15.03.1954
Efri deild: 61. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

167. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. til laga um breyt. á tollskránni fjallar nær eingöngu um tolla á vörum til iðnaðarins. Iðnaður er nú orðinn sívaxandi þáttur í þjóðarbúskap Íslendinga. Eftir síðustu skýrslum um það, hvernig þjóðin skiptist í atvinnustéttir, þá er talið, að kringum 31% af landsmönnum hafi haft framfæri sitt af iðnaðarstörfum árið 1950, og er þá talinn með byggingariðnaðurinn allur að vísu og einnig fiskiðnaðurinn. Það mun vera um 16% allra landsmanna, ef fiskiðnaður og byggingariðnaður er ekki talinn með, en um 31%, ef byggingariðnaðurinn og fiskiðnaðurinn er meðtalinn.

Það er nú mála sannast, að engin þjóð getur verið án þess að hafa iðnað og allra sízt sú þjóð, sem sækir langleiðir um aðdrætti, eins og Íslendingar hljóta að gera vegna legu landsins. Hér háir ýmislegt að vísu iðnaðinum. Sérstaklega er það fámenni þjóðarinnar, hvað innanlandsmarkaðurinn verður lítill og þess vegna erfitt að koma við fjöldaframleiðslu, og svo það, að sækja þarf hráefnin mest út úr landinu. Iðnaður sá, sem hér í landinu starfar, hefur að verulegu leyti komizt á fót á þeim tíma, þegar innflutningshöft voru talsvert ströng og gjaldeyrishömlur, og við höfum alltaf haft háa aðflutningstolla á flestum þeim vörum, sem iðnaðurinn framleiðir, og því háa verndartolla yfirleitt.

Árið 1950 var breytt verulega um stefnu í verzlunarmálum og aukinn mjög innflutningur á alls konar neyzluvörum og gefinn frjálsari en áður hafði verið, og lék mörgum hugur á að fylgjast vel með því, hvernig íslenzkur iðnaður stæðist það próf, sem hann þá hlaut að ganga undir í sambandi við þessa breyttu viðskiptastefnu. Ég held, að það verði nú varla annað sagt en að íslenzkur iðnaður hafi staðizt allvel það próf, sem hann hefur gengið undir nú síðustu árin í sambandi við aukinn innflutning á erlendum iðnaðarvörum. Það hefur verið reynt að fylgjast með þessu og gera ráðstafanir til úrbóta, þegar það hefur komið fram; að þeirra þyrfti sérstaklega við.

Ég ætla að minnast á tvennt, sem hefur sérstaklega fallið í minn hlut að fjalla um í sambandi við þetta.

Annað er fyrningarafskriftir á vélum til iðnaðarins. Til þess að greiða fyrir iðnaðarfyrirtækjum og létta þeim nokkuð skattabyrðina, var í fyrra gefin út af fjmrn. ný reglugerð um fyrningarafskriftir af vélum, sem notaðar eru til iðnaðarins, og voru fyrningarafskriftir yfirleitt hækkaðar um 50%.

Hitt atriðið er endurskoðun á tollakjörum iðnaðarins. Það var sett nefnd til þess að hafa þessa endurskoðun með höndum, og tók hún til starfa í aprílmánuði s.l. Var þessi nefnd skipuð af mér í samráði við hæstv. þáverandi iðnmrh., og verkefni n. var að endurskoða tollskrána með tilliti til iðnaðarins. Átti n. að gera sér grein fyrir því, hvort iðnaðurinn hefði hæfilega tollvernd, og ef n. fyndist svo ekki vera, að gera þá till. í framhaldi af þeirri athugun. Í þessari n. áttu sæti fimm menn, og hefur n. unnið að mínum dómi mjög gott starf. Sjötti maður átti að vísu líka sæti á fundum n. án atkvæðisréttar, og var hann frá Landssamhandi iðnaðarmanna. Nefndin sendi fjmrn. till. fyrir skömmu. Um 6. febr. s.l. fengum við till. um breyt. á tollskrárlöggjöfinni, og 20. febr. fengum við grg. og útreikninga um áhrif þessara tillagna á tolltekjurnar, og loks fengum við almenna grg. frá n. núna 8. þ. m. Var það siðasta skjalið, sem kom frá n., og þar með hafði hún endanlega skilað áliti.

Við höfum nú ekki beðið boðanna með að taka þessar till. n. til athugunar, því að ætlunin hafði verið sú, eins og ég lýsti yfir fyrir jólin hér á hv. Alþingi, að leggja fyrir þetta þing til afgreiðslu tillögur n., eða það af till. n., sem ríkisstj. sæi rétt að taka upp. Hefur verið unnið ósleitilega síðan af fjmrn. og iðnmrn. í sameiningu að málinu. Er skemmst af því að segja, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er byggt á till. n., en þó verulegar breytingar gerðar. Er hér í tekið það, sem stjórnin vill gera að sínum till. í málinu. Nál. sjálft mun koma til hv. þingmanna fjölritað.

