05.03.1954
Neðri deild: 58. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er stjórnarfrv. og komið frá hv. Ed. Frv. er að meginstofni samhljóða frv., sem samið var fyrir nokkrum árum á vegum dómsmrn. Að tilhlutun minni og hæstv. núverandi dómsmrh. fóru þeir sérstaklega yfir frv., skrifstofustjóri fjmrn. og fulltrúi úr dómsmrn., Baldur Möller, og ræddu efni þess allýtarlega við fulltrúa frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Voru þá gerðar nokkrar breyt. á því frv., sem áður lá fyrir í dómsmrn. Þessar breytingar voru gerðar í samráði við mig og hæstv. dómsmrh. Síðan var málið lagt fyrir hv. Ed. og hefur nú verið afgr. þar frá d. með nokkrum breytingum að vísu, en engum svo stórvægilegum, að það sé ástæða til að rekja þær hér við framsögu í hv. deild.

Ég leyfi mér að vísa til grg. þeirrar, sem fylgir frv., varðandi frekari skýringar á efni þess. Ég vil aðeins taka það fram, sem raunar segir einnig í inngangi grg., að íslenzk löggjöf um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er ákaflega ófullkomin, engin heildarlöggjöf til um það efni og brýn þörf á því, að um það séu settar reglur í lög.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til hv. fjhn., og biðja þá n. að greiða fyrir málinu, þannig að það gæti orðið afgr. nú á þessu þingi. Þetta mál hefur nú fengið þann undirbúning, að það ætti að vera vel framkvæmanlegt.