05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

167. mál, tollskrá o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er sammála þeirri meginstefnu, sem fram kemur í þessu frv. Það ber brýna nauðsyn til þess að efla íslenzkan iðnað, að rétta þeim þætti íslenzkt atvinnulífs, sem undanfarin ár hefur verið í örustum vexti, hjálparhönd. Það er gert í frv., og þess vegna tel ég það stefna í rétta átt. Það er sem kunnugt er undirbúið af n., sem starfaði að endurskoðun tollskrárinnar og skipuð hafði verið af ráðh. á sínum tíma.

Sú leið, sem er farin í frv., er ekki að öllu leyti hin sama og sú, sem n. hafði lagt til að farin yrði. N. gerði nefnilega þær till. í nál. sínu að gera hvort tveggja til eflingar íslenzkum iðnaði, að lækka tolla á hráefnum til hans og að hækka tolla á ýmsum fullunnum vörum inniendum iðnaði til verndar. Lækkunartill. n. námu 8.3 millj. kr. En hún lagði hins vegar til, að tollur yrði hækkaður á móti á ýmsum fullunnum vörum um 5.1 millj., þannig að heildartekjumissir ríkissjóðs hefði, ef till. hennar hefði verið fylgt, orðið rúmar 3 millj. kr. Þetta frv. er að því leyti frábrugðið till. n., að þar er ekki gert ráð fyrir neinum teljandi hækkunum á tollum á aðfluttum vörum, en hins vegar eru lækkunartill. allmiklu minni en n. hafði gert ráð fyrir, eða aðeins um 5 millj. kr. Ég tel þessa stefnu, sem í frv. felst, vera skynsamlegri og eðlilegri en hina, sem n. hafði lagt til. Ég tel skynsamlegra að rétta íslenzkum iðnaði fyrst og fremst hjálparhönd á þann hátt að lækka tolla á því efni, sem hann vinnur úr, en síður á hinn, að hækka tolla á erlendum vörum sem verndartolla fyrir iðnaðinn, a.m.k. ef hægt er að ná sama árangri í báðum tilfellum. Hér er þó þess að geta, að ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að ganga eins langt í lækkunarátt og n. hafði lagt til, þ.e.a.s. lækkar lækkunartill. um 3 millj. kr. Ég hefði talið æskilegra, að gengið yrði nær lækkunartill. n., þó að hækkunartill. yrðu felldar niður, en hér verður auðvitað að meta fjárhagsaðstæður ríkissjóðs, þ.e.a.s. það, hversu miklum tekjumissi hann er talinn munu mega verða fyrir. En það vildi undirstrika, að þessa stefnu tel ég í sjálfu sér eðlilegri, miðað við sama árangur, heldur en hina, að taka upp eða auka beina tollvernd.

Ég vil þó í þessu sambandi vekja athygli á þýðingu söluskattsins fyrir iðnaðinn og í sambandi við tollheimtuna, en hann er sem kunnugt er innheimtur með tolli á innfluttum vörum. Sannleikurinn er nefnilega sá, að söluskatturinn verkar mjög illa á lágtollaðar vörur og hefur þar af leiðandi komið illa við iðnaðinn, að svo miklu leyti sem hráefni hans hafa verið lágtolluð, og kemur til með að koma enn þá verr við hann eftir samþykkt þessa frv. vegna þess, hve mikið af hráefnum til iðnaðar verður nú alveg tolllaust eða fer niður í lágan tollflokk. En það er auðséð, að söluskatturinn, sem er innheimtur með sömu prósenttölu á tollverð allrar vöru, hvort sem hún er tolllaus, í lágum tollflokki eða háum tollflokki, kemur auðvitað tiltölulega þyngra niður á tollfrjálsu og tolllágu vöruna heldur en hina, þ.e.a.s. hækkar það verð, sem innflytjandinn verður að greiða, tiltölulega miklu meira á tolllausu eða tolllágu vörunni heldur en á hinni tollháu. Þetta getur orðið ljóst með afar einföldum dæmum, sem ég sæki í hið ýtarlega nál. tollamálanefndarinnar.

