07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki talað neitt í þessu máli og hafði eiginlega ekki hugsað mér það. En af því að ég greiddi atkvæði á móti því við 2. umr., þá vildi ég aðeins taka það fram, að ég álít það ekki nauðsynlegt, þó að smám saman hafi verið lögleidd meiri og meiri dýrtíð á Íslandi á undanförnum árum, að sú dýrtíð sé endilega samræmd þannig, að ef það eru einhver svið til, þar sem almenningur getur komizt að ódýrum kjörum, þá sé það hækkað um leið. Það var nú einu sinni hér a.m.k. Af einum flokki í þessari hv. d. talað ákaflega mikið um það, að hann væri á móti dýrtíðinni, og síðan sá flokkur komst í ríkisstj. á Íslandi og hefur verið það síðustu sjö árin, þá hefur dýrtíðin alltaf farið sívaxandi. Ég get ekki séð, að það eigi að vera neitt „prinsip“ hjá einni ríkisstjórn, þegar illa hefur tekizt til á sumum sviðum, að bæta þá því þar ofan á að hækka endilega á almenningi það, sem eftir er og ekki hefur hækkað af sjálfu sér.

Þessa grein vildi ég gera fyrir mínu atkv. um þetta frv., eins og það hefur verið núna við 2. umr. málsins og eins og það mun verða nú. Ég álít þetta óþarfar hækkanir og alveg óeðlilegt af ríkinu að ætla að fara að nota það sem einhvern tekjustofn að leggja svo og svo mikil gjöld á menn, þegar þeir eru á einhvern hátt t.d. að leita réttar síns eða að framkvæma sinn rétt sem borgarar í þjóðfélaginu. Það er ekkert sérstaklega lýðræðislegt í því, fyrir utan hvað það er pólitískt óréttlátt að vera á þennan hátt að samræma dýrtíðina.