07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Skúli Guðmundsson:

Ég verð að segja það, að mér þykja ákaflega einkennilegar þessar bolíaleggingar hv. þm. Snæf. Það liggur í augum uppi og ætti flestum að vera ljóst, að stimpilgjöld og þinglýsingargjöld, sem miðuð eru við verðupphæðir einhverra skjala, hljóta að breytast vitanlega eftir þeim upphæðum, sem þar er um að ræða, og þeim breytingum, sem þær taka. Það gefur að skilja, að ef einhver vara margfaldast í verði og það er reiknað „prósentu“-gjald eða „promille“-gjald, þá vitanlega hækkar það að sama skapi; það er ósköp eðlilegt, og allir útreikningar hans um 70-falt þinglýsingargjald frá því 1934 eru náttúrlega — ja, ég sagði nú áðan, að þetta væri misskilningur hjá honum, ég fer nú að halda, að þetta sé nú flutt jafnvel í blekkingarskyni. Hv. þm. gæti alveg eins haldið því fram, að vextirnir hér á landi hefðu margfaldazt, þó að vaxtaprósentan sé óbreytt, bara fyrir það, að menn þurfa nú, vegna þess að gildi peninganna hefur breytzt, að reikna með hærri tölum, þeir fá hærri upphæðir að láni en áður var og borga þar af leiðandi hærri upphæðir í vexti, en ekkert meira miðað við hvert þúsund, sem þeir taka að láni. Svona málflutningur hlýtur að dæma sig sjálfur hjá hv. þm. Ef hann t.d. þarf nú að fá 10 sinnum hærra lán og fær það út á fisk heldur en hann fékk fyrir stríð, þá gæti hann með þessum aðferðum sínum haldið því fram, að vextirnir hefðu 10-faldast hjá bönkunum síðan. Þetta er vitanlega fjarri öllum sanni, og menn standa engu verr að vígi að borga 2.40 kr. af hverju þúsundi nú heldur en 1934. Þetta breytist vitanlega með verðupphæðunum. Eins og ég sýndi fram á, er eftir frv. ekkert meira borgað af hverju þúsundi fyrir þinglýsingu á þessum skjölum nú heldur en var 1951 og síðan, það er ábreytt, og þessu hefur hv. þm. ekki mótmælt, en kemur í þess stað með þessa fáránlegu útreikninga sína.