31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs áðan, þá hafði ég ekki veitt því athygli, að hæstv. viðskmrh. var hér í deildinni. Nú hefur hann flutt sitt mál síðan og tekið ýmislegt fram af því, sem ég vildi sagt hafa, og get ég því vel stytt mál mitt.

Hv. 2. landsk. þm. (BrB) vék að því, að áður hefði það verið venja jafnan, þegar ríkið hefði þurft að taka lán til eins eða annars, að leita sérstakrar heimildar hjá Alþingi til hverrar lántöku, og er rétt, að þetta er sú gamla regla. Hún mun þó ekki vera í samræmi við það, sem venja er hjá öðrum þjóðum um þess háttar, nema um eitthvað stórkostlegt sé að ræða. En þetta atriði málsins var nægilega rætt og skýrt, þegar frv. um Framkvæmdabankann, sem varð að lögum, var rætt á sínum tíma, að tilgangurinn með Framkvæmdabankanum var m.a. og ekki hvað sízt sá, að hann tæki við því verkefni að ganga á milli með erlendar lántökur, þannig að hann tæki lánin og lánaði aftur ríkinu eftir atvikum.

Það er rétt, að í frv. um Framkvæmdabankann var í fyrstu ákvæði um það, að ríkið ábyrgðist fyrir hann 100 millj. kr. sem fasta ábyrgð. Þetta mætti nokkrum andróðri og var lækkað ofan í 80 millj. kr. Nú þykir hv. 2. landsk. þm. hér vera stigið stórt skref að hækka þetta upp í 175 millj. kr. En eins og hæstv. viðskmrh. benti á, þá er vitað, að þetta er ætlað til ákveðinna framkvæmda samkvæmt þeim fyrirheitum, sem núverandi ríkisstj. hefur gefið. Það er því ákaflega skylt, hvað þetta snertir, að samþykkja þetta frv. og að samþykkja sérstaka ábyrgð fyrir hvert af þessum fyrirtækjum, þannig að það eru ekki líkur til þess, að ríkið taki neitt þyngri ábyrgð á sig, þó að þetta frv. verði samþ., heldur en þó að það samþykkti fleiri lög um ábyrgðir til ákveðinna framkvæmda.

En þá var önnur röksemd hv. þm. sú, að Framkvæmdabankinn tæki eðlilega „provision“ af þeim lánum, sem hann útvegaði, og þannig leiddi af þessu nokkurn aukakostnað fram yfir það, sem vera þyrfti. Ég skal ekki alveg fullyrða um það, nema kostnaður eða „provision“ sú, sem Framkvæmdabankinn tekur, kynni að verða nokkru meiri en sá kostnaður, sem mundi leiða af því, að ríkisstj. væri að leita eftir hverju láni fyrir sig í útlöndum, en sannanir eru engar fyrir um það. Og það býst ég við að hv. 2. landsk. þm. viti, að þess konar verður ekki gert og hefur aldrei verið gert kostnaðarlaust, og þar af leiðandi mun hér ekki miklu muna. En miklu virðist það eðlilegra, að stofnun í landinu, sem er ekki beinlínis ríkisstjórnin, annist slíkt og ríkisstjórn Íslands geti þannig snúið sér til þessarar stofnunar, heldur en að hún sé úti um öll lönd, ríkisstj. sjálf eða hennar sendimenn, að leita fyrir sér um lán til eins og annars. Ég er auðvitað ekki kunnugur um heiminn utan Íslands, en þó hygg ég, að þetta sé hvergi síður. Ég held, að þess konar þyki ekki vera verksvið ríkisstjórna, nema þegar um mjög stórvægilegar framkvæmdir er að ræða ellegar það snertir að öðru leyti samband fleiri ríkja, t.d. eins og hernaðaraðstoð og annað slíkt.

Mér þótti rétt að koma með þessar athugasemdir nú, sökum þess að ég stóð nokkuð fyrir svörum hér í hv. d., þegar lögin um Framkvæmdabankann voru sett, og ég var út af fyrir sig á móti því að lækka þá almennu ábyrgðarheimild úr 100 millj. í 80 millj., þó að ég ynni það til sætta í málinu að samþykkja það að lokum.