16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Um rekstrarafkomu flóabátanna á liðandi ári er það fyrst og fremst að segja, að hún hefur, eins og stundum áður, verið nokkuð misjöfn. Einstakir bátar hafa bjargazt sæmilega með þann styrk, sem þeim hefur verið veittur, en hjá öðrum hefur orðið nokkur halli og hjá sumum allverulegur.

Samvn. samgöngumála hefur eins og undanfarið annazt undirbúning tillagna um styrki til flóabáta og vöruflutninga og hefur í samvinnu við Skipaútgerð ríkisins reynt að afla sér sem gleggstra upplýsinga um rekstur og afkomu bátanna. Enda þótt reynt hafi verið að fá sem gleggst yfirlit um þennan rekstur, þá þykir n. þó nokkuð bresta á um það, að hún hafi eins glöggar upplýsingar frá öllum þeim samgöngufyrirtækjum, sem þennan rekstur annast, eins og þörf krefur. Þess vegna hefur hún einróma lagt til, að þeirri áskorun verði beint til samgmrn., að það feli sérstökum manni að rannsaka á næsta ári allan rekstur flóabátanna með tilliti til þess, að sem gleggst vitneskja fáist um hag og afkomu bátanna.

Á síðasta þingi lagði n. til, að þessi fyrirtæki yrðu krafin ársfjórðungslegs yfirlits um rekstur sinn og að samgrmrn. eða Skipaútgerðin hefðu forustu um það. Þetta hefur ekki verið gert, ekki vegna þess, að ekki hafi verið áhugi fyrir því hjá þeim aðilum, sem þessari ósk var beint til, heldur vegna hins, að ég geri ráð fyrir, að það sé nokkrum erfiðleikum lundið að fá slíkt ársfjórðungslegt yfirlit frá öllum flóabátunum. Þeir vita ekki svo glögglega, hvar þeir eru á vegi staddir, að þeir geti gefið slíkt yfirlit ársfjórðungslega. En með því að fela sérstökum manni að fylgjast sérstaklega með þessum rekstri, ætti að vera unnt að fá eins fullkomnar upplýsingar og frekast er kostur um þennan rekstur og byggja tillögur um styrkveitingar síðan á þeim upplýsingum.

Samkvæmt tillögum samvn. er lagt til, að flóabátaferðunum verði á næsta ári hagað með mjög svipuðum hætti og gert hefur verið undanfarin ár. Þó er lagt til, að rekstri tveggja þeirra, Húnaflóa- og Strandabáts og Eskifjarðarbáts, verði hætt. Mun ég hér á eftir minnast nokkuð á ástæður þess.

Um rekstur einstakra flóabáta og ferðir þeirra vil ég taka þetta fram:

Er þar fyrst að minnast á Breiðafjarðarsamgöngurnar. Þar er lagt til, að rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts hækki um 20 þús. kr. Rekstur þessa báts hefur gengið mjög illa á þessu ári, og hefur fyrirtækið, sem rekur bátinn, farið fram á mjög mikla styrkhækkun til hans. Nefndin hefur reynt að koma til móts við þær óskir með því að leggja til, að styrkur til hans hækki um þessa upphæð. Þá er og styrkupphæðin til þessa báts nú veitt í einu lagi í samráði við þm. kjördæmisins og þannig, að styrkurinn er veittur til vikulegra ferða frá Flatey með viðkomu í eyjum og á höfnum við norðanverðan Breiðafjörð, samkvæmt fastri áætlun. Mun það vera í samræmi við óskir fólksins, sem á að njóta ferða bátsins.

Um samgöngurnar við sunnanverðan Breiðafjörð er það að segja, að Stykkishólmsbátur, sem hefur verið á undanförnum árum mjög vel rekinn og ekki haft mjög háan styrk, fer nú fram á töluvert mikla styrkhækkun. Hlutafélagið, sem rekur bátinn, hefur orðið að kaupa nýtt skip, nokkru stærra, til þess að annast þessar ferðir, og enn fremur er talið nauðsynlegt að skipta um vél í þeim bát. En af því leiðir allmikinn aukakostnað fyrir fyrirtækið, sem það treystir sér ekki til að rísa undir óstutt. Það hefur þess vegna farið fram á allmikla hækkun á rekstrarstyrk og sömuleiðis beðið um styrk til vélakaupa. — N. hefur mætt þessum óskum með því að leggja til, að rekstrarstyrkurinn verði hækkaður um 25 þús. kr. og félaginu veittur 20 þús. kr. styrkur til vélakaupa. Er það ekkert nýmæli, þar sem á undanförnum árum hafa iðulega verið veittir styrkir til einstakra báta til vélakaupa og vélaviðgerða.

