16.02.1954
Efri deild: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

105. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 179, um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1951, er komið frá Nd., eftir að hafa fengið þar athugasemdalausa afgreiðslu. Við, sem eigum sæti í fjhn. Ed., höfum athugað frv., og sem frsm. n. bar ég það saman við ríkisreikninginn 1951, sem útbýtt hefur verið til þm., og fann ekkert tölulega við frv. að athuga.

Reikningnum fylgja aths. frá yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna, svör frá hlutaðeigandi ráðuneytum, undirrituð af fjmrh., og ályktanir yfirskoðunarmanna að fengnum þeim svörum, svo sem venja hefur verið. N. athugaði þessa fylgifiska reikningsins, en vitanlega gat hún ekki rannsakað það, sem að baki athugasemdunum já, enda virtist varla ástæða til þess. Aths. voru ekki þannig vaxnar, en n. þótti hlýða að taka fram það, sem í nál. stendur, að hún líti á það sem skyldu yfirskoðunarmannanna sjálfra að fylgjast með því frá ári til árs, að athugasemdir þeirra séu teknar til greina, en ekki að engu hafðar eins og marklaust tal, og enn fremur, að hún telji yfirskoðunarmönnum skylt, ef þeir vísa aths. til aðgerða Alþingis, að láta þá rökstuddar till. fylgja um þær aðgerðir, sem þeir telja við eiga af þingsins hálfu. Einkum litum við nm. svo á, að þetta væri tvímælalaust þegar yfirskoðunarmenn eiga sæti á Alþingi, eins og nú er um tvo þeirra. Annar yfirskoðunarmaðurinn, hv. þm. A-Húnv. (JPálm), hefur gefið út nál. um frv. sem fjárhagsnefndarmaður í Nd. og lagt til, að það sé samþykkt óbreytt, og með því sýnt, að hann telur enga athugasemd sína til fyrirstöðu á samþykkt frv.

Þá taldi n. einnig við eiga að leggja til í nál., að tekin verði upp sú regla, að fjmrh. láti grg. fylgja hverjum ríkisreikningi framvegis um það, á hvern hátt hafi verið snúizt við þeim aths. yfirskoðunarmanna frá árinu áður, er snerta reikninginn. Með þeirri reglu fær Alþ. aðstöðu eftirleiðis til þess að fylgjast með þessum athugasemdamálum til enda og getur gripið inn í, ef þurfa þykir. Treystir n. því, að ráðh. taki regluna upp, og enn fremur því, að yfirskoðunarmennirnir telji bendingar n. réttmætar og taki þær til greina fyrir sitt leyti, og í því trausti leggja nm. fjhn. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur hér fyrir.