19.03.1954
Neðri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held það hefði nú verið sómasamlegra fyrir hv. allshn. að líta ofur lítið í íslenzk lög og reyna þó a.m.k. að færa þessa ómynd, sem komin er frá ríkisstj., í samræmi við íslenzk lög um lögsagnarumdæmi.

Ég benti rækilega á það við 1. umr. þessa máls, að þessi háttur, sem hér væri hafður á, bryti alveg í bága við alla þá venju, sem verið hefur um, hvernig ákveðin eru slík umdæmi eins og hér er verið að ræða um. Lögreglustjórar taka fyrst og fremst að sér vald hreppsstjóra á viðkomandi svæði, og völd hreppsstjóra eða þeirra annarra aðila, sem síðar hafa komið í staðinn fyrir þá, eru landfræðilega séð alveg ákveðið afmörkuð í öllum þeim lögum og reglugerðum, sem sett hafa verið um þessi umdæmi á Íslandi. Það þekkist ekkert umdæmi á Íslandi, þar sem lögsagnarumdæmið er svo að segja fljótandi, getur breytzt frá degi til dags. Og ég álít það ekki sæmandi fyrir Alþingi að setja lög, þar sem maður getur verið undir þessum hreppsstjóra í dag og á morgun af einhverju því, sem gert hefur verið, t.d. því, að ríkið hafi keypt ákveðna eign, verið kominn inn undir annan hreppsstjóra, án þess að þess sé nokkurs staðar getið í lögunum. Hingað til hefur því verið stranglega framfylgt að taka það fram í sambandi við íslenzk lög, hvaða svæði það væri, sem vald eins embættismanns næði yfir. Og ég veit ekki til þess, að það sé til eitt einasta ákvæði í íslenzkum lögum um hreppsstjóra, lögreglustjóra eða slíka embættismenn, sem ekki sé bundið við ákveðið svæði.

Ég álít, að þetta hefði nefndin átt að athuga, hún hefði átt að breyta þessum lögum; þótt hún annars væri samþykk stefnu þessa frv., þá hefði hún átt að breyta þessum lögum þannig, að þau væru í samræmi við íslenzka lagahefð. Það er alltaf tilgreint í íslenzkum lögum, hvaða svæði það séu, sem við er átt, og það er tilgreint með því að ákveða þau landfræðilegu takmörk. Meira að segja þegar þetta hefur verið nokkuð flókið, við skulum segja eins og t.d. þegar lögsagnarumdæmi Rvíkur var stækkað seinast og þegar það lendir svo að segja inn undir öðru lögsagnarumdæmi, þá er það mjög greinilega tekið fram í viðkomandi lögum, sem hér eru samþykkt á Alþingi. Hér aftur á móti liggur málið þannig fyrir, að sjálfur hæstv. utanrrh. skýrir frá því, þegar málið er flutt, að nú muni heyra undir þennan lögreglustjóra Keflavíkurflugvöllur og radarstöðin við Sandgerði, þ.e. tvö svæði, sem bil úr öðru lögsagnarumdæmi er inni í, og enn fremur bjóst hann við, að undir þetta mundi heyra loftskeytastöðin hjá Grindavík, en síðar í umr. gefur hann þó þær upplýsingar, að þetta svæði muni ekki heyra undir lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli, — ekki vegna þess, að ameríski herinn sé ekki farinn að byggja þar stöð og annað slíkt, heldur vegna þess, að svæðið sé ekki enn þá orðið eign ríkisins. Ég benti á það, að ef t.d. nokkrum dögum eftir að þessi l. eru samþykkt eignast ríkið allt í einu þetta svæði, þá væri það þar með komið inn undir þennan lögreglustjóra, án þess að nokkurt orð stæði um það í lögum. Þetta er óþolandi lagasetning, svona hlutir. Það á að taka greinilega fram í lögunum, hvaða umdæmi þetta er. Og svo framarlega sem ríkið síðan kaupir einhver fleiri umdæmi og leggur undir þennan lögreglustjóra, þá þarf að breyta þeim lögum og taka fram í viðbót, að þetta hérna heyri líka undir lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli. Þetta er hrákasmíði, svona frágangur, og við höfum reynsluna af því, hvað það þýðir, þegar svona ómynd er sett í lög hér á Íslandi. Ég vil bara minna menn á, hvernig það var þegar Keflavíkursamningurinn var samþykktur, og var ákveðið á eftir, að það skyldi öðlast lagagildi. Ég benti þá á bæði í fjhn. og við ræddum það hér í þinginu, hvernig það væri, svo framarlega sem þetta væri látið öðlast lagagildi svona. Ég vildi láta taka fram greinilega, hvað það væri viðvíkjandi tollum, hvað það væri viðvíkjandi tekjuskatti, hvað það væri viðvíkjandi útsvörum og öðru slíku, sem amerísku mennirnir, sem þá voru á Keflavíkurflugvelli, áttu að hafa sérréttindi um. Þá fékkst ekkert af þessu gert, ekki nokkur skapaður hlutur. Lagasmíðin var hreinasta hrákasmíði, og afleiðingin varð sú, að öll þessi lög voru brotin í öll þau fimm ár, sem Keflavíkursamningurinn stóð. Það var svikizt um að innheimta tolla af Ameríkönum, sem áttu að borga þá. Það var svikizt um að innheimta útsvör. Það var svikizt um að innheimta stríðsgróðaskatt. Það var svikizt um að innheimta af þeim allt, sem þeir áttu að greiða til íslenzka ríkisins, m.a. vegna þess, að lögin voru skammarlega úr garði gerð.

