09.12.1953
Efri deild: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

16. mál, sóttvarnarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur fengið afgreiðslu í Nd., svo að það er ekki ástæða til þess að fara að halda hér ræðu við þessa 1. umr. Nægir að vísa til aths. við frv.

Ísland hefur, eins og kunnugt er, gerzt aðili Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að hinum alþjóðlega sóttvarnarsamningi, nr. 2 25. maí 1951, en þann dag var hann samþ. á 4. þingi stofnunarinnar í Genf, og fyrir þá aðila Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem höfðu ekki tilkynnt fyrirvara innan tiltekins 9 mánaða frests, gekk samningurinn í gildi hinn 1. okt. 1952, og var Ísland í þeirra hópi.

Frv. þetta er sniðið að nokkru eftir dönskum l. og byggt á þeirri reynslu, sem Danir hafa fengið í þessum efnum, og hefur þótt heppilegt að fara að nokkru eftir því. Að öðru leyti nægir að vísa til aths., sem fylgja frv., og að ræða það nánar við 2. umr. Ég tel eðlilegt, að því sé vísað til heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.