18.03.1954
Efri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

167. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd, því að tilefni hefur ekki gefizt til annars frá minni hendi, ag aðallega út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. Hann vildi halda því fram, að í þessu frv. fælust smávægilegar ívilnanir til iðnaðarins, og þó að hann væri með frv., þá gerði hann frekar lítið úr notum þess að samþ. það. En ég held það hafi gætt mjög mikils misskilnings hjá honum. Hann nefndi hér allar tollatekjur landsins, eins og þær hafa verið, og sagði, að þetta væri ekki nema rúmlega 4% af þeim, sem tollarnir mundu lækka. En hann minntíst ekki á það, sem er þó aðalefnið í þessu máli, að tollatekjur landsins hafa ekki nándar nærri hvílt allar á efnivörum til iðnaðar eða iðnaðarvörum. Ég hef nú ekki útreikning á því við höndina, en ég fullyrði, að það léttir alveg stórlega gjöldum á iðnaðarframleiðslu landsmanna, ef þetta frv. verður samþykkt, enda hygg ég, eins og hv. þm. Barð. vék að áðan, að fulltrúar iðnaðarmanna hafi verið sæmilega ánægðir með þetta frv., og þeir áttu sinn þátt í samningu þess. Ég held þetta sé því misskilningur. Auðvitað væri bezt í þessu efni eins og öðrum að hafa útgjöldin sem lægst, greiða sem minnst í ríkissjóð. Það er gott út af fyrir sig, ef hægt væri að koma því við, en þá yrði þjóðin líka að hætta að gera kröfur til ríkissjóðs um, að hann taki á sig ný og ný verkefni og verji til þess milljónum og milljónatugum. Út af fyrir sig mætti lækka dálítið útgjöld ríkissjóðs sem slíks og þar með gjöld á landsmenn, sem til hans gengju, með því t.d. að afnema tryggingalögin og setja allt í gamla horfið að því er það snertir. Þannig er um margt fleira. Mér finnst rétt að vera ekki að blanda almennri tollalöggjöf og því, að yfirleitt hvíli of háir tollar á þjóðinni, inn í umr. um þetta mál, sem er alveg einangrað við íslenzkan iðnað og er stórvægilegt hagsmunamál hans.

Hv. þm. Barð. hefur gert grein fyrir sinni brtt. Samt sem áður get ég ekkert frekar um hana samt frá nefndarinnar hendi, þar sem hún hefur ekki rætt hana sérstaklega, en þar sem hv. þm. hefur tekið till. aftur til 3. umr., þá lofa ég því sem form. fjhn., að hún skal verða tekin þar fyrir á fundi, áður en 3. umr. verður um málið.