Þá er að lokum lagt til í sambandi við Breiðafjarðarsamgöngur, að styrkur til Skógarstrandarog Langeyjarnessbáts verði óbreyttur.

Um Ísafjarðarsamgöngur er það að segja, að sama skip hefur annazt þær og undanfarin ár, og má segja, að rekstur þess hafi gengið tiltölulega sæmilega á þessu ári. Fyrirtækið hafði á þessu ári samtals 430 þús. kr. í styrk, en þar af voru 50 þús. kr. veittar upp í rekstrarhalla undanfarinna ára og 40 þús. kr. til vélakaupa. Nú er lagt til, að styrkur til þessa báts verði samtals 370 þús. kr. eða 60 þús. kr. lægri en á þessu ári, en af þessum 370 þús. kr. verði 20 þús. kr. varið til viðgerða á skipi félagsins, „Fagranesinu“, sem annast þessar ferðir.

N. taldi ekki fært að verða við ósk félagsstjórnarinnar um að fá 50 þús. kr. til þessarar viðgerðar, en væntir þess, að fyrirtækið geti einhvern veginn bjargazt, fengið fé annars staðar frá til þess að ljúka nauðsynlegri viðgerð á skipinu.

Í sambandi við Norðurlandssamgöngur er þess að geta, að flóabátur sá, sem annazt hefur flóabátaferðir milli hafna í Strandasýslu og stundum allt suður til Hvammstanga, hefur nú verið seldur og enginn bátur hefur enn þá verið keyptur í hans stað. Það varð því að ráði í samráði við þm. Strandamanna að leggja til, að styrkur til þessa báts verði felldur niður á næsta ári. En samkvæmt ósk þingmannsins og einnig í samráði við hv. fjvn. er lagt til, að hluta af þeim styrk, sem Strandabátur hefur notið, verði varið til samgöngubóta á landi í Strandasýslu. Það er mjög mikill áhugi fyrir því þar í héraði að skapa sem fyrst akvegasamband milli kauptúnsins Drangsness við norðanverðan Steingrímsfjörð og Hólmavíkur og hins vegar akvegasamband milli Ingólfsfjarðar í norðurhluta sýslunnar og Gjögurs við norðanverðan Reykjarfjörð. Samvn. féllst á, að 100 þús. kr. af þeim 130 þús. kr. styrk, sem Strandabátur hefur notið, yrði varið til samgöngubóta á þessum tveimur vegum, þannig að þetta fé kæmi héraðinu að gagni með öðrum hætti. Það er svo álit n., að reynslan verði að skera úr um það, hvort nauðsyn beri til þess að taka upp ferðir Húnaflóa- og Strandabáts að nýju.

Norðurlandsbáturinn, sem gengur um Eyjafjörð og Skagafjörð, fékk á þessu ári 310 þús. kr. styrk. En útgerðarmaðurinn, sem bátinn rekur, taldi sér ókleift að halda þeim rekstri áfram án töluverðrar styrkhækkunar. N. taldi því ekki unnt að komast hjá að hækka styrkinn nokkuð og lagði til, að hann fengi 20 þús. kr. meira en á þessu ári.

Þá er styrkur til Hríseyjarbáts hækkaður um 1000 kr., og styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda er lagt til að hækki um 6 þús. kr. En þannig stendur á með þann bát, að eigandi hans, sem var búsettur í Flatey, hefur flutzt þaðan til Húsavíkur og ekki hefur reynzt mögulegt að fá annan bát búsettan í Flatey til þess að annast ferðirnar. En við það að báturinn er staðsettur á Húsavík verða þessar ferðir nokkru dýrari, og taldi n. óhjákvæmilegt, þar sem ekki hafði fengizt bátur heima í Flatey, að styrkja hann þá nokkuð ríflega, til þess að hann gæti haldið ferðunum uppi áfram.

