07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. V-Húnv. vil ég aðeins segja nokkur orð.

Ég varð dálítið undrandi, þegar hv. þm. ætlaði að fara að mæla gegn till. minni með þeim forsendum, sem hann færði þar fram. Hann veit, að í sambandi við þinglestrargjöldin, þegar um er að ræða afurðavíxla, er um hrein prósentugjöld að ræða, sem hafa með hækkandi verðlagi á afurðunum gefið ríkissjóði þá hækkun, sem hið hækkaða verðlag hefur skapað. Ég vil enn, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér úr greinargerð hv. milliþn., þar sem hún segir:

„Við breytingar þær, er nefndin hefur gert á upphæð gjaldanna, hefur hún einkum haft hliðsjón af verðbreytingum þeim, sem orðið hafa í landinu, síðan síðustu aukatekjulög voru sett 1921, fremur en upphæð þeirra nú, eftir þær hlutfallshækkanir, er Alþingi hefur samþykkt. Hækkanir þessar eru lagðar jafnt á fastákveðin gjöld og „prósentu“-gjöld og skapa því misræmi“, — ég vil biðja hv. þm. V-Húnv. að hlusta á þetta, — „þar sem gjaldstofn „prósentu“-gjaldanna hefur hækkað með hækkandi verðlagi. Samkvæmt framansögðu leggur nefndin til, að fastagjöld hækki all verulega, en „prósentu“-gjöldin lækki.“

Þó að hv. milliþn. hafi orðið það á að gera till. um óeðlilega hækkun á þinglestrargjöldunum, þá eru það mistök, sem við þm. hljótum að ráða bót á með því að færa þau til rétts vegar aftur.

Ég vil aðeins tilgreina, að í mínum útreikningum hef ég aðallega tekið tvö ár til samanburðar, þ.e. árið 1934, þegar kjötsölulögin gengu í gildi, og svo aftur s.l. ár, 1953. Ég vil taka hér dæmi til að sýna hv. þm. V-Húnv. fram á, að ég hafi ekki farið hér með staðlausa stafi. Ef Sláturfélag Suðurlands hefði þurft að fá afurðalán út á 100 smál. af dilkakjöti 1934, hefði það borgað 117 kr. í þinglestrargjald af tryggingarbréfinu. Ef þetta sama fyrirtæki hefði fengið afurðalán á s.l. hausti, þá hefði það orðið að borga í þinglestrargjald af þessum sama kjötþunga 8170 kr., eftir því sem hv. milliþn. gerir till. um í frv. sínu. Ég benti á þetta í ræðu minni í gær, að hér væri um að ræða 70-falt gjald við það, sem greitt var 1934 af þessu sama magni af kjöti. Ég held því, að það sé algerlega rangt hjá hv. þm. V-Húnv., að ég hafi farið hér með annað en það, sem er rétt. Sömuleiðis hef ég bent á, að með því að fara með þinglestrargjaldið, eftir að frumgjaldið er reiknað eins og frv. gerir ráð fyrir, niður í kr. 1.10 af þúsundi, þá hefur þinglestrargjaldið samt sem áður nær 16-faldazt við það, sem það var 1934. Ég held, að jafnreikningsglöggur maður og hv. þm. V-Húnv. er muni, þegar hann athugar þetta nánar, komast að sömu raun og ég.