22.03.1954
Efri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það liggja fyrir brtt. frá fjhn. á þremur þingskjölum. Sú till., sem fyrst var borin fram á þskj. 353, kemur ekki til greina, þ.e.a.s., nefndin tekur hana aftur, þar sem hún hefur síðar borið fram brtt., sem tekur yfir sama efni.

Ég skal fyrst minnast á brtt. frá n. á þskj. 486, við 23. gr. frv., að aftan við 2. málsgr. bætist: Fyrir þinglestur skjala með veði í framleiðsluvörum sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar skal þó eigi greiða nema kr. 2.40 fyrir hvert þúsund umfram fyrstu 5 þúsundin. — Með öðrum orðum, að með till. er lagt til, að þinglestrargjald af þeim skjölum, sem till. fjallar um, verði það sama og verið hefur undanfarið, nema hvað stofngjaldið hækkar. Það þarf ekki að skýra tilganginn með þessu. Hann er vitanlega sá að íþyngja ekki framleiðslunni, og þó að þetta muni ekki miklu, því að þinglestrargjöldin eru minnstur hluti kostnaðarins, þá er það þó viðleitni í þá átt, — og byggist líka á því, að það munu venjulega vera víxlar, sem um er að ræða, og hér væri þá átt við þinglestur á tryggingarbréfum fyrir víxlum.

Þá er næst brtt. í tveimur liðum á þskj. 475, við 43. gr. frv., um það, hvenær lögin öðlist gildi og hvað þurfi að falla úr gildi með gildistöku þessara laga. Það er þá fyrst a-liður um gildistökuna, að lög þessi öðlist þegar gildi. Þetta byggist á því, að gert er ráð fyrir, að nokkur tekjuauki verði af þessu frv., ef að lögum verður, og ef frv. um tollskrá verður samþ. og öðlast gildi, þá lækka þegar tekjur ríkissjóðs vegna þess, og er það þá gert til þess að vega þar upp á móti, að þessi lög um aukatekjur ríkissjóðs öðlist þegar gildi. — Annars var till. sú, sem tekin er aftur, um það, að þau öðluðust gildi 1. jan. 1955.

Þá er b-liðurinn í þessari till., að bæta við ákvæðin um þau lög, sem falla úr gildi, b-lið 1. gr. í l. nr. 77 1953, en hann er um 140% viðauka á aukatekjur ríkissjóðs og á auðvitað ekki við, ef þetta frv. verður samþykkt. Þarf því að fella þann lið úr gildi.