05.11.1953
Efri deild: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

87. mál, löggiltir endurskoðendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram hefur verið undirbúið í atvmrn., sem fer með þessi mál, en með nokkru samstarfi við félagsskap löggiltra endurskoðenda. Hingað til hafa gilt lög frá 1926 um löggilta endurskoðendur og starf þeirra. Eins og vitað er, hefur mikið breytzt í íslenzku þjóðlífi á þessum árum og því eðlilegt, að löggjöfin um þetta efni sé nú tekin til endurskoðunar.

Aðalefni frv. er að tryggja betur en áður, að þeir menn, sem þennan titil fá, hafi fullkomna menntun og hæfileika til starfans, og geri ég ráð fyrir, að það verði út af fyrir sig ekki mikill ágreiningur um þá meginstefnu frv. eða það atriði. En ég vil vekja athygli á því, að með þessu er mjög þrengdur réttur ráðherra til þess að veita þeim, er hann telur hæfa til þess að vera löggiltir endurskoðendur, þann titil. Þetta hefur á undanförnum árum verið gert á nokkrum stöðum úti um land, t.d. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og Akureyri, að menn, sem ekki höfðu staðizt hin tilskildu próf, fengju slíka viðurkenningu, vegna þess að talið var þörf á, að góðir og áreiðanlegir menn væru þar til staðar, sem hægt væri að taka trúanlega sem endurskoðendur, og þeim því fengin þessi viðurkenning. Hinir lærðu löggiltu endurskoðendur telja, að þetta sé mjög miður farið, og játa verður, að til frambúðar er þessi skipun ekki góð. Það er ekki hollt, að ráðherra hafi þetta svo í hendi sér, án þess að hann þurfi að taka tillit til ákveðinna þekkingarskilyrða, eins og ákveðið er í þessu frv. Hins vegar er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því í frv., að þeir menn, sem nú þegar eru búnir að fá löggildingu, haldi henni, þannig að réttur er ekki tekinn af neinum manni. Segja mætti að vísu, að fresta hefði átt því að setja þessi strangari ákvæði, þangað til endurskoðendur með hina ákveðnu menntun væru búnir að setjast að t.d. á stöðum eins og Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum, en það þótti þó ekki ástæða til þess að gera þá kröfu, vegna þess að menn geta kallað sig endurskoðendur, þótt þeir fái ekki þessa löggildingu, og starfað að endurskoðun þrátt fyrir það. Hins vegar, ef mikið liggur við, þá er auðvelt að ná í löggiltan endurskoðanda til staðarins og láta hann þá þar annast þær sérstöku rannsóknir, sem á þarf að halda, auk þess sem á það er að líta, að þessi stétt er nú orðin svo fjölmenn, að gera má ráð fyrir, að bráðlega setjist einstakir fulltrúar hennar að á hinum fjölmennari stöðum utan Rvíkur, svo að þetta komi ekki heldur að sök að því leyti.

Þetta atriði, sem ég hef nú rætt um, er í raun og veru mesta vafaatriðið í sambandi við þetta frv., en það er að mjög vel athuguðu máli, sem ráðuneytið hefur fallizt á þessa breytingu og leggur hana nú til. Að öðru leyti vonast ég til þess, að frv. þurfi ekki að sæta miklum ágreiningi. Það hefur verið haft samráð við mjög hæfan lögfræðing um samningu þess, auk þess sem stéttarfélag þessara manna hefur um það fjallað. Ég vil vænta þess, að frv. fari til 2. umr., og legg til, að því verði vísað til hv. allshn.