16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

1. mál, fjárlög 1954

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég flutti við 2. umr. fjárlfrv. nokkrar brtt. á þskj. 281. því miður var ég bundinn við önnur störf, þegar seinni hl. 2. umr. fór fram. Var ég því ekki á þingfundi og gat þess vegna ekki mælt fyrir þessum till. Þær voru, eins og allar till. stjórnarandstæðinga, felldar við atkvgr. við 2. umr. málsins, og geri ég ráð fyrir, að mín meðmæli með till. hefðu ekki getað neinn breytt um þá ákvörðun stjórnarflokkanna og fjarvera hafi þess vegna ekki komið að sök.

Eina af þessum till. mínum tók ég aftur, en það var till. um að hækka styrk til íþróttasjóðs úr 600 þús. kr. upp í 1 millj. kr., og hef ég leyft mér að flytja hana aftur nú við þessa 3. umr.

Ein af till. mínum mun þó hafa haft góð áhrif, því að bv. fjvn. hefur tekið hana upp í sínar till. nú við 3. umr., en það var till. mín um hækkun á styrk til Skáksambands Íslands úr 10 þús. kr. upp í 25 þús. kr. Hv. fjvn. hefur að vísu ekki lagt til, að styrkurinn yrði hækkaður upp í þá tölu, sem ég lagði til, því að það er óheimilt að bera fram till. um þá upphæð, sem felld hefur verið, en lagt til, að styrkurinn verði hækkaður upp í 20 þús. kr., eða tvöfaldaður. Fagna ég mjög þeirri afstöðu hv. fjvn. Hæstv. forseti boðaði það raunar við atkvgr., að von mundi vera einhverra sinnaskipta hjá hv. fjvn. í afstöðu sinni til skákíþróttarinnar, og þykir mér vænt um, að þau orð hans skuli hafa reynzt sönn og að þessi sinnaskipti skuli hafa birzt í till. hv. fjvn.

Ég flutti einnig nokkrar aðrar till. Flestar þeirra tel ég þýðingarlaust að endurnýja, þótt í lækkaðri mynd væri, en vil þó ekki gefast upp við þrjár af þessum till.

Það er í fyrsta lagi till. mín um hækkaðan styrk til íslenzkra námsmanna erlendis. Ég hafði lagt til, að fjárhæðin, sem þeim er ætluð, yrði hækkuð um 200 þús. kr. Ég vil enn freista þess við þessa umr. að fá styrk til þeirra hækkaðan nokkuð og flyt till. um að hækka hann um 100 þús. kr., upp í 975 þús. kr.

Ég hafði einnig flutt till. um að hækka laun skálda, rithöfunda og listamanna um 200 þús. kr. og að 100 þús. kr. af þessu fé skuli varið til þess að verðlauna þrjú rit, sem út komu á árinu eftir íslenzka höfunda. Ég vil enn freista þess að fá laun skálda, rithöfunda og listamanna hækkuð nokkuð og halda fast við þá till., að úthlutunarnefndin skuli verja nokkru fé til þess að verðlauna rit íslenzkra höfunda, og hef því flutt till. um, að skáldalaunin skuli vera 775 þús. kr. ag 75 þús. kr. þar af til þess að verðlauna rit íslenzkra höfunda.

Ég hafði enn fremur flutt till. um að verja 300 þús. kr. til þess að skreyta opinberar byggingar með listaverkum. Ég hygg, að eitt hið bezta, sem væri hægt að gera til þess að kynna almenningi list myndlistarmanna okkar og jafnframt til þess að skapa þeim bætt starfsskilyrði, væri að ráða slíka menn til þess að skreyta opinberar byggingar með verkum sínum. Með því væru slegnar tvær flugur í einu höggi. Verk listamannanna væru á þeim stöðum, sem líklegast er að almenningur kynnist þeim bezt, þar sem almenningur kemur oft og ætti stöðugt kost á að hafa þau fyrir augum, og jafnframt er það heilbrigður stuðningur við skapandi listamenn með þjóðinni að fá þeim verkefni í stað þess eða jafnframt því, sem þeim eru veitt laun, og ég efast ekki um, að einmitt þessi braut væri listamönnunum sjálfum mjög kærkomin, að þeim væru fengin verkefni þannig, að listaverk þeirra væru ekki grafin niður, heldur höfð til sýnis almenningi.

Ég vil því freista þess að flytja enn till. um þetta, um helmingi lægri upphæð en ég flutti, og þóttist þó vera hógvær. Ég hafði lagt til, að til þessa yrði varið 300 þús. kr., en vil nú enn leggja til, að til þessa verði varið 150 þús. kr., og treysti því, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þessa till., þar sem fjárhæðin er þó ekki meiri en þetta. Ég geri mér ljóst, að fyrir þetta fé væri ekki hægt að vinna nein stórvirki. Tilgangur minn með þessu er aðeins sá að fá hugmyndina viðurkennda, að það væri rétt og skynsamlegt að verja nokkru fé til þess að skreyta opinberar byggingar listaverkum, og ef slíkur liður á annað barð kæmist inn á fjárl., þá væri þó einhver von um, að fjárhæðin fengist aukin síðar.