23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

167. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eftír að frv. þessu hafði verið vísað til 3. umr. og tekið til þeirrar umr. og henni verið frestað samkv. mínum tilmælum, þá bárust fjhn. ýmis tilmæli um breytingar á frv. Er skemmst frá því að segja, að n. sá sér ekki fært að taka þær breytingar til greina, svo seint sem þær voru fram komnar, og taldi, að hlutaðeigendur hefðu gjarnan getað látið frá sér heyra fyrr, því að það lengi hefur frv. legið fyrir hv. d. Af þessum nýju óskum, sem fram voru lagðar á síðasta fundi n., birtast nú hér tvær af þeim sem brtt. við frv. Það eru tvær brtt. á þskj. 507 frá hv. 4. þm. Reykv. og brtt. á þskj. 514 frá hv. þm. Seyðf. Efni þessara tveggja þskj. var rætt á síðasta fundi, þó að ekki væri búið að bera till. þá fram.

Hvað snertir brtt. á þskj. 507 frá hv. 4. þm. Reykv., þá er það sama um það að segja eins og ég sagði um ýmsar aðrar óskir, að meiri hl. n. sá sér ekki fært að fara að taka upp slíkar brtt. eða mæla með þeim á síðustu stundu. Verða auðvitað að ganga atkvæði um þessar till., og hafa þær ekki nein meðmæli n. sem slíkrar. Ég skal ekki heldur fara hér neitt út í að mótmæla þeim. Hver hv. dm. er auðvitað sjálfráður að því, hvernig hann greiðir um þær atkv.

Þá er ein brtt. á þskj. 514 frá hv. þm. Seyðf. Þar víkur ofur lítið öðru máli við, því að ég vil lýsa yfir því hér, að auk hans tjáði ég mig fúsan til þess að fallast á þá till. á nefndarfundinum. En meiri hl. n. fékkst ekki fyrir því. Ég mun því fyrir mitt leyti greiða atkvæði með þeirri brtt., en n. er af því vitanlega laus allra mála að öðru leyti.

Þá vil ég að lokum minnast á brtt. með varatill. ú þskj. 474 frá hv. þm. Barð. (GíslJ). Það er alllangt síðan sú brtt. var borin fram. Hún var borin fram við 2. umr. og þá tekin aftur til athugunar, og n. hefur rætt hana nokkuð á nokkrum fundum, en ekki náðst samkomulag um hana, þannig að ég lít svo á, að aðrir nm. vilji ekki á hana fallast. Ég hefði persónulega vel getað hugsað mér að ganga nokkuð til móts við hv. flm. og fallast á miðlunartill. við varatill., till., sem gengi ekki eins langt og varatill., en hv. flm. vildi ekki fallast á þá miðlun, og aðrir nm. tóku ekki undir það, svo að é,g hef nú ekki borið fram neina brtt. í því efni.

Af því að hv. þm. Barð. hefur áður gert grein fyrir þessari brtt. sinni og auðvitað frá sínu sjónarmiði, þá vil ég hér aðeins láta koma fram nokkuð af því, sem haft er á móti því, að hans till. sé samþykkt. Í fyrsta lagi er þá það, að eins og nú standa sakir mun engin verksmiðja úti á landi flytja inn hálfunnar dósir. Og beinlínis frá verksmiðjum úti á landi, niðursuðuverksmiðjum eða öðrum verksmiðjum, hefur ekki komið nein ósk til n. um breytingu á þessu. En það skal ég þó taka fram, að ég tek hv. þm. Barð. alveg fullgildan sem umboðsmann þeirrar niðursuðuverksmiðju, sem er í hans kjördæmi. En samt sem áður er það, að verksmiðjan sem slík hefur ekki borið sig undan þessu og engin verksmiðja úti um land. Í öðru lagi er það, að jafnvel þótt niðursuðuverksmiðjur úti á landi vildu fara að flytja inn slíkar hálfunnar dósir, þá er þeim ekkert íþyngt samanborið við þann dósaiðnað, sem hér er, þar sem sami tollur gildir auðvitað fyrir þær hálfunnu dósir, sem dósaverksmiðjan í Reykjavík flytur inn og greiðir auðvitað sama toll af. En það að samþykkja þessa till. er talið að gæti haft skaðleg áhrif á þann dósaiðnað, sem til er í landinu, t.d. það, að hægt væri þá að flytja inn og smiða upp úr hálfunnum dósum ýmsar aðrar gerðir dósa fyrir annan íðnað en niðursuðu og verzla þannig með slíkt tollfrjálst í samkeppni við sams konar dósir frá dósaiðnaðinum í landinu. En talið er, að slíkt mundi útiloka tilveru sjálfstæðrar dósaverksmiðju vegna þess, hvað þröngur markaður er í landinu fyrir þetta.

Það munu ekki vera nema 3 tegundir dósa, sem eru fluttar inn eða hafa nokkurn tíma verið fluttar inn hálfsmíðaðar. En dósaverksmiðjan í Reykjavík framleiðir um 70 tegundir dósa, bæði fyrir niðursuðuverksmiðjur, efnagerðir, málningarverksmiðjur og heimili. Þess vegna virðist, með tilliti til þess jafnframt, sem ég sagði í upphafi, að nú sem stendur mun engin verksmiðja í landinu önnur en dósaverksmiðjan í Rvík flytja inn hálfunnar dósir, a.m.k. ekki liggja neitt á því að lækka toll á hálfunnum dósum frá því, sem í frv. er gert ráð fyrir. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að Kaupfélag Eyfirðinga, sem hefur nokkra niðursuðu á ýmsum vörum, hefur, að ég hygg, alltaf keypt hálfunnar dósir, þegar það hefur þurft á þeim að halda, hjá dósaverksmiðjunni í Reykjavík, en ekki flutt þær inn. Og þannig mun það vera, að nú sem stendur a.m.k. er ekki um neina verksmiðju að ræða, sem á þessu þarf að halda fyrr en þá ef til vill einhvern tíma síðar, og virðist þá mega taka það til athugunar, þegar þar að kæmi.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Það má ef til vill deila á n. fyrir að hafa ekki tekið ákveðna afstöðu frekar en ég hef nú lýst til þeirra till., sem fyrir liggja. Þó lít ég svo á, að n., að undanteknum flm., sé mótfallin brtt. á þskj. 507 og sömuleiðis á þskj. 474, en eins og ég hef lýst, þá eru a.m.k. tveir nm., sem vilja samþykkja till. á þskj. 514, flm. og ég sjálfur. Mér skilst, að hinir þrír nm. vilji ekki á hana fallast, eða ekki var það í gær á fundi.