06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af orðum hv. þm. vil ég taka fram, að ég hef ekki hér hjá mér lista yfir það, hvaða togaraútgerðir fengu ábyrgð samkv. heimildinni í fjárl. og hve mikið hver. En ég get upplýst það, að þegar hv. fjvn. gerði það að sinni till., eftir uppástungu ríkisstj. í fyrra, að þessi heimild yrði veitt í fjárl., þá lágu fyrir upplýsingar um það, hverjir hefðu þörf fyrir slíka aðstoð, og eins konar áætlun um það, hvernig heimildin yrði notuð. Það var sem sé gert ráð fyrir því, að hún gæti skipzt nokkuð jafnt á milli þeirra, sem hlut áttu að máli. Og ég get lýst því yfir, að framkvæmdin á heimildinni var höfð í samræmi við það, sem fyrirhugað var í fjvn. En það kom sem sagt í ljós, að það, sem þar var áætlað, dugði hvergi nærri Siglufjarðarútgerðinni og ekki heldur Seyðisfjarðarútgerðinni, en öðrum útgerðum, sem áttu að fá aðstoð, dugði þetta til þess, að þær hafa haldið skipunum fram að þessu.

Varðandi vélbátana er það að segja, að vitaskuld er ekki hægt að ganga inn á það sem algilda reglu, að stj. sé skylt að koma í veg fyrir eigandaskipti á vélbátum eða að vélbátar flytjist eða togarar úr einum stað í annan. Mér er vel kunnugt, að það hefur staðið til að ganga að nokkrum vélbátaeigendum á Ísafirði. Mér er það vel kunnugt vegna þess, að stj. hefur einmitt nú um alllangantíma komið í veg fyrir, að þetta yrði gert, af því að stj. leit svo á, að það væri nokkur ábyrgðarhluti að láta slík eigendaskipti og brottflutning á bátum fara fram eins og ástatt hefur verið á Ísafirði.

Ég mun ekki gefa hér neina yfirlýsingu um þetta mál, en það mun verða tekið til athugunar, hvort stj. hefur frekari afskipti af því en enn er orðið eða ekki. Fram að þessu hafa afskiptin verið þau, að komið hefur verið í veg fyrir, að uppboðið færi fram, og það hefur verið hægt að gera það með því að semja um fresti. En auðvitað er ekki endalaust hægt fyrir stofnlánadeildina að fresta innheimtu sinni, eins og gefur að skilja. Það er ekki hægt að nota þá aðferð nema takmarkaðan tíma, því að innheimta hennar verður að ganga sinn gang.