16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Menntmn., sem fjallað hefur um þetta frv., hefur ekki haft tækifæri til þess að taka til athugunar þær brtt., sem fram eru komnar, og ekki heldur þau atriði, sem hv. þm. A-Húnv. benti á í ræðu sinni. Ég vil samt sem áður leyfa mér að fara um þessi atriði örfáum orðum.

Hv. þm. A-Húnv. vék að því, að þau ákvæði frv., sem fjalla um fuglaveiðasamþykktir, kunni að vera óþarflega margbrotin og verða óþarflega þung í vöfum, þar sem gert sé ráð fyrir að kveðja til fundar, þegar samþykkt er gerð, þá sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við þau atriði, sem um er fjallað. En þessi ákvæði í frv. eru í samræmi við það, sem nú er í gildandi lögum og verið hefur lengi. Það eru í gildi sérstök lög, heimildarlög, um fuglaveiðasamþykktir í Vestmannaeyjum. Þau eru frá 1894, og þar segir svo um þetta atriði:

„Þegar sýslunefndinni virðist nauðsyn til bera að gera fuglaveiðasamþykkt fyrir sýsluna, skal hún kveðja til almenns fundar, sem auglýstur sé með nægum fyrirvara. Atkvæðisrétt á fundinum eiga allir þeir sýslubúar, er jörð eða jarðarhluta hafa þar til ábúðarafnota.“

Og í sérstökum lögum, sem fjalla um fuglaveiðasamþykktir fyrir Drangey og eru frá 1912, eða hafa verið í gildi í meira en 40 ár, er þessu hagað á mjög svipaðan hátt. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þá er sýslunefnd hefur gert frv. til samþykktar samkv. 1. gr., skal oddviti hennar kveðja til fundar á þeim stað, er sýslunefnd tiltekur, alla héraðsbúa, þá er atkvæðisrétt eiga í sveitarmálum.“

Nefndin, sem undirbjó þetta frv., mun einnig hafa haft til hliðsjónar lagaákvæði um lax- og silungsveiði, en í þeim lagabálki er gert ráð fyrir, að setja megi samþykktir á svipaðan hátt og að er stefnt með þessu frv. En í þeim lögum, sem eru frá 1941, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vilja menn stofna fiskiræktarfélag við fiskihverfi, sem veiði er í, og skal þá kveðja til fundar eigendur allra þeirra jarða, þar sem veiði er stunduð eða hefur verið stunduð í því fiskihverfi.“

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þegar fuglaveiðasamþykktum er komið á, séu kvaddir til fundar allir þeir héraðsbúar, er hagsmuna hafa að gæta í sambandi við hlunnindin, sem um er að ræða, m.ö.o., að það séu kvaddir til fundar eigendur þeirra jarða, sem hlunnindin eiga eða umráð þeirra eiga að hafa. Það getur vitanlega komið til álita að færa þessi ákvæði í það horf, sem hv. þm. A-Húnv. vék að, en ég vil þó á það benda, að eins og frv. er sniðið nú að þessu leyti, þá er það í samræmi við það, sem ákveðið er í lögum nú og reynsla er fengin fyrir.

Brtt. þær, sem prentaðar eru á þskj. 461, eru að mínum dómi ekki um veigamikil atriði í frv. Þar er gert ráð fyrir því, að skot skuli bönnuð nær friðlýstum varpstöðvum nytjafugla en 3 km, en í frv. er þetta mark sett 2 km, og það er í samræmi við það, sem er í lögum nú og hefur verið um alllangt skeið. Það er vitanlega matsatriði hv. þingmanna, hvort þeir vilja, að í löggjöfinni verði endanlega ákveðnir 3 km eða 2 km í þessu falli. Þá er enn fremur sú orðalagsbreyting í till. frá því, sem er í frvgr. sjálfri, að í frvgr. er það beint tekið fram, að skot skuli bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, en í brtt. er þessu orðalagi breytt þannig, að skot skuli bönnuð nær friðlýstum varpstöðvum nytjafugla. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvað í þessari orðalagsbreytingu felst, vegna þess að eins og frá þessu er gengið í frvgr., þá er það í beinu sambandi við 2. málsgr. greinarinnar, sem hljóðar svo:

