06.04.1954
Neðri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

194. mál, raforkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur gengið svo fljótt með þetta frv., að eftir að brtt. mín við 2. umr. um að undanþiggja raforkuverin og raforkuframkvæmdirnar söluskatti var felld, hefur mér ekki unnizt tími til að útbúa brtt., sem ég hef hugsað mér að flytja við 3. umr. Hún er á þá leið, að fyrst hv. deild hefur með sinni atkvgr. nú lýst því yfir, að hún vilji láta leggja um 30 millj. kr. skatt — söluskatt og tolla — á þessar raforkuframkvæmdir til ríkissjóðs, þá skuli svo fyrir mælt, að þessu fé sé varið á sérstakan hátt. Ég hef áður flutt um það till. hér á þinginu, sem er í allstóru frv., sem legið hefur í n. nokkuð lengi, og ég ætla að leyfa mér að taka upp þá till. mína og leggja til, að þeim greinum, sem ég þar er með, sé bætt aftan við 7. gr. þessa frv. Það mundi þá hljóða svo, að á eftir 7. gr. kæmu svo hljóðandi tvær greinar:

Fyrri greinin: „Ríkisstj. skal leggja andvirði þess, sem hún fær greitt í söluskatt og aðra tolla af vélum og efni til þeirra virkjana, sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum, í sérstakan raftækjasjóð. Skal það fé notað til þess að gera íslenzkum alþýðuheimilum til sjávar og sveita mögulegt að fá öll þau raftæki, sem heimili þarfnast, sem fyrst með góðum afborgunarskilmálum. Skal ríkisstj. semja við raftækjaverksmiðjuna Rafha um fjöldaframleiðslu þessara tækja og afgreiðslu þeirra jafnóðum beint til notenda.“

Önnur greinin: „Ákveðið skal í reglugerð um raftækjasjóð nánar um skilmála og miðað við að gera þeim, sem minnst efni og þyngst heimili hafa, auðveldast að fá öll þau tæki, er létt geta heimilisstörf. Skal þar mælt fyrir, hvert umsóknir skulu sendar og í hvaða röð þær skulu afgreiddar. Skulu þau fyrirmæli tryggja, að þau heimili, þar sem flest börn eru, gangi fyrir að fá tækin.“

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þegar ákvörðun er tekin um að ráðast í jafnstórar raforkuframkvæmdir, þá er það eitt þýðingarmesta atriðið fyrir raforkuverin fjárhagslega, að rafmagnsnotkunin verði undireins sem allra mest á öllu þessu svæði, þannig að allir þeir aðilar, sem rafmagnið er lagt til, geti undireins keypt þau tæki og notað þau, sem geta gert rafmagnsneyzluna sem allra mesta. Frá fjárhagslegu sjónarmiði raforkuveranna væri þess vegna ákaflega heppilegt, að jafnt sveitabýli sem kaupstaðabýli gætu fengið sem mest af þeim tækjum, sem nauðsynlegt er að hafa á heimilum, og gera þeim mögulegt að hagnýta raforkuna til fulls.

En þar fyrir utan, og það er auðvitað aðalatriðið, er nauðsynlegt að sjá til þess, að þau heimili í landinu, sem nú á að gera mögulegt að nota rafmagnið, hafi líka etni á því að nota þetta rafmagn til fulls. Það eru alldýr þau tæki, sem þarf að kaupa til eins heimilis, ef sérstaklegra húsmóðirin á að hafa nægilegt gagn af þeim, og ég býst við, að þeim, sem sérstaklega í þessu sýna lofsverðan áhuga fyrir því að koma rafmagninu út um sveitirnar, sé sérstaklega ljóst, hvaða gerbreytingu rafmagnið getur haft á lífi sérstaklega húsmóðurinnar í sveitum og hvað það þýðir að gera henni mögulegt að geta frá upphafi keypt sér þau tæki, sem þarf, þau tæki, sem gerbreyta vinnu húsmóðurinnar og gerbreyta yfirleitt allri aðstöðu á heimilinu. Nú er það svo, að meginið af öllum þessum tækjum, hvort það eru eldavélar, þvottavélar eða jafnvel ísskápar eða annað slíkt, — að öll þessi tæki svo að segja eru nú framleidd hér innanlands, og það er auðvelt fyrir okkur að tryggja fjöldaframleiðslu á þessum hlutum. Ég veit, að Rafha, sem hefur verið ákaflega duglegt fyrirtæki í þessu og, eins og hv. þm. vita, ríkissjóður á í, hefur aukið mjög sína framleiðslu upp á síðkastið og getur þó aukið hana stórum meir, t.d. með algerlega tvöföldum vöktum hjá sér, þannig að ég efast ekki um, að raftækjaverksmiðjan Rafha væri fær um að framleiða mun meira en hún nú gerir og jafnvel ódýrar, ef samið er við hana um nógu mikið af þessum tækjum. Ég álít þess vegna, að ríkið eigi þarna beinlínis að hjálpa til þess annars vegar, að heimilin og þá ekki hvað sízt sveitaheimilin, og það eru raunar enn þá líka ákaflega mörg heimili í bæjunum, sem ekki hafa getað notað sér þessi tæki, — að þessi heimili geti fengið þessi tæki, og þau munu geta fengið sér þau, ef þau geta fengið á þeim væga afborgunarskilmála. Hins vegar er það svo, að mjög mikið af þessum tækjum, veit ég t.d., eru nú til á heimilum í Reykjavík, en ég er hræddur um, að ef rannsókn færi fram á, á hvaða heimilum þetta er, þá sé fyrst og fremst öll heildin af þessum rafmagnstækjum, ég meina öll þau tæki, sem hægt er að nota og yfirleitt eru til, á efnuðustu heimilunum. Fjölmennustu fjölskyldurnar, þær fjölskyldur, þar sem börnin eru flest, þar sem mest þarf að þvo, þar sem mest er yfirleitt að gera við þessi tæki, hafa venjulega sízt efni á að kaupa sér þau, og ég álít, að það þurfi að bæta úr þessu, ekki einungis í kaupstöðunum, heldur líka að gera það mögulegt í sveitunum að afla sér þessara tækja frá upphafi.

Ef nú hæstv. ríkisstj. er ákveðin í því, eins og auðséð er eftir atkvgr. við 2. umr. þessa máls, að halda söluskattinum á öllum þessum tækjum og taka þar með um 30 millj. kr. í söluskatt og aðra tolla við innflutninginn á vélum og efni í þessi raforkuver og línurnar, þá álít ég rétt að verja þessu fé, sem ríkið þannig fær í tekjur, fyrst og fremst til þess að gera alþýðuheimilunum mögulegt að fá sér þessi tæki. Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja fram þessa till. nú. og ég vil vonast til þess, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. hana. Ég verð hins vegar að biðja forseta, af því að hún er þetta seint fram komin, út af því, hvað fljótt málið er tekið fyrir, að biðja um afbrigði fyrir henni.