15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

1. mál, fjárlög 1954

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Út af einu atriði í ræðu hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundssonar, skal ég geta þess, að mér er tjáð, að það sé misskilningur hjá honum, að Hæstiréttur hafi dæmt um söluskatt hliðstæðan þeim, sem innheimtur var hjá umræddu bókaútgáfufyrirtæki Valdimars Jóhannssonar. Enn fremur að því fyrirtæki sem hér var nefnt, sem er Hlaðbúð, hafi ekki verið endurgreiddur skattur. Sömuleiðis að bókaútgáfa Valdimars Jóhannssonar hafi aldrei kært sinn skatt og hafi nú greitt hann.

Ég býst ekki við, að það hafi komið neinum á óvart, þó að hv. stjórnarandstöðuflokkar hafi reynt að finna að gerðum hæstv. ríkisstj. Hitt er leiðinlegra, ef þeir hafa enga aðra stefnu en að vera móti stjórninni. Við skulum vona, að svo sé ekki.

Margt ber hér á góma. Menn tala um, að skattar og tollar séu þungir. En á skal að ósi stemma. Þeir, sem vilja lækka skatta, eiga fyrst að beita sér fyrir lækkun útgjalda, þarfra eða miður þarfra, þá kemur skattalækkunin á eftir. Sumir ætluðu að auka tekjur ríkisins með því að breyta áætlunartölum fjárlaga. Bóndi getur líka áætlað meira í hlöðu sinni en mælzt hefur á haustnóttum, en taðan vex ekki við það og ásetningurinn batnar ekki, en getur farið illa.

Í gærkvöld var einhver að reyna að gera útgerðarmenn og sjómenn óánægða með fjárframlög til bænda. Ég hef ekki trú á, að það takist. Útvegsmenn og sjómenn skilja, að bændum er lífsnauðsyn að rækta landið og losna við fjárpestirnar, alveg eins og bændur skilja, að gengisbreytingin og bátagjaldeyririnn var nauðsyn fyrir sjávarútveginn. Hinar fornu meginstéttir Íslands, sem eiga í höggi við náttúruöflin á landi og sjó, þurfa að skilja hvor aðra.

Bátagjaldeyrisfyrirkomulagið er oft misskilið. En með því að taka það upp var komið í veg fyrir, að krónan væri felld í annað sinn, og helztu nauðsynjavörunum þar með hlíft við verðhækkun. Menn þurfa að átta sig á þessu.

Það er sagt, að þingmenn stjórnarflokkanna geri of mikið að því að fella útgjaldatillögur frá stjórnarandstæðingunum. En það er stjórnin og meiri hlutinn, sem her ábyrgð á fjárl. Tölur fjárl. skipta þúsundum. Það er ekki hægt að ákveða allar þessar tölur með einni eða tveimur atkvæðagreiðslum á þingfundum. Aðalverkið verður að vinna í fjmrn. og í fjvn. í samráði við alþm. Það er sama, hvaða tala er nefnd. Stjórnarandstæðingar geta alltaf lagt það til, að hún sé hækkuð. Það er þeirra aðferð, og henni er oft misjafnlega beitt. Svo er hægt að brigzla meiri hl. um, að hann vilji t.d. ekki veita fé til að koma í veg fyrir slys á sjó. En menn vaxa ekki af slíku.

Og svo ræða menn hér um öryggi landsins eða öryggisleysi. 43 þm. eru þó samþykkir að hafa hér hervernd. Þeir eru það af því, að þeir vilja, að Ísland reyni að hafa einhverja íhlutun um örlög sin. 7 þm. eru á móti af því, að þeir vilja hér heldur her frá Ráðstjórnarríkjunum en frá vestrænum löndum. 2 þm. halda, að Ísland geti verið hlutlaust eins og 1914. Mæla böru sem vilja, stendur þar. En við lifum í hörðum heimi.

Að öðru leyti mun ég ekki taka þátt í deilum, er orðið hafa, enda er þetta síðasta ræðan. Hér á landi hefur verið og er enn þörf mikilla framkvæmda og framfara. Við framsóknarmenn höfum jafnan verið þeirrar skoðunar, að löggjafarvaldið verði að hafa íhlutun um það, að tryggt sé, að framfarirnar komi þeim að gagni, sem mest hætta er á að verði aftur úr, ef rás viðburðanna væri látin afskiptalaus. Það á að vera hugsjón Íslendinga, að öll landsins börn, eða sem flest, verði samferða í hinni miklu framsókn til betra lífs, hver sem þau eru og hvar sem þau eru. Við töldum t.d. mjög miður farið, hve mjög sveitirnar og hin fámennari byggðarlög við sjávarsíðuna urðu útundan, þegar fjármagn var hér mest fyrstu árin eftir styrjöldina. Við hörmum það líka, að það skyldi ekki lánast þá að hefja gagnlegar framkvæmdir, svo að um munaði, í húsnæðismálum hins efnaminna fólks í hinni ört vaxandi höfuðborg. Það er gagnlegra fyrir þjóðina að eignast t.d. bátabryggju við sjóinn, 150 ha. af ræktuðu landi eða 3 verkamannabústaði en eina stóribúð í villuhverfi eða 300 hægindastóla, og ber þú eigi að lasta svo góða hluti.

Síðustu árin hefur verið reynt að ráða hér nokkra bót á, þótt efnin séu minni. T.d. hefur verið flutt inn mikið af stórvirkum landbúnaðarvélum og lánsfé mjög aukið til ræktunar og bygginga í sveitum, enda mikið unnið þar, eins og þeir sjá, sem um landið fara. Nokkuð hliðstæð átök hafa verið gerð við sjávarsíðuna, þótt betur megi, ef duga skal. Sjávarplássin hafa verið studd til sjálfsbjargar, t.d. með ríkislánum til framleiðsluaukningar og ríkisábyrgðum vegna fiskiðjuvera. Og fiskimálasjóður og fiskveiðasjóður Íslands hafa lagt þessari starfsemi lið. En nú vantar fiskveiðasjóð Íslands starfsfé, ef hann á að geta verið aðallánsstofnun bátaútvegsins til stofnlána. Úr þessari þörf verður að bæta fljótlega á einhvern hátt.

Nauðsyn ber til þess, að þeir, sem með þjóðmál fara, og þjóðin í heild gefi meiri gaum hinum mörgu og oft fremur fámennu og fátæku sjávarþorpum á strönd landsins en gert hefur verið lengst af. Þessi byggðarlög eru nú um 50 talsins, að meðtöldum nokkrum nýjum sveitaþorpum, þegar frá eru talin þau, sem fengið hafa kaupstaðarréttindi og menn vita hver eru. Það ætti ekki að gleymast, að þessir staðir gegna merkilegu hlutverki í atvinnulífi þjóðarinnar og eiga líka sína sögu og hana ekki ómerka — og þeir, sem þar hafa numið land, lifað og starfað. Framleiðsla sjávarþorpanna og gjaldeyrisöflun er t.d. hlutfallslega mjög mikil og gæti verið meiri. Viða eru þar skilyrði til búskapar til heimilisnota og sums staðar mjög góð. Hin dreifðu og fámennu sjávarþorp, sem stunda útveg á smábátum, ala upp tiltölulega stóran hluta af sjómannastétt landsins, þ. á m. marga þá, sem síðar starfa á hinum stærri skipum. Reynslan er sem sé sú, að þegar bæirnir stækka, glatar mikill hluti æskunnar hinu nána sambandi við sjóinn og verður honum fráhverfur. En þorpin eru flest af vanefnum byggð í öndverðu. Þar var viða byggt af torfi eins og í sveitum, enda fluttist þangað oft mjög fátækt fólk. Enn þá er húsnæðisástandið þar lakara en í hinum stærri kaupstöðum, þótt einnig í þeim sé miklu ábótavant. Íbúðum í þorpunum hefur einkum verið komið upp með vinnu eigendanna og aðstoð verzlana eða í seinni tíð getulítilla sparisjóða. Hinar almennu lánsstofnanir hafa fremur lítið sinnt þörfum þeirra, þar til loks nú nýlega, að smáibúðadeildin nýja hefur reynt að leysa vandræði ýmissa með lágum upphæðum. Helzt þyrftu þessi þorp að hafa sérstaka byggingarlánastofnun, sem miðuð væri við þeirra staðhætti. Í stórum hluta landsins eru íbúar þessara þorpa atvinnulitlir á vetrum heima fyrir, en fjölskyldumenn eiga óhægt um vík að sækja atvinnu í aðra landshluta, einkum þegar aldur færist yfir þá. Grundvöllur þessara staða er að sjálfsögðu framleiðslan og tækin, sem til hennar þarf, þ. á m. hafnarskilyrði, því að fátt annað en framleiðslu er við að vera þar að gagni. Og miklu skiptir, að þeir af þessum stöðum, sem enga raforku hafa eða ónóga, geti fengið hana meiri og með betri kjörum en nú, hvernig sem að því verður farið, en það mál verður að leysa.

Íbúar sveitanna flestra — eða a.m.k. margra — og nágrannaþorpanna eiga um margt sameiginlegra hagsmuna að gæta og þurfa að standa saman í landsmálum í baráttunni fyrir hinum sameiginlegu hagsmunamálum. Á þann hátt verður hlutur beggja beztur. Þeim stöðum, sem nú taka við flestum innflytjendum, má líka vera það áhugamál, að dreifbýlisfólkið glati ekki staðfestu sinni í átthögum sínum.

Tími minn er nú þrotinn. Ég óska þeim, sem hlusta, og öllum öðrum gleðilegra jóla. Góða nótt.