06.04.1954
Neðri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

194. mál, raforkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram eina brtt. við 7. gr. þessa frv., þ. e., að á eftir greininni komi ný grein, svo hljóðandi:

„Allar vélar og efni, sem flutt er inn til þeirra raforkuvera og raforkuframkvæmda, sem gerðar eru samkvæmt þessari áætlun, skulu undanþegnar söluskatti og öðrum tollum.“

Mér finnst rétt í þessu þýðingarmikla máli, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fyrir og fjhn. nú afgreitt, að vilji Alþ. komi alveg greinilega í ljós um, hvort Alþ. sér ástæðu til að taka af þessum 250 millj. kr., sem verja á til raforkuframkvæmdanna á þessum sviðum, sem hér er talað um, á næstu 10 árum yfir 30 millj. kr. í söluskatt og tolla í ríkissjóð. Ég álít, að það yrði beinlínis til þess að flýta fyrir og hjálpa til með þá áætlun, sem hér á að framkvæma, ef vélarnar til raforkuveranna og efni til annarra raforkuframkvæmda yrðu undanþegin söluskattinum og öðrum tollum. Ég hef annars lýst mig algerlega fylgjandi þessu frv., en álit, að samþykkt á svona brtt. mundi stórum bæta það. — Ég vil svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till., þar sem hún er skrifleg og of seint fram komin.