„Sýslumenn skulu ár hvert á manntalsþingum ótilkvaddir og ókeypis friðlýsa öll æðarvörp í lögsagnarumdæmum sínum.“

Ja, hvaða nytjafuglar eru það aðrir en æðarfuglinn, sem slík friðlýsing getur náð til t Fuglabjörgin verða ekki friðlýst, því að það er ætlunin að leyfa að nytja þau, og nytjar af fuglum öðrum en æðarfugli eru við það miðaðar að taka eggin eða veiða fuglinn sjálfan. Ég kem í fljótu bragði ekki auga á, um hvaða fuglategundir væri að ræða, sem féllu undir þetta ákvæði, aðrar en æðarfuglinn, og sýnist mér því, að þessi orðalagsbreyting sé í sjálfu sér óþörf.

Í b-lið brtt. er gert ráð fyrir því, að þar sem talað er um sýslumenn, að sýslumenn skuli friðlýsa æðarvörp í lögsagnarumdæmi sínu, þá á að Læta við orðinu „bæjarfógetar“. Það er sjálfsagt ekkert á móti því, að það sé gert, ef það er staðreynd, að æðarvörp séu til innan lögsagnarumdæma kaupstaða. Ég geri ráð fyrir því, að n., sem undirbjó frv., hafi litið þannig á, að friðlýst æðarvörp mundu ekki vera innan lögsagnarumdæma kaupstaða og þess vegna væri óþarfi að fela þetta bæjarfógetum.

Um brtt. við 10. gr. frv. vil ég taka það fram, að frá mínu sjónarmiði finnst mér, að þau ákvæði ættu fremur heima í sérstakrí fuglaveiðasamþykkt, sem sett yrði fyrir Vestmannaeyjar. Brtt. fjallar eingöngu um aðstöðu í Vestmannaeyjum, en með ákvæðum frv. um fuglaveiðasamþykktir er gert ráð fyrir því, að sýslunefndum og bæjarstjórnum veitist heimild til þess, hverri í sínu héraði, að gera samþykktir um nytjun hlunnindanna, þ.e.a.s. nytjun fuglabjarga, á þann hátt og með þeim skilyrðum, sem fyrir er mælt í lögunum. Nú er 10. gr. frv. þannig, að hún fjallar um ákvæði til undantekningar frá meginreglunni um friðun fugla. Og sé því þannig farið, að eitthvert bæjarfélag vilji ganga skemmra í því að veita slíkar undantekningar heldur en fyrir er mælt í 10. gr. frv., þá sýnist mér það liggja í augum uppí, að slík ákvæði væri heimilt að setja í fuglaveiðasamþykkt, og þar ættu þau heima.

3. brtt., við 25. gr., felur í sér þá orðalagsbreytingu, að því er mér virðist, að við þau tæki, sem óheimilt á að vera að nota til fuglaveiða, er bætt „svartfuglasnörur“. Fuglaveiði mun nú vera með mjög misjöfnum hætti á ýmsum stöðum á landinu, en ég hygg, að svartfuglasnörur muni vera með tvennum hætti, annars vegar snörur, sem komið er fyrir, festar í fuglabjargi, og af því gæti leitt, að fuglinn sæti fastur í slíkri snöru um nokkurn tíma og að af því leiddi kvalir fyrir fuglinn. En það eru líka til eða voru a.m.k. notaðar fram eftir þessari öld svartfuglasnörur, sem menn höfðu á skafti. Það voru veiðitæki ekki ósvipuð því, sem háfar eru, en miklu óveiðisælli, þar sem brugðið var snöru fyrir fuglinn í stað þess, að í háf er hann látinn festast í net. Hvað sem segja mætti um snörur, sem festar væru í fuglabjarg, þá liggur í augum uppi, að engin ástæða er til þess að banna svartfuglasnörur, sem veiðimaður hefði í höndum á svipaðan hátt og háf, því að slíkt veiðitæki er engu hættulegra en háfur, en hefur aðeins minni áhrif, þannig að það er óveiðisælla en háfurinn sjálfur.

Ég vildi nú láta þessar athugasemdir koma fram. Mitt sjónarmið er það, að í sjálfu sér sé óþarft að samþykkja þær brtt., sem fyrir liggja á þskj. 461, þótt þær séu ekki um stórvægileg atriði og mundu ekki raska frv. eða tilgangi þess, þótt samþykktar yrðu.