26.10.1953
Efri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. deildarinnar varð sammála um að mæla með því, að frv. þetta verði samþykkt. En ég tel rétt að geta þess, að í sambandi við umr. í n. um frv., sem er stjfrv. og til staðfestingar á brbl., kom það fram, að a.m.k. sumir nm. líta svo á, að varhugavert sé fyrir Alþ. að taka því með ljúfu samþykki, að ríkisstj. geri mikið að því að gefa út brbl., sem skuldbindi ríkið í fjárhagsmálum. Réttur til útgáfu brbl. á að skoðast mjög þröngur. Ef hann er ofnotaður, þá skerðir hann löggjafarvald Alþingis. Sá meiri hl. á Alþ., sem styður ríkisstj., hikar eðlilega við að fella brbl., er sú sama ríkisstj. hefur sett. Oft er líka áhrifatími brbl. liðinn, þegar til kasta Alþ. kemur, svo að staðfestingin er þá aðeins formsatriði. Brbl. eiga því að mínu áliti sem fæst að vera. Mér telst svo til, að á milli þinga að þessu sinni hafi verið gefin út fimm brbl. Þau, sem nú eru til umr., eru mest skuldbindandi fyrir ríkið fjárhagslega af þessum brbl.

Þó er fjhn. sammála um að mæla með staðfestingu laganna, af því að hún lítur svo á, að fulla nauðsyn hafi borið til þess að veita þá ábyrgðaraðstoð, er lögin heimila. Togarar Siglufjarðar höfðu legið við landfestar í þrjá mánuði, eða frá siðasta nýári til marzloka, þegar l. voru gefin út, legið ónotaðir vegna fjárskorts útgerðarinnar, og atvinnuleysi í bænum blasti við. Með því að ríkið gekk í ábyrgð þessa fyrir samtals 2,9 millj. kr. lánum, þá komust togararnir á veiðar, og þeir hafa gengið til veiða síðan eftir því, sem gefið hefur. Með þessu var að vísu gert meira fyrir Siglufjörð en aðra staði, en Siglufjörður hefur líka sérstöðu, vegna þess að höfuðatvinnuvegur hans, atvinnuvegurinn, sem hann er einmitt byggður upp fyrir, síldveiðarnar, hefur brugðizt að mestu árum saman. Um það var að ræða, hvort hjálpa ætti bænum til þess að njóta atvinnubóta af útgerð togaranna eða selja þá burt. Ríkisstj. valdi heldur þann kostinn að veita ábyrgðina, og verður henni varla láð það. Mun það og hafa verið í samræmi við tillögur ráðgefandi nefndar, sem ríkisstj. hafði á s.l. vetri haft á vegum sínum til athugunar á úrræðum í skuldamálum togara. En jafnframt því, að ríkisstj. tók á ríkið umrædda ábyrgð, þá setti hún sem skilyrði, að Siglufjarðarbær fengi stjórn síldarverksmiðja ríkisins til þess að láta framkvæmdastjóra sinn, Sigurð Jónsson, stjórna útgerð togaranna. Var þetta skilyrði að sjálfsögðu sett til aðhalds og öryggis, af því að framkvæmdastjórinn nýtur mikils trausts og úlgerðin hefur gengið mjög illa hjá bænum.

Við 1. umr. þessa máls hér í hv. d: kom fram gagnrýni í þá átt, að með því að síldarverksmiðjurnar hefðu tekið að sér stjórn útgerðarinnar, væri reksturinn og áhætta hans í raun og veru færð yfir á ríkið. Þetta er rangur skilningur. Vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 1. gr. samnings þess, er gerður var 31. marz s.l. milli bæjarstjórnar Siglufjarðar annars vegar og stjórnar síldarverksmiðja ríkisins hins vegar. Greinin hljóðar þannig:

„Bæjarstjórn Siglufjarðar veitir stjórn síldarverksmiðja ríkisins hér með óafturkallanlegt umboð til þess að annast alla útgerðarstjórn og rekstur togaraútgerðarinnar frá 31. marz 1953 til jafnlengdar næsta ár á ábyrgð og fyrir reikning bæjarsjóðs Siglufjarðar. Eftir þann tíma getur bæjarstjórn Siglufjarðar eða útgerðarstjórnin sagt upp samningnum með sex mánaða fyrirvara.“

Samkv. þessari gr. samningsins liggur það ljóst fyrir, að togararnir eru eftir sem áður reknir fyrir reikning og á ábyrgð bæjarsjóðs Siglufjarðar.

Ábyrgðin fyrir h/f Bjólf á Seyðisfirði, sem leitað er heimildar til einnig í frv., að upphæð 350 þús. kr., er svo miklu lægri, að hún hverfur bak við hina. En þar er um hið sama að ræða, þ.e. að hjálpa févana smábæ til þess að halda í atvinnutæki og láta það vera starfandi.

Allir fjhn.- menn mæla með því, að frv. verði samþ., en einn hv. nm., hv. 4. þm. Reykv., áskildi sér þó, eins og kemur fram í nál., rétt til að flytja brtt. Nú hef ég ekki orðið var við brtt. af hans hendi, og þess vegna get ég ekki á þær minnzt, en mér skildist þó, að ef þær kæmu fram, þá mundu þær frekar verða sem viðauki heldur en sem röskun á efni frv. eins og það hefur verið lagt fyrir.