23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli er nú lagt fyrir hv. Ed. eftir að hafa verið samþ. í Nd. Frv. þetta er lagt fyrir Alþ. samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar og er til staðfestingar á brbl., sem undirrituð voru af forseta Íslands 19. jan. 1954. Um ástæðu eða þörf fyrir þessari lagasetningu vil ég taka eftirfarandi fram:

Um s.l. áramót tók utanrrn. að öllu leyti við afgreiðslu dóms- og lögreglumála á Keflavíkurflugvelli. Var það gert í samráði við dóms- og kirkjumrn. og í samræmi við auglýsingu um skipan og skiptingu starfa ráðherra frá 11. sept. 1953. Það þótti því að öllu leyti hagkvæmara og raunar óhjákvæmilegt, að ráðuneyti það, sem dóms- og lögreglumál heyra undir, réði skipan þess manns, sem annaðist framkvæmd þessara mála og bæri því embættisábyrgð gagnvart því. Auk þessa er ærin þörf að hafa lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, þar sem um 20 lögregluþjónar eru starfandi auk tollþjóna. Þar er fjöldi manna saman kominn. Er því hvorki ólíklegt vé óeðlilegt, að ýmiss konar árekstrar og brot á lögum og reglum eigi sér stað. Ástæðan fyrir því að gefa út brbl. um þetta efni er sú, að eigi þótti fært að bíða lengur að gera þessa nýju skipun, en vitað var, að það mundi taka alllangan tíma, unz Alþingi, sem þá var í leyfi, hefði gengið frá lagasetningu um þetta mál. — Ég vil svo ekki fjölyrða meira um frv. þetta að sinni, en legg til, að hv. d. samþykki það og vísi því til allshn.