16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frsm. fjvn., hv. 2. þm. Eyf., hefur gert grein fyrir nálega öllum till., sem fram hafa komið frá fjvn. síðan 2. umr. lauk, og hef ég litið við það að athuga.

Ég vil taka undir það, sem hann sagði um 18. gr., að hún er orðin mesta vandræðafyrirbæri, og það er síður en svo, að ég telji, að þær till., sem koma nú fyrir þingið um nýja liði á 18. gr., séu ekki sama marki brenndar og aðrir liðir, að það er hið megnasta ósamræmi milli fjárveitinga til einstaklinga alveg eins og áður á greininni, enda er miðað við það ósamræmi, sem fyrir er milli manna. Eru till. þannig engu nær því að komast nærri nokkru réttlæti um fjárveitingar á 18. gr., heldur erum við heldur fjær, eftir því sem meira bætist við á greinina. Það er líka orðið augljóst öllum, að allar hinar lægri upphæðir, sem eru sjálfsagt upp undir 4/5 að tölu af fjárveitingum á gr., eru í raun og veru ekkert nema að sýnast. Þær koma alls ekki til útborgunar til fólksins að neinn leyti að því er snertir þá, sem hafa lægri upphæðirnar, því að þessi upphæð dregst frá hjá öllu gömlu fólki, sem er á ellilaunum, dregst frá ellilaunum þess og öðrum tryggingarupphæðum hjá tryggingunum. Það er ekkert annað en blekking, að þetta fólk fái þessar upphæðir í viðbót við sínar tryggingar. Það stendur á 18. gr., að margt af þessu fólki fái þar þessa upphæð, sem er dregin frá við greiðslu bótanna hjá tryggingunum. Og það er ósæmilegt að vera að gefa þetta út sem skjal frá Alþ. frá ári til árs og manna sig aldrei upp í það að hreinsa til.

Fyrir fjvn. lá erindi frá fræðslumálastjóra um að verja nokkurri upphæð til þess að fá hæfan mann til að leiðbeina í skólum um notkun bóka og bókasafna og til erindaflutnings í skólum landsins undir yfirstjórn fræðslumálastjóra. Þetta erindi hefur ekki fengið samþykki n., en sem skólamaður er ég alveg sannfærður um, að þarna væri um nauðsynlegt starf að ræða, sem gæti orðið til mikils gagns í þágu alþýðumenntunar í viðbót við hið venjulega lexíubundna skólanám. Ég hef sjálfur tekið það upp við minn skóla sem námsgrein að láta einn kennara skólans leiðbeina nemendunum um notkun bóka og bókasafns, af því að við erum svo heppin, að bókasafn Ísafjarðarkaupstaðar er í næsta húsi við skólann, og ég er alveg sannfærður um, að þetta hefur opnað nýjan heim fyrir nemendunum og orðið þeim kannske að eins miklu gagni um bókfræði og allt annað nám nemendanna í skólanum. Ég veit líka, að það hefði mikla þýðingu í skólunum úti um landið, að þangað kæmi á vegum fræðslumálastjórnarinnar við og við valinn fyrirlesari til þess að flytja fræðandi, örvandi og hvetjandi erindi, og það væri ekki miklu til kostað úr ríkissjóði, þó að til dæmis 15 þús. kr. eða svo væri varið til þessarar starfsemi. Ég harma það, að meiri hl. fjvn. skyldi ekki geta fallizt á þetta erindi frá fræðslumálastjóra, og tel sjálfsagt, að það sé lagt undir dóm hv. alþm., hvort þeir mundu ekki vilja láta gera slíka tilraun um þessa starfsemi. Ég veit, að margir, sem langar til þess að fara hér upp í landsbókasafn og fá þar fræðslu úr bókum, sem þar eru til, hlífast við því, af því að þeir vita bókstaflega ekkert, hvernig þeir eigi að snúa sér í bókasafni, og hafa enga þekkingu á því að afla sér þeirra gagna í söfnum, sem þeir þurfa til þess að fá þá vitneskju, sem þeir leita eftir.

En úr því að ég minnist hér á skóla, þykir mér sem ég geti ekki hjá því komizt að minna á það, að hæstv. forsrh. kom hér í ræðustól í gærkvöld, eftir að seinasti fulltrúi Alþfl. hafði lokið máli sínu og Alþfl. átti þannig engan kost þess að leggja neitt til mála eftir það, en þá leyfði hæstv. forsrh. sér að fræða þjóðina á því í útvarpi, að ég mundi hafa lagt til, að niður væri felldur liður, sem hann kallaði nú skólaeftirlitið, sem ekki er til. Það er nú bara smávegis ónákvæmni. En liður er núna tekinn upp og mun eiga að vera nýtt embætti, sem heitir fjármálaeftirlit skólanna, og ég hafði lagt til, að það yrði fellt niður. Hæstv. forsrh. sagði þjóðinni, að þetta mundi ég hafa gert af því, að ég þættist eiga mér í að hefna gagnvart þessu eftirliti, þar sem ég væri sekur um að hafa dregið mér 30 þús. kr. uppbætur frá ríkinu, að mér skildist með einhvers konar fjárdrætti. Ég skora hér með á hæstv. forsrh. að gera þegar í stað innheimturáðstafanir með lögsókn eða á annan hátt gegn mér út af þeim 30 þús. kr., sem hann segir þjóðinni, að ég hafi tekið úr ríkissjóði í óheimild, en bera æruleysissök ella. Þessa innheimtu krefst ég að ríkisstj. Íslands geri ráðstafanir til að framkvæma þegar í stað, svo framarlega sem ríkisstj. telur, að ég hafi nokkurn eyri dregið mér í sambandi við mitt embætti.