Nú hefur allshn. haft þetta mál til meðferðar. Í allshn. sitja menn, sem ósköp vel þekkja, hvernig þessari löggjöf er háttað á Íslandi, en það er eins og þeir vilji sem minnst koma nærri þessum lögum. Þeirra nál. er ein lína, þeirra grg. og meðmæli af hálfu frsm. er ein eða tvær setningar. M.ö.o., þeir finna að málið er skítugt, en þeir vilja ekki skíta sig út á því, og þeir halda, að þeir sleppi með því að tala ekki neitt um þetta.

Svona getur ekki gengið að afgreiða lagasetningu. Það er til skammar fyrir þingið, og það mun eiga eftir að sýna sig seinna, að það er engin réttarvernd í landi, sem svona er háttað. Ég vil bara benda mönnum á, hvaða sérréttindi það eru t.d., sem Ameríkanarnir hafa á sínu samningssvæði viðvíkjandi afskiptum amerískrar lögreglu af íslenzkum mönnum, sem þeir hafa ekki utan samningssvæðanna, þannig að ef amerískur lögreglumaður beitir gagnvart Íslendingi utan samningssvæða þeim rétti, sem hann máske hefur sem lögreglumaður, ef hann beitir honum innan samningssvæðanna, þá kemur hann fram sem glæpamaður. Ég vil benda á, að ekkert af samningssvæðunum er afmarkað á Íslandi. Og ég vil benda á, að sjálfri ríkisstj. virðist ekki einn sinni vera ljóst, hvar samningssvæðin séu. Ég hef spurt hér t.d.: Er samningssvæði í Hvalfirði? — Þegar ráðh. svarar: Það er samningssvæði í Hvalfirði, þá hef ég spurt: Hvar er það samningssvæði í Hvalfirði? Er það allur Hvalfjörður? Er það bryggjan, þar sem amerískir hermenn vaða að Íslendingum með byssustingi? Eru það tankarnir, sem sagt er að Olíufélagið eigi, þar sem amerískir hermenn standa á verði? Sem sé, hvar er samningssvæðið, svæði, sem ekki er merkt á nokkurn hátt, þannig að einn Íslendingur veit aldrei, hvenær hann er undirgefinn lögregluvaldi amerísks lögreglumanns eða hvenær hann á bara við óvaldan glæpamann, svo framarlega sem amerískur lögreglumaður veður að honum? Þetta er ekki nokkur réttarvernd. Þetta er ekki nokkur lagasetning.

Ég álít þess vegna, að allshn. hefði átt að sjá sóma sinn í því að taka þessi lög almennilega fyrir og breyta þeim. Hún fylgdist ósköp vel með því, hvernig það gekk hér við 1. umr. þessa máls. Ætla ég þó ekki í því sambandi að fara út í hinn hlutann, sem er hneyksli í sambandi við þessi mál, að fara að taka sérstakan part úr Íslandi út úr, setja öll mál þar, fjármál, heilbrigðismál og annað slíkt, undir sérstakt ráðuneyti, taka það út úr öllum öðrum íslenzkum ráðuneytum, sem þýðir, að það er sérstakur dómsmrh., sem um leið er sérstakur heilbrmrh. og annað slíkt, fyrir Keflavíkurflugvöll, þannig að dómsmrh. yfir Íslandi, heilbrmrh. yfir Íslandi er ekki lengur heilbrmrh. eða dómsmrh. yfir Keflavíkurflugvelli. Ég benti greinilega á, hvert stefnir með slíku. Það stefnir að því, þegar verið er þar að auki að leggja þetta undir utanrrh., að taka þennan hluta af Íslandi smám saman út úr íslenzku yfirráðasvæði, gera þetta að eins konar vettvangi utanríkismála, gera dómsmál, heilbrigðismál, félagsmál, fjármál á þessu sviði að vettvangi svo að segja íslenzkra utanríkismála. Heildarstefnan í þessum lögum er þess vegna jafnröng og sjálf framkvæmdin í hinum einstöku lögfræðilegu atriðum er ómöguleg.

