31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

178. mál, útsvör

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. tók fram, ritaði ég undir nál. með fyrirvara. Ég hef þegar í umræðunum um frv. hæstv. ríkisstj. um breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt gert grein fyrir því, hvers vegna ég hafði fyrirvara um afgreiðslu þessa máls, og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau rök hér og lengja með því þessa umr. En kjarni málsins er sá, að þótt ég viðurkenni, að hæpið geti verið að hafa niðurjöfnunarnefndir jafnóbundnar varðandi útsvarsálagningu og þær eru samkvæmt núgildandi útsvarslögum, þá tel ég á hinn bóginn ástand skattamálanna hér hjá okkur ekki vera með þeim hætti, að unnt sé eða rétt væri að stíga nokkurt spor í þá átt, að skertur sé réttur niðurjöfnunarn. til þess að hafa útsvarsálagningu eins rétta og sanngjarna og þær telja hana geta orðið frá því, sem nú er, og ég tel engan vafa á því, að niðurjöfnunarn. hafi tekizt að gera útsvarsálagningu mun réttlátari en hún mundi hafa orðið, ef lagt væri á eftir föstum skattstiga, einmitt með því að beita heimildinni til þess að leggja á skatt eftir efnum og ástæðum. Er höfuðástæðan sú, að aðstaða manna til þess að hagræða framtölum og skjóta tekjum undan skatti er mjög misjöfn og að menn hér sjást ekki fyrir í þeim efnum. Þess vegna hafa ýmsar niðurjöfnunarnefndir notað þessa heimild einmitt sem gagnráðstöfun gegn ófullnægjandi skattaframtölum, og ég tel varhugavert að stiga spor, sem mundu verða til þess að gera niðurjöfnunarnefndir meira hikandi við það að gera ráðstafanir í þá átt. Við þetta er fyrirvarinn miðaður, og mun ég af þeim sökum greiða atkvæði gegn frv.