06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

178. mál, útsvör

Haraldur Guðmundsson:

Í nál. hv. meiri hl. er tekið fram, að ég sem minni hl. muni væntanlega leggja fram sérstakt nál. Til þess hefur nú ekki unnizt tími vegna þess sérstaka hraða, sem hæstv. forseti hefur nú ákveðið á meðferð þessara skattamála.

Þær aths., sem ég hef að gera við frv., eru í stuttu máli þær, að ég tel, að fella beri niður 2. gr. frv., sem mælír svo fyrir, að birtar skuli ákveðnar reglur um álagningu útsvaranna og þar settur fastákveðinn skattstigi. Ef þessi gr. frv. er samþ., mundi af því leiða, að skattaframtölin væru lögfest sem grundvöllur undir útsvarsálagningu, allri annarri en þeirri, sem tekin yrði sem veltuútsvar, ef svo er litið á, að helmilt sé að leggja það á sérstaklega, sem án efa mun vera talið.

Nú er svo ástatt, eins og hv. þm. er öllum kunnugt, að um margt af framtölum er þannig, að ekki er á þeim byggjandi. Það er engum kunnugra en þeim, sem starfa í skattanefndum og niðurjöfnunarnefndum, og mér er um það fullkunnugt og án efa þm. öllum, að niðurjöfnunarnefndir hafa jafnan litið svo á, að það væri þeirra að meta framtölin, hvort miða skyldi eingöngu við þau eða persónulegan kunnugleika niðurjöfnunarnefndarinnar á högum mannsins. Það hefur því ekki talizt skylt að leggja þau til grundvallar útsvarsálagningunni, heldur hnika til eftir því, sem þær hafa talið efni standa til hverju sinni.

Í 4. gr. útsvarslaganna er svo fyrir mælt, að leggja skuli á útsvar eftir efnum og ástæðum og taka tillit til margháttaðra atvíka, sem þar er greint. Ég held því, að mjög sé hæpið að samþ. 2. gr. með tilliti til þess formlega atriðis, að hún getur rekizt á þessi ákvæði 4. gr. útsvarslaganna.

Hitt er svo aðalatriðið, sem ég benti á áðan, að með því að samþ. þessa 2. gr. eru framtölin lögfestur grundvöllur undir útsvarsálagninguna, sem ekki er hægt að hagga við af niðurjöfnunarnefnd, nema því aðeins að hún beinlínis geti sannað, að framtölin séu röng.

Sú leið hefur verið farin, eins og ég benti á áðan, að niðurjöfnunarnefndir hafa hnikað til útsvörunum og ætlað þá hlutaðeigandi að kæra, ef hann teldi sig órétti beittan í útsvarsálagningunni. Ég víl fullyrða, að eins og framtölum nú er háttað, og ekki sízt eins og þau verða, eftir að framtalsskyldu er létt af svo að segja öllu sparifé í landinu, þá verða framtölin ekki á þann veg, að þau séu traustur grundvöllur fyrir útsvarsálagningu. Ég tel víst, að ýmsir gjaldendur fengju þar með lægri útsvör en ella, ef sönnunarskyldan á því, að framtölin séu röng, á að hvíla á niðurjöfnunarnefndunum.

Þegar talað er um útsvarsálagningu í þessu sambandi, verða menn að gera sér grein fyrir þeim mismun, sem er á útsvörum og tekjuskatti í þessu efni. Þó að lagður sé á einhvern gjaldanda of lágur tekjuskattur til ríkisins, þá hefur það engin áhrif á tekjuskatt annarra borgara í landinu á því sama skattári. Allt öðru máli gegnir með útsvörin. Ef óeðlilega lágt er lagt á einn gjaldanda, hlýtur það að verða til þess, að þeim mun hærra þarf að leggja á aðra gjaldendur, vegna þess að útsvarsupphæðin er ákveðin í heild og hún verður að nást. Ef einum gjaldanda tekst því með framtali sínu að skapa sér lægra útsvar en honum ber með réttu, þá verða hinir á sama gjaldári að taka á sig hærra útsvar þeirra hluta vegna.

Ég vil fullyrða það af þeim kunnugleika, sem ég hef af framtölum og vinnu skattanefnda og útsvarsniðurjöfnunarnefnda, að það sé rík ástæða til að ætla, að einmitt vegna þeirra breytinga, sem nú eru gerðar á framtalsskyldunni að því er sparifé snertir, muni auðveldast svo að búa til framtöl, sem sýni minni tekjur en réttar eru, að það, sem kann að vinnast hjá miðlungsmönnum í lækkun á skatti samkvæmt frv., geti orðið étið upp og fullkomlega það með hækkun útsvara á sömu aðilum vegna þess, hversu aðrir lækka. Ég bið hv. dm. að taka þetta vel til athugunar. Ég held, að það sé ekki kominn tími til, eins og skattalögin nú eru, að lögfesta framtölin sem grundvöll fyrir útsvarsálagningu sveitarfélaganna. Því legg ég til, að 2. gr. verði felld niður, og mun ég nú afhenda forseta brtt. þess efnis.