Fyrst hv. allshn. hefur ekki séð sóma sinn í því að ganga sæmilega frá þessu frv., þannig að það væri a.m.k. hægt að ræða um það, að það væri ekki neinn óskapnaður, þá legg ég fyrir mitt leyti til, að þetta frv. sé fellt. Það hefði vafalaust mátt gera ýmislegt til bóta með löggjöf á þessu sviði, m.a. setja nákvæm lög um það, hvernig samningssvæði þau, sem Ameríkanar hafa sérréttindi á hér, skuli afmörkuð, og annað slíkt, en ekkert af slíku hefur allshn. gert. Hún lætur sér nægja að leggja til að samþ. lög um sérstakan lögreglustjóra á þessum samningssvæðum, vitandi það, að í þeim samningi, sem hefur verið gerður að íslenzkum lögum, stendur, að liði Bandaríkjanna er rétt að fara með lögregluvald á samningssvæðunum og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að halda þar uppi aga, allsherjarreglu og öryggi. Allri þeirri hrákasmiði, sem sjálfur samningurinn var, er ekki að neinu leyti bætt úr með neinu af því, sem hérna er lagt til. Það er slæmt, að svona löggjöf skuli enn vera samþykkt á Alþingi. Það er slæmt, að þær n. þingsins, sem um þessi mál fjalla, skuli ekki sjá sóma sinn í því að reyna a.m.k. að færa til betri vegar og setja í sæmilegt lögfræðilegt form það, sem ríkisstj. gengur frá eins klaufalega og þessum samningi. Við vitum allir, hvernig það er til komið, annars vegar haldið áfram sama undirlægjuhættinum og einkennt hefur samninga undanfarinna sjö ára við Bandaríkin og hins vegar verður nú íslenzk löggjöf eins og með þessu frv. að eins konar þrætuepli á milli stjórnarflokkanna, sem með þetta eiga að fara, vegna þess að Sjálfstfl. og Framsfl. komu sér ekki saman um, hvernig eigi að stjórna þar suður frá. Og vegna þess að ráðherrar Sjálfstfl. sökum reynslu undanfarinna ára vilja reyna að sleppa við ábyrgðina af því, sem þar gerist, þá heimta þeir nú, að undir einn ráðh. Framsfl. komi allt, sem þarna á að ske. Það er kapphlaup á milli þessara stjórnarflokka um að reyna að þurrka hvor á annan smáninni af því ástandi, sem viðgengst suður á Keflavíkurflugveill. Og þegar svo þessu þrætuepli stjórnarflokkanna er hent í allshn., þá lætur hún það auðsjáanlega liggja hjá sér, athugar það ekki að neinu leyti og hendir því inn í d. á sama hátt aftur. Þetta er orðið lögsköpunarstarfið hjá Alþingi; þegar það snertir þau mál, sem viðkvæmust og hættulegust eru af þeim, sem Íslendingar hafa fjallað um á síðustu áratugum.

Ég hefði haft mjög gaman af að yfirheyra þessa góðu allsherjarnefndarmenn og ekki sízt frsm. um það, sem þeir þekkja af eigin reynslu í sambandi við löggjöf um íslenzka hreppa og íslenzk lögsagnarumdæmi, og heyra hjá þeim, hvernig það mundi eiga við í þessari löggjöf, sem hérna fer fram. Ég býst hins vegar ekki við, að þeir kæri sig um að ræða þessa hluti. Það er venjan um allt, sem snertir þessi mál, — það er ákaflega skiljanlegt. Það, sem þessir menn finna með sjálfum sér að sé óverjandi, reyna þeir ekki að verja. En hins vegar munu þeir ekki fyrir augliti þeirra, sem eiga að lifa undir þessum lögum og fara með þau, sleppa við ábyrgðina af því að samþ. svona lög og ganga svona frá hlutunum. Ég legg þess vegna fyrir mitt leyti til, að þetta lagafrv. sé fellt.