19.03.1954
Neðri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

170. mál, almannatryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 478 er þannig til orðið, að í kjaradeilu þeirri, sem átti sér stað í vetur milli samtaka sjómanna á bátum og útvegsmanna, komu þessir deiluaðilar sér saman um það, að nokkur breyting yrði gerð í þá átt að hækka dánarbætur vegna lögskráðra sjómanna, og ríkisstj. tók það að sér að flytja þetta mál í Alþingi og beita sér fyrir því, að þetta samkomulag yrði lögfest. Hér er eingöngu að ræða um mál, er snertir þessa tvo aðila, en snertir ekki ríkissjóð neitt beint. Ég skal geta þess, að það liggja fyrir bréf, bæði frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, sem staðfesta, að þetta samkomulag hafi verið gert. Og þó að þau bréf séu ekki prentuð með hér í athugasemdum við frv., þá geta þau legið fyrir þeirri n., sem fær þetta til meðferðar, ef óskað er eftir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Það eru allgreinilegar athugasemdir, sem fylgja, og er þar skýrt frá, hvaða áhrif þetta hefur varðandi hækkun á þessum dánarbótum og hvernig það kemur út að öðru leyti. Ríkisstj. leggur að sjálfsögðu áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga á þingi því, sem nú situr.

Ég vil svo, að lokinni þessari umr., leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.