06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

178. mál, útsvör

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skil ekki, hvað hv. stjórnarliðar eru vondir við mig út af þessari tiltölulega meinlausu till. Hv. þm. Barð. (GíslJ) er nú kominn á það stig, að honum blöskrar mitt siðferði, að ég skuli ekki vilja taka skattframtölin, sem gefin séu út á eiðstilboð, sem alveg örugga og fullnægjandi sönnun fyrir því, að rétt sé skýrt frá tekjum og eignum. Mig furðar á þessum látalátum í hv. þm. Hann veit það jafnvel og ég, að mikill hluti þeirra manna, sem á þess nokkurn kost að fela tekjur sínar við skattframtöl, reynir að gera það eftir ýtrasta megni, og auðvitað eru ágætir endurskoðendur beztu hjálparkokkar framteljendanna í þessu efni. Þetta er sannleikur, sem hver maður veit, og sannleikur, sem er viðurkenndur í þeim skattalögum, sem hv. þm. er að berjast fyrir. Hann segir: Hvaða vit er í því, að niðurjöfnunarnefndir skuli eiga að gera sér skattstofn af væntanlegum skattsvikum? Þetta er ljóta siðferðið, segir hv. þm. Nú, ég veit ekki betur en í gildandi skattalögum, sem hann ekki vill breyta, sé beinlínis lagt fyrir skattanefndir að gera mönnum skatt, ef þeim þykir framtölin tortryggileg, og þá er það þess, sem fyrir því verður, að gera grein fyrir því, að hann sé ranglega skattlagður. Ég sé ekki, hvað þessar siðferðishugleiðingar og prédikanir hv. þm. eiga að þýða. Það er ekki til neins að setja upp helgisvip og tala um framtöl manna eins og guðspjöllin, sem ekki sé neitt hægt að vefengja á nokkurn hátt af sanntrúuðum biblíutrúarmönnum. Það er að loka augunum fyrir staðreyndum að gera slíkt.

Hin röggsamlega lagaskýring hæstv. dómsmrh. á 2. gr. frv. virtist mér nú fyrst og fremst benda á það, að hana mætti túlka og teygja mjög og að það þyrfti mjög sérstaka skýringu á henni, ef hún ætti ekki að koma í bága við 4. gr. útsvarslaganna. En hv. frsm. n. leggur áherzlu á það, að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu með það fyrir augum, ef sá hluti útsvarsins, sem er veltuútsvar, sé gerður frádráttarhæfur við skattframtal. Ég sé ekki betur en það væri hægt án þessarar breytingar. Það mætti orða þessa grein, ef hún verður felld núna, fyrir 3. umr. á þann veg, að sérstaklega skyldi gerð grein fyrir álagningu veltuútsvars, og láta að öðru leyti óbreytt standa, því að yfirleitt er birtur skattstigi hér í Reykjavík, sem er stærsti bærinn, stærsta gjaldsvæðið í landinu, — láta að öðru leyti óbreytt standa, þangað til endurskoðun útsvarslaganna fer fram, sem mér skilst á hv. þm. Barð. að sé nú alveg á næstu grösum, og jafnvel að lögleiða þá, eftir því sem hann segir, einn samfelldan skattstiga, sem síðan sé lagt á í einu lagi eftir og skipt milli sveita og bæja. Sé það virkilega ætlunin að koma með slíkt þegar á næsta hausti, þá sé ég ekki ástæðu til að flýta þessari breytingu nú. Getur það vel beðið, þangað til sú allsherjarendurskoðun á skattalöggjöfinni færi fram.