16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst með fáum orðum svara hv. 3. landsk. (HV) út af smáatriði, sem hann gat um í ræðu sinni s.l. föstudag. Hann sem sé bar fram skilaboð til deildarinnar frá sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetanum í Hafnarfirði, þess efnis, að það hefði ekki verið með hans vilja, að settur var lögreglustjóri í Keflavík, og skil ég því skilaboðin þannig, að hann sé setningunni mótfallinn. Það hefur þá orðið einkennilegur misskilningur á milli okkar, bæjarfógetans og mín, því að ég get aðeins minnt á það, að bæjarfógetinn gerði sér sérstaka ferð til mín til þess að lýsa áhyggjum sínum yfir því, hversu störfin hlæðust upp á vellinum og ráðstafanir yrði að gera til úrbóta. Það var ekki þannig, að hann væri að fara fram á að fá aukinn mannafla til sín, því að þá hefði hann átt að snúa sér til dómsmrn., en ég gat ekki skilið hann öðruvísi en þannig, að hann óskaði eftir einhverri skipulagsbreytingu. Þessu til sönnunar vil ég geta þess, að í allan vetur hefur bæjarfógetinn í Hafnarfirði skorazt undan að framkvæma leyfisveitingar á vellinum. Það hafa bæði verið veitingaleyfi, verzlunarleyfi o.fl., sem mælt hefur verið með frá rn., og hann hefur fært fyrir því þá afsökun, að innan skamms mundi verða breyting á þessum málum, það mundi verða settur lögreglustjóri á völlinn. Ég verð því að segja, að ég skil ekki almennilega skilaboðin, sem hv. 3. landsk. flutti hér. Ég álít þetta ekkert stórmál. Það hefur orðið einhver misskilningur um þetta á milli okkar.

Ég vildi með fáeinum orðum svara hv. 2. þm. Reykv. Eftir því sem mér skilst, þá er hann sérstaklega hneykslaður á 1. gr. frv. og yfir því, að takmörk svæðis lögregluumdæmisins séu óljós. Ég viðurkenni, að þetta er. En hér var ekki um gott að gera. Í verkaskiptaúrskurðinum stendur orðrétt, þar sem talað er um völlinn: „gildir það um varnarsvæðin og takmörk þeirra.“ Mér er ekki kunnugt um nein glögg landamerki þarna suður frá, þannig að hægt sé að vitna í ákveðnar línur, ákveðnar ár eða læki eða glögg náttúrleg takmörk. Var því horfið að því ráði að ákveða umdæmið þannig, að það væri samningssvæðin á Reykjanesi, sem varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951 tekur til og eru eign ríkisins. Ég svaraði hv. 2. þm. Reykv., að hér væri átt við flugvallarsvæðið í fyrsta lagi og í öðru lagi svæði, sem afmarkað hefur verið undir radarstöðina hjá Sandgerði. Ég gat þess líka, að hugsanlegt væri, að svæði í kringum loftskeytastöðina þarna suður frá teldist til umdæmisins, en það mun vera misskilningur hjá mér, vegna þess að ríkissjóður á ekki svæðið enn þá. Ef aftur á móti erlendir menn settust að á þessu svæði og það yrði eign ríkisins eins og hin svæðin, þá mundi það teljast til umdæmisins.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði í þessu sambandi, hvort Hvalfjörður heyrði undir lögreglustjórann. því er fljótsvarað neitandi. (EOI: Er það samningssvæði?) Já, samningssvæði er í Hvalfirði auðvitað, en í frv. stendur samningssvæði á Reykjanesi, svo að það er undanskilið. En ég skal játa, að það hefði vel komið til mála að láta þetta svæði heyra undir lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli, en það væri óheppilegt, af því að það er of langt í burtu. Hv. þm. finnst, að með þessu móti sé verið að kljúfa landið í sundur, eða taka svæði út úr landinu, og spyr, hvort radarstöðvarnar yrðu þá ekki líka nokkurs konar útland. Ég get hugsað mér, þegar radarstöðvarnar rísa upp, að þær verði lokuð svæði. Að vísu er ekki verið að taka þær út úr Íslandi á nokkurn hátt, og þær heyra undir íslenzka löggæzlu eftir sem áður. Lokunin yrði aðeins gerð til þess að takmarka eða hefta samgöngur á milli þeirra manna, sem koma til að búa á þessum svæðum, og Íslendinga. — Hann er líka hneykslaður á því, að lögsagnarumdæmið skuli vera klofið í sundur, en það finnst mér engin ástæða til. Hann þarf ekki að fara langt til þess að finna lögsagnarumdæmi eða hreppa, sem eru klofnir í sundur, eins og t.d. Seltjarnarneshreppur. Við því er ekkert að segja. Hann minntist enn fremur á, að löggæzlan gripi þarna inn á starfssvið hreppsstjóranna, því að það séu nokkrir hreppar á flugvellinum. Þetta er alveg rétt, en síðan fulltrúi bæjarfógetans var settur á völlinn, hefur þetta verið þannig.

