01.03.1954
Efri deild: 54. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Ég er alveg sammála hv. þm. Eyf. um það, að sjálfsagt sé að taka það skýrt fram, að ríkisstj. skuli ekki vera að hafa nein afskipti af þeim málum, sem falla undir forseta Alþingis á hverjum tíma, og skal gera hans orð að mínum í því efni, enda hygg ég hvað þetta snertir, að í brtt. við frv., sem hér liggur fyrir, sé það svo skýrt fram tekið, að ekki geti orkað tvímælis.

Um búning frv. skal ég ekki segja margt. Eins og till. bera með sér, hefur verið breytt mjög orðalagi á frv. í einstökum greinum og yfirleitt til stórra bóta. Ég er nú ekki viss um, að þetta frv. hafi verið miklu lakara orðað en sum önnur frv., sem koma hér fyrir þingið og hafa nú skriðið með ekki jafnrækilega athuguðum breytingum á orðalagi eins og þetta frv., en vissulega er það ámælisvert, þegar ríkisstj. leggur ekki meiri alúð eða lætur þá menn, sem undirbúa slík mál, leggja meiri alúð við störf sín heldur en virðist hafa verið gert við þetta frv., sem hérna liggur fyrir. En ég hygg, að frv. sé nú komið í það form, að þeirra hluta vegna sé fullkomlega auðvelt að láta það hafa fullnaðarafgreiðslu nú á þessu þingi.

Út af ummælum hv. frsm. virðist nú sem okkur berí í raun og veru ákaflega litið á milli. Um 1. brtt. mína, við 14. gr., segir hann, að það sé erfiðara að meta, hvort um sé að ræða sams konar stöðu en sömu stöðu, og það muni þess vegna valda nokkru meiri örðugleikum í framkvæmd, ef mín brtt. er samþykkt, skildist mér. Það verða menn að sjálfsögðu að gera sér ljóst, að það verður ekki komizt fram hjá mati í þessum efnum, nema með því að „sama“ í greininni, eins og hún nú er orðuð, þýði „sama heiti“, því að þá er ekki neitt um að villast lengur. Strax og á að fara að skýra, hvort starfið er í raun og veru það sama undir öðru nafni, þá kemur til mats þeirra aðila, sem um það mundu fjalla, og það verður að viðurkennast, sem sagt er í brtt. mínni, að það er hægt að breyta um stöðu, þ.e.a.s. gefa henni annað nafn, þó að starfssviðið, verkið sé nákvæmlega hið sama. Og ég hygg, að þess séu dæmi, að unnizt hafi mál á ríkisstj., sem hafa snúizt um þetta atriði. Ég álít því, að það sé réttara að segja það beinlínis í lagagreininni sjálfri, að það sé ekki nóg að skipta um nafn á starfinu til þess að losna við mann, sem hefur rækt starfið alveg óaðfinnanlega, heldur þurfi að verða breyting á því verkefni, sem undir manninn heyrir, og það er það, sem felst í till. minni. Ég álit því, að það sé réttara að hafa þetta orðalag á greininni, þó að ég skuli ekki mæla því í gegn, að það kynni að fara svo fyrir dómstólum, að skilningurinn á orðinu „sama“ í greininni núna gæti orðið svipaður og „sams konar“, en um það þori ég ekki neitt að fullyrða og ber því till. fram, til þess að tvímæli verði af tekin í lögunum um þetta.

Um brtt. við 34. gr. hefur, held ég, hv. frsm. misskilið orð mín. Ég held, að ekki sé hægt að telja, að viðbótin, sem ég legg til að verði gerð við 34. gr.: „enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans eða réttindum“ — ég held ekki, að það sé hægt að halda því fram, að þetta felist í síðustu málsgr. 15. gr., því að hún segir ekki annað eftir till. n. heldur en að ekki megi taka af mönnum fríðindi, sem búið sé að veita áður en lögin taka gildi. Hins vegar hefur mér verið sagt, og ég hygg, að það sé rétt, að dómur hafi gengið um þetta atriði í einu máli a.m.k., og sú skoðun hafi þar verið staðfest af dómnum, að ekki væri hægt að flytja menn í aðra stöðu með lélegri kjörum en þeirri, sem hann áður var í, ef maðurinn hefur verið fullfær að gegna henni. Nú geta náttúrlega slíkir dómar byggzt á einstökum málsatvíkum í því máli, sem dæmt er í, án þess að hægt sé að slá því föstu, að með þeim sé sköpuð algild regla. Og eins og ég orðaði það áðan, hygg ég því, að réttara sé fyrir þá, sem eru þessarar skoðunar, að menn eigi ekki að vera skyldugir til að taka launaskerðingu með flutningi í nýja stöðu, að taka það inn í lögin, og þar sé alls ekki verið að ganga lengra í þá átt að lengja lögin en rétt sé og eðlilegt.

Um 37. gr. virðist mér nú, eftir því sem hv. frsm. nefndarinnar sagði, hann vera alveg á sömu skoðun og ég, að í raun og veru sé það rétt og eðlilegt, að starfsmenn, sem fyrir gildistöku þessara laga hafa fengið með samningum og reglugerðum frekari réttindi en þau veita, haldi þessum réttindum. Hann sagði, að það væru ákvæði í lögunum fyrir, sem tryggðu þetta, og mun þá eiga við síðustu málsgr. í 15. gr., mér mætti í raun og veru vera þetta nóg. Ef ég væri þess alveg fullviss, að allir allshn.-menn væru á sömu skoðun í þessu efni og staðfestu þá skoðun sína, þá mætti mér vera það nóg, en ég er ekki viss um, að nm. séu það allir, og álít því, að það sé rétt, að skýr ákvæði komi inn, því að það getur verið álitamál, hvort seinasta málsgr. 15. gr. tekur til þessa efnisatriðis, sem hér er rætt um. Að hér sé reynt að ganga fyrir allar slóðir, eins og hv. frsm. orðaði það, það fæ ég nú ekki séð. Þær slóðir, sem geta leitt út í einhverjar ógöngur, skaðar nú ekki að gengið sé fyrir og þar með girt fyrir, að eftir þeim verði farið. En ég fæ ekki séð, að nokkurt lýti sé á lögunum, þó að þessari grein sé bætt hér inn í, þvert á móti. Hún á heima á þessum stað, og þó að finna megi að einstakra manna áliti önnur ákvæði í lögum, sem segja það sama, þá er það enginn skaði. Þetta kemur oft fyrir í vandaðri lagasetningu, að slíkt hendir.

Ég mæli svo með brtt. og vildi vænta, að hv. þm. gætu á þær fallizt.