Í till. n. var aðalatriðið að lækka tolla á hráefnum til iðnaðarins. En það var einnig annar nokkuð stór þáttur í tillögunum frá n., og hann var uppástunga um að hækka allmikið verndartolla á vissum vörum, aðallega á nærfatnaði, skófatnaði og rafmagnsheimilistækjum. Eftir rannsókn þá og athugun, sem málið hefur fengið í ráðuneytunum, hefur niðurstaðan orðið sú, að ríkisstj. hefur ekki tekið upp till. um hækkun á verndartollum. Ríkisstj. vill ekki leggja til, að verndartollar verði hækkaðir, og telur ekki nauðsyn á því. Þó eru teknar upp lítils háttar tollhækkanir á örfáum liðum. Það snertir helzt sápulíki, sælgætisvörur, pressaðar korkplötur, korkvörur til skógerðar og spil. En þessar hækkanir eru lítilfjörlegar, og það má því segja, að stj. hafi ekki fallizt á till. n. um aukna verndartolla. Aftur á móti hefur stj. fallizt í höfuðatriðum á till. n. um lækkun á hráefnistollunum, þó með þeirri mikilsverðu undantekningu, að stj. hefur ekki treyst sér til að fallast á lækkun verðtolls á gervisilkivefnaði og á ullarvefnaði, en það var í till. nefndarinnar stungið upp á, að lækkuð yrðu aðflutningsgjöld allverulega á þessum varningi.

Einn meginþátturinn í lækkunartillögunum er sá að lækka verðtoll á hráefnum til iðnaðar úr 8% í 2% og sleppa vörumagnstolli, sem er 7 aurar á kíló.

Ég minntist á það, hvað iðnaðurinn er orðinn stórkostlegur þáttur í þjóðarbúskapnum. Það er ekki vafi á því, að iðnaðurinn verður í framtíðinni enn vaxandi þáttur í þjóðarbúskapnum. Að vísu eru takmörk fyrir því, hvað iðnaður fyrir innlendan markað einvörðungu getur vaxið. En við getum alls ekki látið við það sitja eða hugsað okkur það eitt, að iðnaðurinn framleiði fyrir innlendan markað. Það verður vitaskuld að keppa að því hér að koma upp útflutningsiðnaði. Og ef sá draumur á að rætast að nota til nokkurrar hlítar raforku þá, sem landið hefur ráð á, þá verður að breyta raforkunni í verðmæti um hendur iðnaðarins, og þá verður útflutningsiðnaður að koma til. Við ættum að hafa hér góð skilyrði að mörgu leyti til útflutningsiðnaðar. Við höfum að vísu ekki mikið af hráefnum, en við höfum ódýra orku, og þar af leiðandi höfum við betri skilyrði en ýmsar aðrar þjóðir, sem þó hafa stórkostlegan útflutningsiðnað. Ég vil í því sambandi nefna þjóð eins og Dani. Þeir hafa hvorki orku né hráefni, en þeir hafa tekið á þessum málum með svo miklum myndarskap, að þeir hafa stórfelldan útflutningsiðnað samt. Þeir flytja inn bæði orkuna og hráefnin.

Við verðum að sjálfsögðu að hafa hæfilega vernd fyrir iðnaðinn í tollalöggjöfinni, en gæta þess þó jafnframt að ganga ekki of langt í því tilliti, því að þá verður framleiðslukostnaður á Íslandi of hár, og er þar vandratað meðalhófið. Lífskjör þjóðarinnar fara vitaskuld í framtíðinni mjög eftir því, hvort við getum framleitt sjálfir góðar og ódýrar vörur til neyzlu innanlands og samkeppnisfærar vörur til útflutnings. Ef við göngum of langt í því að framleiða hér sjálfir handa okkur mjög dýrar vörur, miklu dýrari en aðrir geta framleitt þær og selt okkur þær, þá rýrir það og þrengir lífskjör þjóðarinnar. Þess vegna er vandratað, eins og ég segi, meðalhófið í þessum efnum.

Ég vona, að hv. Alþ. vilji taka þannig á þessu máli, að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi, þótt nokkuð sé áliðið þingtímans. Málið hefur fengið góðan undirbúning, og þetta ætti að vera vel kleift. Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr., og vil biðja hv. fjhn. að taka málið fyrir hið allra fyrsta.