05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér hefði nú þótt hlýða, að hæstv. fjmrh. hefði látið nokkur orð fylgja þessari breyt. á lögunum um Framkvæmdabankann um að hækka heimildina viðvíkjandi þeim rétti, sem ríkisstj. hefur til þess að taka lán í gegnum hann, úr 80 millj. upp í 175 millj. Það hefði ekki verið óviðkunnanlegt, þó að okkur hefði verið gerð nokkur grein fyrir, af hverju Framkvæmdabankanum sérstaklega er falið að annast þetta og hvaða sérstakar ástæður eru til þess, að það sé álitið, að hann hafi betri möguleika á því heldur en ríkisstj. sjálf beint, en ég þarf nú ekki að svo komnu máli að fara að ræða það sérstaklega. Það getur nú verið, að hæstv. fjmrh. sjái ástæðu til þess að skýra okkur nokkru nánar frá þessu síðar.

En það er eitt atriði, sem ég vildi gera að umræðuefni í sambandi við þær lánsútveganir, sem Framkvæmdabankinn hefur með að gera, og það er, hvað bankinn komi til með að taka fyrir þetta, og ég vildi leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. ríkisstj., hvað hugmyndin sé að greiða Framkvæmdabankanum fyrir sitt starf við svona lánsútveganir. Ég spyr að þessu vegna þess, að nýlega höfðum við þá reynslu í sambandi við eitt fyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurbæjar, þ.e. Sogsvirkjunina, að Framkvæmdabankinn tók fyrir að annast lán og líka í sambandi við að annast framlengingu á láni 1% í lántökugjald, og hafði satt að segja ekki verið búizt við því, að það væri meiningin af hálfu ríkisins að skattleggja þannig opinber fyrirtæki að heimta slíkt lántökugjald af þeim, eins og tekið er, þegar útvegaðir eru máske smávíxlar eða settir „remboursar“ eða eitthvað annað slíkt. Í reikningum Sogsvirkjunarinnar er gerð grein fyrir þessu. Það er út af því, að það eina, sem raunverulega fór þar fram úr áætlun, voru vextirnir, og þegar búið er að ræða um þá, þá segir: „Að öðru leyti er hér um að ræða lántökugjald til Framkvæmdabankans, 650 þús. kr., sem ekki var fyrirsjáanlegt, þegar áætlunin var gerð.“ Þessar 650 þús. kr. eru 1% lántökugjald, sem Framkvæmdabankinn tekur fyrir sumpart að framlengja, sumpart að útvega lán hér innanlands til Sogsvirkjunarinnar. Ég verð að segja það, að þó að Framkvæmdabankinn hafi í ákveðinni lagagrein heimild til þess að taka allt að 1% lántökugjald, þá hef ég ekki skilið það svo, að það ætti að taka þetta almennt af opinberum fyrirtækjum. Það kunna kannske einhverjir að segja, að þetta muni ekki sérstaklega miklu, þegar um sé að ræða kannske lántöku upp á 60–70 millj., en það munar um þetta fé, og það þykir a.m.k. muna um það, þegar menn eiga í deilu t.d. við verkamenn. 650 þús. kr. fyrir þetta litla handtak, sem Framkvæmdabankinn þarna gerir, samsvarar vinnu upp undir það hundrað verkamanna í tvo mánuði, og ég get nú varla betur séð en að eitt einasta svona lántökugjald hljóti að fara alllangt með að borga allan árlegan kostnað Framkvæmdabankans. En hins vegar finnst mér það ekki — eins og ég hef minnzt á áður — neitt sérstaklega skynsamlegt af ríkinu að fara að gera það að mikilli uppistöðu í tekjuöflun að skattleggja sjálft sig, þannig að ég get ekki heldur séð, að það sé rétt frá því sjónarmiði, að þau opinberu fyrirtæki taki svona gífurleg lántökugjöld af því opinbera. Ég þykist að vísu vita, að ef það er ríkisstj. ein, sem í hlut á, þá leyfi Framkvæmdabankinn sér ekki svona okur í sambandi við lántökugjald, en ég vil taka það fram, að þó að ríkið sé að taka lán til sementsverksmiðju eða ríkið og Reykjavíkurbær taki lán til Sogsvirkjunar, þá er þar enginn gífurlegur munur á, a.m.k. finnst mér ekki, að Reykjavíkurbær eigi alveg sérstaklega að gjalda þess, þó að hann sé með ríkinu í slíku fyrirtæki.

Ég vildi þess vegna í fyrsta lagi biðja hæstv. ríkisstj. um að segja okkur, hvað hún hefur hugsað sér viðvíkjandi því, hvaða lántökugjald Framkvæmdabankinn taki fyrir útvegun á því láni, sem hér liggur fyrir. Svo vildi ég í öðru lagi gjarnan heyra skoðun hæstvirtra ráðh. um það, hvort þeim finnst það rétt, að Framkvæmdabankinn taki svona gífurleg lántökugjöld af opinberum fyrirtækjum. Ég álit, að það hafi ekki verið tilgangurinn, þegar lögin um Framkvæmdabankann voru samþ., að þessi lagagr. væri hagnýtt svona, og ég álít, að það geti bókstaflega ekki gengið. Ég held, að það verði frekar að halda aftur af bönkunum í okkar landi með, hvað þeir leyfa sér í þessu, heldur en að uppörva þá til þess. Mér þætti þess vegna mjög vænt um að heyra skoðun hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi þessu og enn þá frekar, ef hún vildi eitthvað gera í því, að svona freklega yrði ekki farið í sakirnar framvegis.