Á Austfjörðum er lagt til að styrkur til Loðmundarfjarðarbáts verði óbreyttur, en styrkur til Mjóafjarðarbáts hækki um 2 þús. kr. Hins vegar er lagt til, að styrkur til Eskifjarðarbáts falli niður. Sprettur það af því, að akvegasamband hefur nú skapazt milli þeirra byggðarlaga, sem báturinn hélt uppi ferðum til og frá. Hins vegar er styrkur til Berufjarðarbáts óbreyttur.

Ég er þá kominn að Suðurlandsskipi. Eins og kunnugt er, þá hefur um alllangt skeið verið veittur styrkur til flutninga á hinni löngu og erfiðu leið milli Reykjavíkur og Vestur-Skaftafellssýslu. Flutningskostnaður á þessari leið er ákaflega mikill. N. upplýsti í áliti sinn á s.l. ári, að hann væri yfir 500 kr. á tonn austan Mýrdalssands, en nokkru lægri vestan haus. Á undanförnum árum hefur styrkur til þessara flutninga verið hækkaður lítillega öðru hverju. Nú var farið fram á það, að styrkurinn yrði hækkaður enn nokkuð, og með tilliti til þess, að reynt yrði að styrkja vetrarsamgöngur í héraðinu nokkuð, en fyrir atbeina sýslun. V: Skaftafellssýslu var á s.l. ári keyptur snjóbíll til notkunar á leiðinni Reykjavík-Kirkjubæjarklaustur og til notkunar við vetrarflutninga þar í sýslunni. Var það aðalsérleyfishafinn þar í héraðinu, sem keypti þetta samgöngutæki. Nú varð það að ráði í n., að lagt var til, að 25 þús. kr. yrðu veittar í styrk í eitt skipti fyrir öll vegna þessa öryggistækis. Hækkar styrkurinn til Suðurlandsskips því um þessa upphæð.

Þá leggur n. til, að styrkurinn til Vestmannaeyja- og Stokkseyrarbáts verði óbreyttur, eða 80 þús. kr. Stöðugt eru uppi raddir um það, að leggja beri þennan flóabát niður. Víst er um það, og verkefni hans er ekki ýkjamikið, eftir að samgöngur bötnuðu mjög í lofti og á sjó við Vestmannaeyjar. En það er alltaf sama sagan, að bæði bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar og þingmenn frá Vestmannaeyjum og úr Árnessýslu telja það mjög miður farið, ef þessar samgöngur legðust af. Þess vegna hefur n. ekki talið fært að leggja til, að styrkur til þessa báts yrði felldur niður.

