07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst, að sú hækkun, sem lagt er til, að hér sé framkvæmd, sé alveg undarlega mikil í sumum tilfellum. Viðvíkjandi þeim gjöldum, sem tekin eru, þegar menn eru að leita réttar sins fyrir dómstólum, þá er víðast hvar hækkun, þannig að ýmist er tvöfaldað eða allt að því fjórfaldað frá 1951 það, sem menn verða að borga. Ég verð nú að segja það, að eftir mínum kunnugleik á réttarfarsreglum er þetta þveröfugt við allt, sem barizt hefur verið fyrir í lýðræðisþjóðfélagi. Venjan er hvað réttarfar snertir, að menn beiti sér fyrir því í lýðræðislegum þjóðfélögum, að það sé sem allra mest næstum því ókeypis fyrir menn að geta náð sínum rétti, og ég vil bara vekja athygli hv. þm. á því, hvernig ástandið er fyrir almenning viðvíkjandi því að ná fram þessum rétti sínum. Það er ekki bara það, að lög frá Alþingi séu, ekki sízt þegar þau eru undirbúin af ríkisstj., svo óskýr, svo illa frá þeim gengið, svo flókin og svo margbrotin, ef þau hafa ekki verið löguð stórkostlega í nefndum þingsins, að það sé helzt ekki fyrir neina nema lögfræðinga að skilja þau, því næst það, að menn þurfi venjulega að fara til tiltölulega dýrra lögfræðinga til þess að ná rétti sínum, en ríkið sjálft hefur enga lögfræðinga, sem eru á launum hjá því til þess að leiðbeina almenningi, og svo í þriðja lagi allur sá seinagangur og hann dýr, sem er út af sjálfum réttarfarsreglunum og hjá dómstólunum. Það er áreiðanlega fjöldi manna í þjóðfélaginu, sem leggur ekki út í það að reyna að ná rétti sínum í hinum og þessum málum bara vegna þess, hvað það er illkleift og hvað það er dýrt. Og allt, sem hér er gert í þessum till., miðar að því að gera almenningi þetta enn þá erfiðara, enn þá dýrara. Ég skal taka bara sem dæmi: Fyrir héraðsdómi var fyrirtekt máls samkv. gjaldskrá 1951 48 kr.; nú mun hún verða 100 kr. eftir frv. Menn geta séð þetta í fylgiskjalinu, sem fylgir með þessu frv. Það er sem sé tvöfaldað. Hver vitnaleiðsla í sambandi við slík mál er þrefölduð, úr 4.80 kr. upp í 15 kr., og allt er þetta þrefaldað frá 1951, þ.e. frá því eftir að gengislækkunin er gerð, en ef miðað er við t.d. laun hjá verkamönnum, hefur verið reynt að halda þeim niðri allan þennan tíma og verið barizt á móti því og af ríkisstj. hálfu verið sagt alltaf hreint: Ja, við verðum heldur að reyna að lækka dýrtíðina, það dugir ekkert að vera að hækka kaupið, ekki hækka í aurum kaupið umfram allt. Nei, við skulum lækka dýrtíðina. Svo kemur hér hæstv. ríkisstj. og leggur til: Við skulum þrefalda það, sem borgarinn í þjóðfélaginu á að borga, ef hann ætlar að leita réttar síns. — Ég skil þetta náttúrlega sem beina uppörvun til þess, að verkamenn sjái til þess, næst þegar lagt er út í vinnudeilur, að það sé ekki verið að takmarka sig við að reyna að slást við einhverja dýrtið, heldur sé þetta hérna áskorun frá Alþingi um, að menn beiti sér fyrir því að hækka krónutöluna.

Kærugjald hækkar nú úr 30 kr. upp í 100 kr. Fyrirtekt máls í hæstarétti úr 50 kr. upp í 200 kr. Það er alls staðar sama reglan. Og hverjir eru það, sem undirbúa þetta frv. í hendur ríkisstj.? Jú, það eru nokkrir sýslumenn í landinu, sem undirbúa þetta. Og hvaða hagsmuna hafa sýslumennirnir að gæta í þessu sambandi? Jú, sýslumennirnir fá sínar prósentur, því hærri, því meira sem þetta er hækkað. Eftir ríkisreikningunum frá 1950 eða 1951 býst ég við, að þeir hafi haft sínar 100–200 þús. kr. í gjöld af innheimtu á tekjum ríkissjóðs. Það mun hækka a.m.k. alltaf eitthvað pínulítið með því að hækka þetta hérna allt saman. Nú, það, sem sýslumennirnir gera, býst ég við að öðrum finnist þá eðlilegt og feti í sömu fótspor.

Ef menn athuga í þessu fylgiskjali IV. kaflann, uppboðin og annað slíkt, þá er alls staðar ferföldun svo að segja á því, sem þar er. Hvert notarial-vottorð, sem menn þurfa að fá út af öll mögulegu, hefur kostað eftir gjaldskránni frá 1951 10.80 kr. Nú á það að hækka upp í 50 kr., það er ferföldun. Svona mætti halda áfram í það endalausa.

Í VII. kaflanum eru sveinsbréf og öll möguleg skírteini, sem verkamenn þurfa að fá. Sveinsbréf, sem kostar 1951 18.10 kr., á að fara upp í 100 kr. Ef menn ætla að verða undirvélstjórar á skipi, þá hækkar það, ef það er 600 hestafla mótorvél, úr 17 kr. upp í 150 kr. Ef menn ætla að verða aðstoðarvélstjórar, þá hækkar skírteinið úr 22 kr. upp í 150 kr. Ef menn eru atvinnuflugmenn, þá hækkar gjaldskráin frá 1951 úr 24 kr. upp í 200 kr. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi, ef það á að fara að hækka þannig skattlagninguna á þeim mönnum, sem stunda ýmsa atvinnu í landinu, en þeir taki það sem eina uppörvunina til þess að vera dálítið skörulegri í því að hækka sitt kaupgjald heldur en þeir voru seinast. Nú, Alþingi um það, það er hægari eftirleikurinn fyrir aðra. En þetta eru aðeins hlutir, sem ég vildi benda á. Ég hef greitt atkvæði á móti þessu frv., eins og það hefur verið. Ég er fylgjandi till., sem að einhverju leyti gætu lagað það, en ég álít yfirleitt ólýðræðislegt, ópraktískt og óviturlegt af ríkinu að koma þessu í gegn.