Hv. 2. þm. Reykv. finnst það dálítið broslegt, að ég skuli allt í einu vera þarna orðinn bæði dómsmrh., heilbrmrh., póst- og símamálaráðh., fjmrh. o.s.frv., en þetta er byggt á misskilningi. Lögreglustjórinn sér um innheimtu skatta alveg eins og fulltrúi bæjarfógetans í Hafnarfirði hefur gert. Það er ekki nokkur breyting á þessu önnur en sú, að hann er nú ábyrgur gagnvart mínu ráðuneyti, en sín fjármálaafskipti hefur hann auðvitað alveg jafnt eftir sem áður við fjvmrn. Það er engin hætta á því, að ekki verði samstarf við hin ráðuneytin frá hendi varnarmáladeildarinnar. Hinu var strax lýst yfir, sem var borið fram sem stefnuskráratriði Framsfl., að heppilegra væri, að mál Keflavíkurflugvallar væru undir einum hatti eða undir einni stjórn. Þetta hefur nú verið framkvæmt, en engin breyting gerð frá því, sem hugsað var.

Ég held ég hafi þá svarað flestum fyrirspurnum. Hann minntist hér á það, að herinn hefði skipt sér af pólitískum skoðunum manna, og mönnum hefði verið víkið úr starfi af pólitískum ástæðum. Ég lýsi því nú hér yfir, að síðan ég tók við, er mér ekki kunnugt um, að nokkrum manni á Keflavíkurflugvelli hafi verið vikið úr starfi af pólitískum ástæðum. Mér er ekki kunnugt um það. Hitt er mér kunnugt um, að menn, sem höfðu verið látnir fara úr vinnu af pólitískum ástæðum á Keflavíkurflugvelli, hafa verið teknir aftur fyrir tilstilli utanrrn.; því get ég lýst hér yfir. Hinu er ekki að neita, að það hefur verið skipt sér af pólitískum skoðunum manna, sem hafa unnið á vellinum. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem þarna eru, er það ekki að öllu leyti óskiljanlegt, þó að þeim finnist, að þeir geti ekki haft menn með vissar skoðanir á vellinum. Ég þori samt að fullyrða, að á vellinum vinna menn af öllum pólitískum flokkum. Þar eru sósíalistar, Alþýðuflokksmenn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Mér er vel kunnugt um, að ekki hefur verið farið mjög strangt út í þetta. Það getur vel verið, að það hafi verið gerðar einhverjar tilraunir til þess, en þær hafa ekki borið mikinn árangur.

Um framkvæmdir á pólitískum yfirheyrslum yfir íslenzkum sjómönnum vildi ég helzt óska eftir að segja hér ekki neitt nú, vegna þess að ég er ekki undir það búinn. Það hefur heldur engin kæra borizt til rn. út af þessum málum.