07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Viðvíkjandi því, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði um, að ekki væri hækkað það almenna lán til Framkvæmdabankans, heldur ætti nú að leita hærra láns viðvíkjandi sementsverksmiðjunni og því, þá tek ég það náttúrlega alveg gott og gilt.

Viðvíkjandi hinu spursmálinu, um lántökugjaldið, þá upplýsti ég það í gær og það er í reikningum Sogsvirkjunarinnar, að það er 1% eða 650 þús. kr. Viðvíkjandi vöxtunum er það rétt, að það kom fram mjög mikil óánægja hjá Sogsvirkjunarstjórninni út af þeim háu vöxtum, sem hún átti að greiða, og það var kannske ekki alveg eins harðvítugt og átti að vera í upphafi, en það var samt sem áður það harðvitugt, að þær 9 millj. kr., sem Sogsvirkjunin verður að greiða af lánunum meðan á byggingunni stendur, eru eini liðurinn, sem fer fram úr áætlununum, þ.e., í staðinn fyrir rúmar 3 millj. til vaxta verður að greiða 9 millj. kr. og í staðinn fyrir 100 þús. kr., sem reiknað var sem lántökugjald, verður að greiða alls upp undir 1 millj. kr., og þar af eru 650 þús. til Framkvæmdabankans. Það er því engum efa bundið, að þetta er margfalt miklu meira en nokkrir menn höfðu yfirleitt búizt við. Þá kemur að þessari spurningu: Er praktískt, að ríkisfyrirtækin, þegar þau eru að koma upp svona fyrirtækjum eins og Sogsvirkjuninni, eins og raforkuverunum úti um land, séu skattlögð á þennan hátt til hvort heldur Framkvæmdabankans eða annarra banka?

Hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að ég væri allt of smeykur við þessa auðsöfnun. Ég verð nú að segja það, að ég álít það engan veginn praktískustu aðferðina í sambandi við svona lánsútveganir til handa — við skulum segja — Sogsvirkjuninni eða öðru slíku fyrirtæki, að fyrst sé þetta fyrirtæki skattlagt svona og svona mikið til viðkomandi banka og þar með sé þessum banka gert auðveldara að lána þessu fyrirtæki aftur. Ég held, að þetta mætti þá alveg eins vera kyrrt í fyrirtækinu, svo að það mundi þá verða því færara sjálft um að eiga þetta. Þetta þýðir aðeins það, þessi gífurlega skattlagning, að sameina smám saman á eina hönd valdið yfir öllum þessum lánveitingum, og það er ekki allt of góð reynsla, sem við höfum af því. Ég er hræddur um t.d., þó að Landsbankinn sé búinn að safna nú yfir 200 millj. kr. í sina sjóði, að það sé ekki neitt orðið handhægara með lánin út úr honum þrátt fyrir það. Sannleikurinn er, að þessi stóru ríkisfyrirtæki hér eins og bankarnir eru bókstaflega orðin hrædd við að sýna á sínum reikningum, hvað þau eiga. Það er næstum því farið óbeint að falsa reikningana hjá þessum fyrirtækjum. Allt, sem keypt er til allra þessara stóru ríkisfyrirtækja, er afskrifað jafnóðum á sama árinu, afskrifað niður í ekki neitt, afskrifað sem kostnaður, bara til þess að láta það ekki koma fram, að gróði t.d. á einu fyrirtæki sé 40 millj., og reikningarnir sýna bara 26 millj. Allar eignirnar eru uppfærðar á eina krónu t.d. hjá Landsbankanum, allar hans eignir í húsum og lóðum og öðru slíku, á sama tíma hins vegar sem sjóðirnir, þar sem ekki er hægt að minnka þá, eru 200 millj. kr. Og verðbréfin lækkuðu núna ár eftir ár, þó að þau standi í fullu gildi. Mér hefur satt að segja skilizt á hæstv. ríkisstj. eftir yfirlýsingu forsrh., að það gengi nógu erfiðlega einmitt, í sambandi við raforkumálin að fá lán frá þessum bönkum aftur, og ég get ekki skilið þessa pólitík, að vilja endilega skattleggja hvert einasta fyrirtæki, sem ríkið er að koma upp, eins og Sogsvirkjunina og önnur slík, til þess að setja þessa peninga í þessa banka og vera svo sjálfir alltaf í vandræðum, eins og ráðherrarnir eru, með að ná þessu út úr bönkunum aftur. Ég held, að þeir ættu bara að lofa því að vera í ríkissjóði eða hjá ríkisfyrirtækjunum. Þá þyrftu þeir ekki að ganga eins bónleiðir til búðar og hæstv. ríkisstj. hefur gengið í allan vetur í þessum efnum.

Svo ætla ég ekki að orðlengja um þetta, en aðeins minna á það, að mín till. er um, að ríkisstofnanirnar greiði ekki hærra en 1/4 %. En staðreyndin er, að ríkisstofnanirnar, eins og Sogsvirkjunin, greiða 1% núna.