06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil á engan hátt bera brigður á, að rétt sé frá skýrt af hæstv. fjmrh. um ástandið á þeim stöðum, sem frv. fjallar um, og nauðsyn þess að gera þær ráðstafanir, sem í frv. greinir, til þess að afstýra því, að atvinnutæki séu flutt burt úr þessum bæjum. En þar sem hæstv. ráðh. drap á réttilega, að í fjárlögum yfirstandandi árs væri sérstök heimild í þessu skyni og fjárupphæð tiltekin, þá hefði mér þótt viðkunnanlegra, að hann hefði gert grein fyrir því, hvernig sú heimild hefur verið notuð og hvers vegna ekki var hægt að láta nægja að fella þessa staði inn undir heimild fjárlaganna. Frá því greindi hann ekki. Ég vil þó ekki bera brigður á, að full nauðsyn hafi verið fyrir hendi til þessara aðgerða, en vænti þess, að hæstv. ráðh. láti þinginu í té skýrslu um, hvernig heimildin í fjárl., sem hann drap á, hefur verið notuð. En í þessu sambandi vildi ég mega vekja athygli hæstv. fjmrh. á því, að auglýstir hafa verið til sölu samkv. kröfu stofnlánadeildar a.m.k. tveir, ef ekki fleiri stórir vélbátar á Ísafirði. Jafnframt vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. geti ekki gert einhverjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það, að þessi nauðsynlegu skip verði seld burt úr bænum. Enginn vafi er á því, að það eru alveg jafnríkar ástæður fyrir hendi til þess að koma í veg fyrir, að vélbátar séu fluttir burt eins og togarar, þar sem atvinnulífið byggist, t.d. á Ísafirði, a.m.k. að jafnmiklu leyti á vélbátunum eins og á þeim togurum, sem þar eru staðsettir. Ég vænti, að svo opin augu sem ríkisstj. hefur haft fyrir nauðsyn og þörf Siglufjarðar og Seyðisfjarðar í þessu efni, þá megi einnig vænta þess, að henni sé ljóst, hver nauðsyn er fyrir hendi á Ísafirði í sambandi við þetta mál.

Ég sé, að hv. þm. Ísaf. hefur flutt á þskj. 31 till. til þál. um heimild til ríkisábyrgðar allt að 5 millj. kr. til þess að byggja dráttarbraut á Ísafirði. Það er vissulega nauðsynjamál og án efa mikið hagsmuna- og áhugamál bæjarbúa allra, að það nái fram að ganga. En lítið samræmi finnst mér í því og lítil skynsemi, ef það er látið reka á reiðanum af hæstv. ríkisstj., hvort þau atvinnutæki, sem nú eru í bænum, eru seld burt, því að hætt er við; að slík dráttarbraut sem þessi fengi lítið að gera, ef bátaútvegurinn á Ísafirði legðist að miklu eða öllu leyti niður.

Ég hef leyft mér að vekja athygli hæstv. ráðh. á þessu máli og þeim vanda, sem Ísfirðingar eiga nú við að stríða í þessu efni, í von um, að skilningur hæstv. ríkisstj. á nauðsyn þessa staðar sé engu minni en skilningur hennar á nauðsyn þeirra bæjarfélaga, sem frv. fjallar um.