12.02.1954
Neðri deild: 46. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið hér í d. frv. ríkisstj. um skipun sérstaks lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. um sama efni, sem undirrituð voru af forseta Íslands 19. jan. s.l. og birt í Stjórnartíðindum. Í aths. við frv. eru færðar til ástæður fyrir útgáfu laganna, en ég tel þó rétt að bæta nokkrum orðum við þær.

Utanrrn. var með forsetaúrskurði frá 11. sept. 1953 falin framkvæmd allra þeirra mála, sem af varnarsamningnum leiddi. Við það færðust ýmis störf, sem áður féllu undir önnur ráðuneyti, yfir á utanrrn., en vegna þeirra mála hefur orðið að stofna sérstaka deild, varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins. Meðal þeirra starfa, sem áður höfðu heyrt undir önnur ráðuneyti, tók utanrrn. nú að sér að hafa á hendi yfirstjórn dóms- og lögreglumála á Keflavíkurflugvelli, þ. á m. ákæruvaldið, útgáfu dvalarleyfa o.fl., er áður höfðu tilheyrt dóms- og kirkjumrh. Var öll afgreiðsla þessara mála komin í hendur utanrrn. um s.l. áramót.

Eins og kunnugt er, hefur flugvallarsvæðið í Keflavík verið í umdæmi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetans í Hafnarfirði. Hefur hann undanfarin ár haft fastan fulltrúa á flugvellinum, sem gegndi þar lög- og tollgæzlu auk dómarastarfa. Í seinni tíð hafa störfin þó reynzt svo umfangsmikil, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði taldi þessi störf ofviða embættinu og óskaði eftir breytingu á skipan þessara mála.

Af framangreindu er ljóst, að nauðsynlegt var að fela mál þessi án tafar sérstökum lögreglustjóra, er heyrði að öllu leyti undir utanrrn. og bæri embættisábyrgð gagnvart því. Þar sem fundum Alþingis hafði verið frestað upp úr miðjum desember og til 5. þ.m., bar brýna nauðsyn til þess að skipa málum þessum með bráðabirgðalögum eins og ég gat um í upphafi.

Ég tel ekki þörf á að reifa málið frekar að sinni, en leyfi mér að fara fram á, að því verði vísað til allshn.