16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

1. mál, fjárlög 1954

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og í ljós kom við atkvgr. í lok 2. umr. fjárl. hér um daginn, hefur hæstv. ríkisstj. þau tök á þingliði sínu, að það fær ekki að fylgja einni einustu brtt. við fjárlfrv. að undanskildum till. meiri hl. hv. fjvn. Þar sem svo er ástatt, teljum við þm. Þjóðvfl. þýðingarlaust að bera fram margar brtt. nú við 3. umr., þar eð örlög þeirra, hverjar sem þær væru, mega teljast fyrir fram ráðin. Á þskj. 330 eru þó 4 till. frá okkur, eða ein frá okkur sameiginlega og þrjár frá mér.

Hin fyrsta þeirra, V. liður, um allmikið hækkaðan styrk til íþróttasjóðs, var flutt við 2. umr., en þá tekin aftur til 3. umr. Var mælt fyrir henni þá, og skal ég ekki endurtaka það, sem þá var sagt.

Ég hef hér á þessu sama þskj., undir liðnum VIII, leyft mér að flytja 3 till. um lítils háttar aukinn styrk til menningarmála.

Fyrsta till. er um að hækka ríkisframlag til hinnar miklu íslenzku orðabókar, sem nú er unnið að á vegum háskólans, úr 75 þús. kr. í 150 þús. kr. Hér er verið að vinna mjög umfangsmikið og tímafrekt nytjaverk í þágu íslenzkrar menningar. Því minna fé sem til þess er veitt árlega, því fleiri ár dregst það, að þessi mikla orðabók komi út, en hún mun verða veruleg lyftistöng íslenzkum fræðum. Hlýtur það að vera metnaðarmál okkar Íslendinga að eignast sem fyrst góða vísindalega orðabók yfir móðurmálið.

Þá flyt ég till. um nýjan lið, lítils háttar framlag til að hefja undirbúning annars nauðsynjaverks, sem ekki má dragast miklu lengur að hefjast handa um, samningu íslenzkrar alfræða- eða fjölfræðabókar. Fyrir nokkrum árum hófu einstaklingar hér á landi að vinna að útgáfu allstórrar alfræðabókar. Átti hún að fjalla bæði um íslenzk og erlend efni, og ef ég man rétt, átti hún að vera ein 12 bindi. Þetta verk dagaði uppi, enda hefði það orðið mjög dýrt og viðamikið. Mun nú vera alveg hætt við þessa alfræðabók. Ég tel hins vegar, að við Íslendingar höfum sérstaka þörf á alfræðabók eða fjölfræðabók, sem eingöngu væri bundin við íslenzk efni. Hún mundi koma að verulegu gagni, þótt hún væri ekki ákaflega stór. Mundi vel mega una við 3–4 bindi, og virðist eðlilegt, að Háskóli Íslands sæi um framkvæmd slíks verks, en vel mætti hugsa sér, að bókadeild menningarsjóðs yrði aðill, þegar til þess kæmi að gefa verkið út. Till. mín er flutt til þess að vekja athygli hv. þm. á þessu máli, ef verða mætti til þess, að það kæmist a.m.k. á umræðu- og athugunarstig.

Loks flyt ég hér till. um að hækka lítils háttar upphæðina til skálda og listamanna. Sú upphæð hefur staðið óbreytt að krónutölu hin síðustu ár, að ég held, þrátt fyrir stórminnkað verðgildi peninga. Jafnframt legg ég til, að einum ágætasta og sérstæðasta listamanni þjóðarinnar, Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara, verði veitt af þessari fjárhæð sérstök heiðurslaun. Ásmundur Sveinsson varð sextugur á þessu ári, en er þó enn, þrátt fyrir mjög erfið ævikjör og óhemjustrit, í fullu fjöri. Hann er frjór og skapandi listamaður, miklum hæfileikum gæddur, en hefur aldrei notið þeirrar aðstöðu, sem hann á skilið. Það er vitað og viðurkennt, að myndhöggvarar eiga öllu erfiðara uppdráttar en flestir listamenn aðrir, einkum í litlu og fátæku landi, sem hefur takmarkaða getu til myndakaupa og ef til vill enn takmarkaðri skilning á gildi höggmynda. Ásmundur Sveinsson hefur fyrir löngu til þess unnið, að honum sé veitt full viðurkenning og aðstaða hans bætt. Hann hefur þegar borið hróður íslenzkrar listar vítt á erlendum vettvangi og mundi þó enn betur gera, ef hagur hans batnaði nokkuð.