16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

1. mál, fjárlög 1954

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt tveim hv. þm. brtt. á þskj. 330, undir XIV. lið. Þetta er breyting við 22. gr. lX. og er nýr liður, að greiða Skógræktarfélagi Íslands allt að 50 þús. kr. vegna væntanlegrar heimsóknar nokkurra skógræktarmanna til Íslands. Mér þykir rétt að láta fylgja þessari brtt. nokkur orð.

Á árunum 1949 og 1952 áttu sér stað gagnkvæmar skógræktarferðir Norðmanna og Íslendinga. Kom hópur Norðmanna hingað til að kenna Íslendingum skógrækt, og um leið fór hópur manna héðan til Noregs, til að læra til skógræktar. Ekki verður dregið í efa, að slíkar ferðir sem hér um ræðir eru þýðingarmiklar fyrir skógræktarstarfið hér á landi og einnig til að auka kynni meðal þessara frænd- og vinaþjóða. Fólkið, sem fær kost á að fara héðan í ferðir þessar, er valið frá héraðsskógræktarfélögunum með sérstöku tilliti til þess, að það geti síðar unnið skógræktinni gagn í félögum sínum. Það fær ljósan skilning á nytsemi skógræktarinnar, þar sem hún er orðin öflug, og getur gert sér fulla grein fyrir því, hve nauðsynleg hún er hér á landi. Auk þess er margháttað gagn af því, að kynni eflist milli þessara frændþjóða.

Um kostnað af þessum ferðum er það að segja, að þátttakendur greiða fargjöld sín sjálfir, og gert er ráð fyrir, að þeir vinni fyrir uppihaldi sínu, meðan á dvölinni stendur, við skógræktarstörf, en þrátt fyrir þetta verður ekki hjá því komizt, að móttakendur verða að bera nokkurn kostnað af gestum sínum, t.d. vegna ferðalaga og risnu, en skógræktarfélögin hafa í mörg horn að líta og nóg að gera með fé sitt og því ekki óeðlilegt, þótt Skógræktarfélag Íslands fari nú fram á styrk til að geta tekið á móti hópi Norðmanna undir forustu fyrrverandi formanns norska skógræktarfélagsins, Niels Engstedt, bónda á Sunnmæri, sem hingað vill koma á næsta sumri. Þess má geta í þessu sambandi, að Níels Engstedt kom hingað 1951 og hefur siðan verið einn bezti kynnir fyrir Ísland með þjóð sinni, ferðazt um landið á vegum ungmennafélaganna og annarra til að kynna Ísland og íslenzka menningu. Við flm. þessarar till. lítum svo á, að vel færi á, að hv. Alþingi veitti Skógræktarfélagi Íslands þann styrk, sem þarna er farið fram á.