26.03.1954
Neðri deild: 70. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér 2 brtt. við þetta frv., og er þær að finna á þskj. 498.

Fyrri brtt. er um það, að síðari málsl. 1. málsgr. 5. gr. falli niður. Sá málsl. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að taka til greina umsóknir, sem berast, eftir að liðinn er umsóknarfrestur, enda hafi staðan ekki þegar verið veitt eða í hana sett eða maður í hana ráðinn, eftir að frestur var liðinn.“ Ég tel það ákaflega óviðfelldið að hafa þetta ákvæði í lögum um réttindi og skyldur embættismanna, því að þá fer að verða þýðingarlítið að auglýsa stöður, ef forstjóri eða ráðh. eða forstöðunefnd, hver sem hlut á að máli, getur tekið umsóknir til greina, sem berast, eftir að umsóknarfresturinn er liðinn, og ráðið mann í stöðuna eftir þeirri umsókn, enda er 3. málsgr. þessarar sömu gr. þannig, að hún á að nægja til þess að gera möguleika á því, ef um stöðu sækja ekki menn, sem ráðh. eða forstjóri telja færa um að gegna stöðunni, að setja annan mann í hana, ef svo ber undir, og þá á þann hátt komast fram hjá því, að það þurfi endilega að veita manni stöðu, sem hlutaðeigandi yfirvald telur ekki færan að vera í stöðunni. Þessi till. var borin undir stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og töldu þeir, að væri til bóta að fella þetta ákvæði niður.

Þá er önnur brtt. mín um að umorða 18. gr. frv., eða síðari málsgr. hennar, en hún er um það, að starfsmönnum ríkisins sé skylt að hlíta þeim breytingum, sem gerðar eru með breytingum á launalögum. Eins og gr. er orðuð, þá má líta svo á, að það sé nú heimilt, ef ekki eru ráðningarsamningar eða reglugerðir, sem standa því í gegn, að breyta launakjörum og réttindum — ja, eiginlega er það nú ekki annað en launakjörum — með breyttum launalögum. En mér þykir það vera alveg lágmark þess, sem Alþingi getur látið fara hér í gegn, að það sé nokkurn veginn tryggt, að það sé hægt með breyttum launalögum að breyta eftir því, sem löggjafarvaldinu á hverjum tíma sýnist eðlilegt, launakjörum og réttindum starfsmanna ríkisins, og að það sé um leið loku fyrir það skotið, að einstakir forstjórar eða ráðherrar geti gert ráðningarsamninga við einstaka menn eða sett reglugerðir, sem stríða á móti ákvæðum launalaga og geta orðið til þess, að það sé ekki með launalögum hægt að breyta réttindum og launakjörum, nema því aðeins að afnema í leiðinni þá ráðningarsamninga eða reglugerðir. Ég býst við, að hv. þdm. skilji, hvað hér er um að ræða, og ég þurfi ekki að fara um það fleiri orðum en orðið er, og mun ekki gera það, nema því aðeins að einhver mótmæli komi fram gegn þessari brtt.