Ef við hugsum okkur 100 kr. innflutning af tollfrjálsu hráefni, þá er söluskatturinn af því 7.70 kr. Ef á þessu hráefni er 2% verðtollur að viðbættum 45% tollviðauka, sem yrði mjög algengur tollflokkur, ef þetta frv. yrði samþ., þá verður aðflutningsgjaldið að viðbættum söluskatti 10.82 kr. Ef aftur á móti söluskatturinn yrði felldur niður, en viðaukinn hækkaður úr 45% upp í 75%, þá kemur enginn söluskattur á hráefnið, þ.e. lækkar úr 7.70 kr. ofan í núll, en á lágtollaða hráefninu, sem er með 2% tolli, lækka gjöldin úr 10.82 kr. ofan í 3.50 kr. Þ.e.a.s.: sú breyting að fella söluskattinn niður, en taka upp hina stefnuna í staðinn, að hækka tollviðaukann úr 45% í 75%, mundi þýða rúmlega 7 kr. aðflutningsgjaldalækkun á hið lágtollaða hráefni.

Dæmi fyrir fullunna iðnaðarvöru lítur aftur á móti svona út: Ef við tökum fyrst dæmi um vöru, sem er í 30% tolli, og miðum þá við það, að söluskattinum sé haldið og 45% viðaukanum, þá verða aðflutningsgjöldin á vöru, sem kostar 100 kr. í innkaupi, 54.55 kr. En ef breytt yrði aftur á móti til og söluskatturinn felldur alveg niður, en tollviðaukinn hækkaður úr 45% í 75%, þá mundu aðflutningsgjöldin lækka á þessari vöru úr 54.55 kr. ofan í 52.50 kr. 30% tollur er afar algengur tollflokkur. Ef söluskattur yrði felldur niður; en í staðinn viðaukinn hækkaður úr 45% í 75%, þá mundi vara, sem væri í þessum algenga tollflokki, lækka hvað snertir aðflutningsgjöld um um það bil 2 kr. Ef við aftur á móti tökum vöru í hærri tollflokki, þ.e.a.s. vöru, sem telja má frekar til óhófsvarnings, vöru í 50% tolli, þá verða aðflutningsgjöldin af henni með söluskatti og 45% viðauka 85.78 kr., en verði söluskatturinn felldur niður og viðaukinn hækkaður upp í 75%, þá verða aðflutningsgjöldin 87.50 kr., þ.e.a.s. hækka um tæpar 2 kr.

Ef þannig yrði farið að, að söluskatturinn yrði felldur niður og viðaukinn hækkaður í staðinn, þá mundu gjöldin lækka á tollfrjálsum vörum og á vörum, sem eru yfirleitt upp í 30% verðtoll. Hins vegar mundu þær vörur hækka, sem eru fyrir ofan 30% verðtoll.

Ég fékk þær upplýsingar hjá n., að hún hefði ekki reynt að gera sér grein fyrir því, hvort hækkun úr 45% í 75% á tollviðaukanum mundi duga til þess að jafna þann tekjumissi, sem hlytist af niðurfellingu söluskattsins. Ég efast um, að svo sé. En engu að síður eru meginatriðin alveg ljós. Það væri miklu skynsamlegri leið að hækka tollviðaukann og fella söluskattinn niður heldur en að halda söluskattinum og þessum 45% tollviðauka, því að höfuðgallinn á söluskattinum er auðvitað sá, að hann kemur jafnþungt á allar vörur, jafnvel þó að þær séu tollfrjálsar og hver svo sem tollupphæðin er. Nú, þegar verið er að gera ráðstafanir til þess að bæta hag innlends iðnaðar með því að lækka tolla á hrávörum hans og jafnvel fella þá alveg niður, þá er auðvitað mjög óeðlilegt að halda söluskattinum í sömu prósenttölu á allar vörur, hvort sem þær eru tolllausar, lágtollaðar eða hátollaðar. Þegar söluskatturinn var tekinn upp, var hann því í raun og veru þungur skattur á alla lágtollaða vöru og þar á meðal hráefni til iðnaðarins. Þess vegna er það, sem hér er í raun og veru að ske, í sjálfu sér ekkert annað en að ríkisvaldið er að bæta fyrir þann órétt, sem það gerði íslenzkum iðnaði og öllum notendum lágtollaðrar vöru með því að lögleiða söluskattinn.

Ég gat ekki fengið upplýsingar um það í skjótu bragði og líklega erfitt að fá þær, hversu söluskattur hefur numið miklu á hráefnum til iðnaðar. En það mætti segja mér, að það skiptí milljónum. Hér er verið að lækka tollgreiðslur á hráefnum til iðnaðar um 5 millj., svo að segja má ef til vill, að hér sé ekkert annað að gerast en að létta aftur af iðnaðinum því gjaldi, sem á hann var lagt með lögleiðingu söluskattsins. Vil ég þó ekki fullyrða, að söluskatturinn hafi verið svona mikill En að talsverðu leyti er hér áreiðanlega um það að ræða að endurgreiða íslenzkum iðnaði þá skuld, sem til var stofnað við hann með lögleiðingu söluskattsins. Næsta verkefni, sem fram undan er á þessu sviði, tel ég því hiklaust vera það að endurskoða löggjöfina um söluskatt, þannig að haldið verði á því sviði áfram á sömu braut og verið er á í þessu frv., að létta söluskattinum a.m.k. af þeim vörum, sem eru tollfrjálsar, og helzt að breyta honum líka þannig, að hann verki eins og tollarnir almennt, þ.e.a.s. stighækkandi eftir notkun og eðli vörunnar.

Þá er þess og að geta, að bátagjaldeyriskerfið hefur komið þungt við iðnaðinn að ýmsu leyti, og á hann það líka hjá hæstv. ríkisstj. að endurskoða bátagjaldeyriskerfið þannig, að það verði ekki til þess að íþyngja iðnaðarstarfseminni. En segja má, að það sé óskylt því máli, sem hér er um að ræða, og skal ég því ekki orðlengja um það.

Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. á þskj. 639. Önnur er um það að lækka tolla af efni í spenna, en þessi tolllækkun mundi nema um það bil 300–400 kr. á hvern spenni. Nú eru á döfinni miklar fyrirætlanir um rafvæðingu landsins, sem allt gott er um að segja, og mun því verða og er raunar nú þegar mikil þörf fyrir þau rafmagnstæki, sem hér er um að ræða. Það væri vissulega í samræmi við þá heildarstefnu, sem uppi er í málinu að öðru leyti, að gera þessum aðilum, sem þessi tæki þurfa að nota, sem auðveldast að nota þau og tolla þau ekki hærra en hér er lagt til, þ.e.a.s. með 2% verðtolli. — Enn fremur hef ég lagt til, að heimilað verði að endurgreiða verksmiðjum, sem framleiða rafmagnstæki, aðflutningsgjöld af efnivörum til þeirra eða hlutum af þeim. Rafmagnstækjaiðnaðurinn er ein af þeim iðngreinum, sem risið hafa upp á síðari árum og sýnt hafa einna mesta og bezta samkeppnishæfni við erlenda framleiðslu, og hefur þó ekki notið sérstakrar verndar. En það væri vissulega eðlilegt, að heimilt væri að endurgreiða aðflutningsgjöld af þeim tækjum eða hlutum af þeim, sem þessi iðnaður notar til framleiðslu sinnar, vegna þess að hann starfar að verulegu leyti þannig, að um samsetningu er að ræða.

Að síðustu vildi ég minnast örfáum orðum á eina breytingu, sem þetta frv. tók í Ed., en þar var samþ. till. um að hækka verðtoll á gúmmískófatnaði úr 15% í 25%. Í sambandi við það er þess að geta, að umræddur skófatnaður er alls ekki framleiddur hér á landi, svo að sú röksemd getur ekki verið fyrir hendi, að þessi tollhækkun sé til þess að vernda innlenda skóframleiðslu, enda er meginstefna frv. sú að liðsinna iðnaðinum alls ekki á þann hátt að auka tollvernd í formi hækkaðra tolla, heldur — eins og ég sagði áðan — á hinn mátann, að lækka gjöld á hráefnum til hans. En hér er auk þess alls ekki um það að ræða, að varan sé framleidd hér á landi, því að gúmmískófatnaður er ekki framleiddur hér, heldur einvörðungu leðurskófatnaður. Ef þetta ákvæði fær að vera kyrrt í frv., yrði afleiðing þess einvörðungu sú, að þessi gúmmískófatnaður, sem er mjög algengur, mundi hækka í verði sem þessari tollhækkun svarar, en það er í algeru ósamræmi við alla meginstefnu frv. að öðru leyti, og ber því nauðsyn til þess, að þetta ákvæði verði fellt burt. Ég hef þó ekki að svo stöddu lagt fram brtt. um þetta, þar eð ég vona, að fjhn. eigi eftir að fjalla um málið, annaðhvort áður en þessari umr. lýkur eða þá a.m.k. milli 2. og 3. umr., og mun hreyfa því, að n. taki upp till., sem breyti þessu atriði aftur í sitt upphaflega form.