Um Faxaflóasamgöngurnar er það að segja, að þær hafa verið miklum vandkvæðum bundnar, síðan h/f Skallagrímur í Borgarnesi varð fyrir því hörmulega óhappi að missa skip sitt, „Laxfoss“, snemma á árinu 1951. Það hefur orðið að halda uppi þessum nauðsynlegu samgöngum milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness með dýrum og misjafnlega hentugum leiguskipum. Félagið hefur unnið að því af kappi að undirbúa smíði eða kaup á nýju skipi. En sá undirbúningur hefur þó ekki enn þá borið árangur. Ég vil þó upplýsa það, að eftir því sem mér hefur verið tjáð, þá munn líkur til þess, að tilboð berist um byggingu nýs skips snemma á næsta ári, þannig að nokkru fastara ætti að verða undir fæti í þessum málum varðandi flóabátasamgöngur Faxaflóa þegar á næsta ári. Eru sem sagt líkur til þess, að þá hafi verið tekin ákvörðun um byggingu eða kaup á nýju og hentugu skipi til þessara ferða. H/f Skallagrímur fékk samkvæmt till. samvinnun. á þessu ári 200 þús. kr. rekstrarstyrk, en fór á siðasta þingi, þegar þessi mál voru undirbúin, fram á miklu hærri styrk. Nú hefur stjórn félagsins farið fram á 360 þús. kr. rekstrarstyrk og leitt rök að því, að ókleift sé að halda þessum ferðum uppi með minna en 30 þús. kr. rekstrarstyrk á mánuði. Samvinnun. taldi sér ekki fært að ganga svo langt og leggur til, að veitt sé sama upphæð og á þessu ári sem rekstrarstyrkur til h/f Skallagríms til þess að halda uppi Faxaflóasamgöngum, eða 200 þús. kr. Hins vegar taldi n. ekki unnt að sniðganga með öllu óskir fyrirtækisins um einhvern frekari stuðning, á meðan á þessu millibilsástandi stendur, að það hefur ekki fengið nýtt og hentugt skip til ferðanna. Hefur hún því lagt til í samráði við þm. Borgf. og Mýr. og hv. fjvn., að ríkisstj. verði heimilað að veita h/f Skallagrími allt að 100 þús. kr. viðbótarstyrk, ef brýna nauðsyn beri til þess, til þess að þessum samgöngum verði haldið uppi. Samvinnun. skrifaði fjvn. um þetta, og hefur hv. n. flutt brtt. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að verja þessari upphæð, ef brýna nauðsyn beri til, til þess að Faxaflóasamgöngum verði haldið uppi. En það er von n., eins og ég sagði áðan, að með nýju og hentugu skipi eigi þessar samgöngur að komast í betra horf, og sitt fyrra horf, því að það er vitað, að um langt skeið voru þessar flóabátaferðir reknar án ríkisstyrks.

Ég hygg þá, að ég hafi gert grein fyrir till. samvinnun. í aðalatriðum og gefið nokkrar upplýsingar um, hvernig þessum samgöngum er háttað í einstökum landshlutum.

Samkvæmt till. n. áætlar hún styrk til flóabátaferða og vöruflutninga á næsta ári samtals 1607500 kr. Er það 3500 hærra en gert er ráð fyrir á fjárl. þessa árs. Um það þarf ekki að fara í neinar grafgötur, hvernig standi á aukinni styrkþörf til flóabátanna. Rekstrarkostnaður þeirra hefur farið vaxandi ár frá ári eins og annarra skipa í landinu. Hef ég gert grein fyrir því í framsögu fyrir áliti hv. nefndar á undanförnum árum og tel því ekki þörf á að endurtaka það hér nú.

Ég vil svo leyfa mér, um leið og ég lýk framsögu fyrir hv. samvn. samgm. varðandi styrk til flóabáta og vöruflutninga, að mimtast lítillega á mál, sem snerta mitt kjördæmi.

Ég vil fyrst leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir að hafa tekið upp heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða 250 þús. kr. án mótframlags til skólabyggingar í Hnífsdal. Ég þakka skilning n. á því einstæða óhappi, sem þetta byggðarlag varð fyrir, þegar skóli þess fauk með börnum og kennurum í ofviðri á s.l. vori. Ég veit ekki enn þá endanlega um, hver byggingarkostnaður hins nýja skóla muni verða, en ríkið hefur brugðizt vel við. Ég endurtek þakkir mínar bæði til hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. fyrir till. þá, sem flutt hefur verið.

Þá vil ég enn fremur þakka n. fyrir það, að hún hefur tekið upp í till. sínar 15 þús. kr. fjárveitingu til bryggju í Reykjanesi, en það fé mun verða notað til þess að bæta skemmdir, sem urðu á því mannvirki.

Að lokum vil ég vísa til fyrri ummæla minna með brtt., sem ég hef flutt ásamt nokkrum hv. þm. um byggingarstyrk til Jóns Björnssonar rithöfundar. Ég skal ekki endurtaka þau rök, sem ég hef flutt fyrir því. Hér á hlut að máli ágætur listamaður, fátækur maður, sem býr í gersamlega óviðunandi húsnæði, bragga, þar sem lekur yfir hann við ritstörf hans, og torveldar það að sjálfsögðu mjög rithöfundarstarf hans. Vænti ég, að hv. þm. sýni skilning nú sem fyrr á þörfum ýmissa fátækra listamanna og samþ. þessa brtt.