07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

178. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður mikið. Ég vil bara lýsa þeirri afstöðu minni, að ég mun ekki geta greitt þessu atkv.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að það er oft og einatt ekki hægt fyrir niðurjöfnunarnefnd, hver sem hún er eða hvar sem hún er, að gera grein fyrir því, eftir hvaða „skala“ — sem kallað er — hún leggi útsvarið á, og til þess að skýra það með dæmi, skal ég nefna það, að hér í Reykjavík eru starfandi eitthvað á milli 70 og 80 svokölluð húsfélög. Eigandi hússins, hinn raunverulegi húsbóndi, hefur með konu sinni og krökkum myndað hlutafélag um húsið, og félagið er sérstakur framteljandi. Þetta er ekki gert í neinum tilgangi öðrum en þeim að koma fjárhag sínum þannig fyrir, að eigin húsaleiga í húsinu og af því, sem leigt kann að vera út, bætíst ekki við tekjur hins raunverulega húseiganda, heldur komi þessu hlutafélagi til góða. Það er bara gert til þess að geta lækkað skatta og útsvör á húseigandanum. Mér vitanlega hefur ekki hér í Reykjavík neinum manni dottið í hug að leggja á þessi húsfélög eftir „skala“. Þau hafa alltaf verið höfð yfir „skala“, kannske aldrei nógu mikið yfir „skalann“, því að náttúrlega ætti að leggja tekjurnar við tekjur eiganda hússins, leggja saman tekjur félagsins og hins raunverulega eiganda og leggja svo eitt útsvar á og draga svo bara af því það, sem eigandanum bæri eftir „skala“, og láta svo hitt vera á húsfélaginu. En eins og verið hefur, hefur aðferðin á því verið sú að láta þau vera ofan við „skala“, og að gera grein fyrir því, hvers vegna það er gert, er ekki hægt. Sömuleiðis eru vissar stéttir manna, sem maður veit að hafa þá aðstöðu, að þeirra skattframtöl verða alltaf áætluð, hafa tekjur, sem ómögulegt er að vita, hverjar eru. Það er ævinlega bætt við tekjur þeirra, sjaldan kannske nóg, og niðurjöfnunarnefndir munu flestar ekki kinoka sér neitt við að vera þar líka fyrir ofan „skalann“. Þess vegna mun ég ekki geta greitt þessari brtt. á útsvarslögunum atkvæði.