04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

16. mál, sóttvarnarlög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Nefndin hefur haft frv. þetta til meðferðar og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt. Meginefni frv. er að samræma sóttvarnarlög okkar reglum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Frv. er samið af landlækni, og fannst n. orðalag vera sums staðar nokkuð óþjált og sérvizkulegt, en landlæknir gaf þær skýringar á því, að fyrirmynd orðalagsins mætti ýmist finna í Grágás eða biblíunni. Að öðrum þræði er nokkuð í þessu frv. um nýyrði. Eru þau samin, þessi nýyrði, til þess að tákna orðalag, sem er í útlenda málinu á þessum samningum, sem við höfum gerzt aðilar að, og það orkar oft tvímælis um slík nýyrði, hversu vel þau eru valin og heppileg, en að athuguðu máli féllst n. á, að orðalagið mætti óbreytt standa, enda var ekki ágreiningur í n. um efni frv., heldur einungis um orðaval.

Þær breyt., sem mestu máli skipta frá núgildandi sóttvarnarlögum, eru helzt þær, að eftir þessum lögum ber ríkissjóður kostnað af sóttvörnunum, en til þessa hafa þeir farkostir, sem til landsins hafa komið, þurft að greiða sérstakt sóttvarnargjald, sem hefur farið til þess að bera uppi þennan kostnað. Þetta gjald hefur að vísu sums staðar verið meira en þurft hefur til þess að bera uppi sóttvarnarkostnaðinn og hefur þá farið til þess að halda uppi kostnaði af tollgæzlu, en vitanlega er óeðlilegt og ekki heppilegt, að svo verði áfram. Þessi breyt. er algerlega í samræmi við þá samninga, sem við höfum gerzt aðilar að, og er því nauðsynlegt fyrir okkur að breyta eins og gert er í frv. Undan eru þó tekin í þessu frv., sem hér liggur fyrir, erlend fiskiskip, sem hér leita hafnar. Það kann að vísu að orka nokkurs tvímælis, en landlæknir, sem n. ræddi við um frv., taldi, að það væri a.m.k. reynandi fyrir okkur að halda þessu ákvæði í frv. og taka gjald af erlendum fiskiskipum, það gegndi nokkuð öðru máli um þau en önnur skip og það væri ekki víst, að við værum skyldir til að gæta sóttvarna fyrir þau ókeypis eins og fyrir önnur skip, og taldi, að ef það kæmi í ljós, að þetta bryti í bága við samninginn, þá mætti alltaf fella þetta niður.

Frv. hefur verið athugað af Læknafélagi Íslands, sem taldi ekki annað við það að athuga en það, að þóknun, sem ákveðin væri til lækna fyrir starfið, væri allsendis ónóg og fjarri öllu lagi. N. ræddi þetta atriði; að vísu var það upplýst í u., að þetta mundi rétt vera hjá Læknafélaginu, en n. taldi samt, að eðlilegra væri, að ákvæði um gjaldskrár væru annars staðar en í þessu frv., og féllst því á að láta ákvæði frv. haldast. — Enn fremur hafði læknadeild háskólans frv. til umsagnar og telur sig fyrir sitt leyti samþykka frv. og að það sé í samræmi við gildandi alþjóðalög. — Nefndin hefur, eins og ég áður sagði, auk þess rætt frv. við landlækni, sem hefur samið það, og eins og ég sagði í upphafi, hefur n. fallizt á að mæla með því, að frv. sé samþykkt.