16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

1. mál, fjárlög 1954

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég á hér nokkrar till. á þskj. 330, og er fyrsta till., rómv. l. að nokkru leyti endurtekning á till., sem ég flutti hér við 2. umr., en tók þá aftur. Hún var um að hækka framlag til Iæknisbústaða og sjúkrahúsa upp í 2 millj., en þar sem felld var sams konar till. við 2. umr., hef ég nú lækkað þetta og fer fram á, að þessi upphæð verði hækkuð í 1800 þús. í stað 1500 þús. Það er kunnugt mál, að jafnvei þótt þarna væri samþ. 1800 þús., þá er það ekki nema brothluti af því, sem þarf til þessara gjalda, því að svo margir læknisbústaðir og spítalar eru í byggingu, enda var krafan frá viðkomandi ráðuneyti, sem liggur fyrir bréf um, að lágmarkið, sem þyrfti í þetta, væri 3 millj. kr. Ég vil nú mega vænta þess, þó að svo hati farið, sem mér þykir mjög undarlegt, að hv. fjvn. hefur ekki hækkað þessa upphæð meira, að þessi till. fái góð afdrif hér hjá hv. þm. En þar sem ég talaði nokkuð um hana við 2. umr. eða þá þörf, sem hér liggur fyrir, þá sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um hana meir.

Þá er hér till. nr. XVI á sama þskj. um að heimila ríkisstj. að gera við hafnarbryggjuna á Skagaströnd, þannig að henni sé ekki nein hætta búin. Ég hef farið fram á töluvert hærri fjárveitingu til hafnargerðarinnar á Skagaströnd, en fengið þau svör, — og tel þau í sjálfu sér eðlileg, — að þar sem ekki sé búið að leggja fram til byggingarinnar meira en orðið er og ekki nein hærri skuld á, þá sé ekki hægt eftir þeim reglum, sem þar um gilda, að fara öllu hærra með fjárveitinguna en hv. fjvn. hefur gert. En þarna er þannig ástatt, að aðalbryggjan er stórlega skemmd, og munar litlu, að hún fari, og það yrði svo mikið tjón, að það getur ekki verið látið líðast, að svo fari. Nú stendur þannig, eins og mönnum er kunnugt, að á þessum stað hefur verið alger veiðibrestur á undanförnum árum, og þess vegna hefur viðkomandi hafnarnefnd ekki getað greitt afborganir og vexti af þeim lánum, sem til hafnargerðarinnar hafa gengið. Og nú nýlega var formaður hafnarn. hér að leita fyrir sér um lántöku til þess að fá viðgerð á þessari bryggju, en eins og klasi er mjög óeðlilegt, fór svo, að ekki er um nein lán að ræða til þessara hluta, og þess vegna ekki um neitt að ræða hér til viðgerða á þessu mannvirki annað en að ríkissjóður leggi það fram til þess, að hér sé ekki sett meira í voða en orðið er. Fyrir þessu eru fordæmi a.m.k. frá tveim öðrum stöðum á landinu, sem sé á Bakkafirði eystra og í Bolungavík vestra. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því, ef þessi heimildartill. verður samþ., að hæstv. ríkisstj. fari algerlega eftir till. og fyrirsögn vitamálastjóra um þá viðgerð, sem hérna er ómissandi.

Þá á ég hér till. nr. XII á þessu sama þskj. ásamt hv. 4 þm. Reykv., sem er forstjóri Tryggingastofnunarinnar og þekkir vel inn á það mál, sem hér er um að ræða, að hækka á 18. gr. greiðslu til Sigríðar Arnljótsdóttur læknisekkju upp í 7 þús. kr. Þessi kona er orðin 84 ára gömul, algerlega eignalaus og hefur orðið fyrir því mikla óhappi, að sonur hennar, sem hún hafði aðstoð af, hefur misst heilsuna og hún hefur því ekkert við að styðjast. Við flytjum þessa till., ég og hv. 4. þm. Reykv., vegna kunnugleika á högum þessarar gömlu ekkju. Hún var lengi lækniskona í mínu héraði og kunnug þar að öllu góðu, og má geta þess, að hún er dóttir hins gamla þingskörungs, Arnljóts Ólafssonar í Sauðanesi. Hér er farið fram á mjög smávægilega upphæð, og ég vil mega vænta þess, að hv. þm. taki þessari till. vel, enda þótt fjvn. hafi ekki viljað á hana fallast.

Að öðru leyti skal ég ekki fara inn á að ræða um annað, sem hér liggur fyrir, eða fjárlfrv. í heild sinni, en vil mega vænta þess, að hv. þm. taki þessum smávægilegu till., sem hér er um að ræða, með vinsemd.