25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Núgildandi lög um aukatekjur eru orðin mjög gömul og úrelt að öllu leyti. Það hafa nú verið settar eins konar bætur á lögin með viðaukaákvæðum. Á síðasta ári tóku menn sig til og endurskoðuðu þessa löggjöf ásamt löggjöfinni um stimpilgjald, og var þetta frv. lagt fyrir hv. Ed. í haust ásamt öðru frv. um stimpilgjöld. Hér er aðallega verið að samræma gjöldin þeim breytingum, sem orðið hafa í verðlagsmálum.

Þetta mál hefur fengið allýtarlega athugun í Ed., og hefur frv. verið breytt lítils háttar. Sé ég ekki ástæðu til að rekja, í hverju þær breytingar eru fólgnar, þar sem það hefur augljóst orðið af þskj., en ég vil leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjhn.