31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það verður nú ekki langt mál, sem ég ætla að segja, en það er dálítið einkennilegt, þegar hv. síðasti ræðumaður var að vitna í Jón Árnason, að hann hefði mótmælt frv. um Framkvæmdabankann á sínum tíma, að hann skuli færa það fram sem sérstök rök í þessu máli. Það hefur ekki verið þannig, þótt margt gott megi segja um Jón Árnason og flest ágætt, að þessi hv. þm. eða hans flokksbræður hafi talið þá fjármálapólitík, sem sá hv. bankastjóri vill reka, þá réttu. Það er þá fyrst núna, sem það kemur fram, að hann og hans flokksbræður vilja taka til greina það, sem sá mæti maður vill í fjármálum þjóðarinnar.

Hv. ræðumaður endaði með því að spyrja, hvernig stæði á því, að það þyrfti að kosta upp undir 2 millj. kr. að taka 175 millj. kr. lán. Þá er það meira en 1%, því að væri um 1% að ræða, þá er það 1 millj. 750 þús. kr. (Gripið fram í.) Nú, við skulum segja, að það væri tekið 1% lántökugjald, sem gengi til Framkvæmdabankans. Hvað skyldi vera gert við þessa peninga, sem Framkvæmdabankinn fær? Skyldu þeir vera settir í eyðslu, eða skyldi það fara í sjóð bankans og gera bankanum síðar meir mögulegt að inna af hendi það hlutverk, sem honum er ætlað, að lána til margs konar nauðsynlegra framkvæmda í landinu?

Ég er alveg sannfærður um, að það getur ekki kostað 1% að taka þetta lán. Það kostar ekki 1/2%. Það mundi sennilega ekki kosta meira en 1/4%. Ég tel eigi að síður engan skaða vera fyrir hendi, þótt Framkvæmdabankinn taki 1% lántökugjald, vegna þess að þeir peningar, sem bankinn fær þannig til ráðstöfunar í varasjóð, verða notaðir til hinna gagnlegustu hluta í landinu.

Hv. þm. sagði, að ég hefði haldið því fram áðan, að dr. Benjamín Eiríksson væri einn af hæfustu mönnum landsins til þess áð útvega lán og fara með fjármál á þessu sviði. Ég býst við, að ég hafi sagt þetta hér áðan, og ef einhver vafi leikur á því, þá gæti ég til þægðar við þennan ræðumann endurtekið það, og það er vitanlega nauðsynlegt fyrir stofnun eins og Framkvæmdabankann að hafa nýtan fjármálamann í starfi, sem hefur ekki aðeins það hlutverk að útvega lán erlendis, heldur einnig að gera tillögur um það, á hvern hátt sé skynsamlegast að nota það fjármagn, sem bankinn hefur yfir að ráða.

Ég vil spyrja þennan hv. þm., um leið og hann mælir gegn þessu frv. og talar um, að það sé óvarlegt fyrir Alþingi að samþ. svona háa lánsheimild, hvort hann eða hans flokkur sé á móti þeim framkvæmdum, sem ætlað er að hrinda í framkvæmd með því fé, sem á að taka að láni samkv. þessum lögum. Ef þessum hv. þm. vex í augum sú fjárhæð, sem hér er talað um, þá hlýtur hann og hans flokkur að vera á móti þessum fyrirhuguðu framkvæmdum, því að hann veit, að það er ekki til hér í landinu fjármagn til þess að koma þessum framkvæmdum af stað og ljúka þeim nema með lántökum. Hann veit, að sementsverksmiðja af þeirri stærð, sem hér er fyrirhuguð, kostar 70–80 millj. og að það er útilokað, að við getum byggt hana nema taka erlendis 40–50 millj. kr. að láni. Hann veit líka, að við getum ekki uppfyllt þau loforð, sem gefin hafa verið í raforkumálunum, nema taka að einhverju leyti lán erlendis fyrir vélum og efni, eins og tíðkazt hefur áður, þegar ráðizt hefur verið í miklar og fjárfrekar raforkuframkvæmdir hér. Ef hv. þm. er á móti því að gefa ríkisstj. heimild til lántöku á þessari upphæð, þá er hann á móti þessum framkvæmdum, og það er ágætt að fá að heyra það hér í dag, að hv. þm. er á móti sementsverksmiðjunni, að hann er á móti því, að rafmagn komi út um sveitir og byggðir landsins, að hann er á móti því að virkja ýmis fallvötn í landinu. En það er nú ekki þetta, sem ég hef haldið um þennan hv. þm., en það kom svo greinilega fram hér í ræðu hans áðan, að það verður ekki um villzt. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira.