun alls landsins, um lækkun skatta, um aukið frelsi og um sparnað í ríkisrekstrinum og um stuðning við atvinnuvegina, og auðvitað telur stj. sig vörð sjálfstæðis þjóðarinnar. En í reyndinni blasir annað við landsmönnum. Í reyndinni bannar ríkisstj. byggingar, útilokar alla lánsmöguleika og drepur lögin um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Í reyndinni hækkar hún tolla og skatta, eyðir og sóar ríkisfé, verndar þá, sem okra á framleiðslunni, og skríður í duftinu fyrir erlendu valdi. Það er tími til þess kominn fyrir alþýðu þessa lands að losa sig við slíka stjórn sem þá, sem nú fer með völd á Íslandi. — Góða nótt.